Upphafið SFV

Þann 24. apríl 2002 voru stofnuð Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV).  Fulltrúar frá 13 fyrirtækjum voru á stofnfundinum, en fleiri fyrirtæki hafa frá þeim tíma gengið í samtökin, en þau starfa flest að málefnum aldraðra, en einnig við endurhæfingu.

Aðild að samtökunum geta átt fyrirtæki sem fullnægja ákvæðum IV kafla laga um heilbrigðisþjónustu nr. 97/1990 og eru sjálfseignarstofnanir, eru í eigu félagasamtaka, einkaaðila eða sveitarfélaga.

Tilgangur samtakanna er að:

  1. Efla samstarf aðildarfélaga, standa vörð um hagsmuni þeirra og vinna að bættum starfsskilyrðum.
  2. Stuðla að árangursríku samstarfi við heilbrigðisyfirvöld, sveitarfélög,  félagasamtök og aðra þá aðila sem hagsmuna eiga að gæta.
  3. Að koma á framfæri við stjórnvöld og almenning afstöðu samtakanna til mála er varða hagsmuni aðildarfélaga og fylgja þeim fram.
  4. Að gangast fyrir upplýsinga- og fræðslustarfsemi m.a. í því skyni að stuðla að framförum og hagræðingu í starfsemi og rekstri aðildarfélaga.

Með stofnun samtakanna hefur verið skapaður vettvangur fyrir stjórnir og stjórnendur þessara fyrirtækja til að koma saman, bera saman bækur sínar og ræða sameiginleg hagsmunamál.  Sameinuð verða þessi fyrirtæki öflugri, en þau eru eitt og sér og sameiginlega geta þau unnið að ýmsum hagsmunamálum, sem þau hafa hingað til unnið að hvert fyrir sig. 

Helstu verkefni nýrrar stjórnar er að vinna að bættum starfsskilyrðum fyrirtækjanna, og er það von stofnenda samtakanna að það verði gert í góðri samvinnu við heilbrigðisyfirvöld og aðra þá aðila sem hagmuna eiga að gæta.  Jafnframt fékk stjórnin það verkefni að kanna hagkvæmni aðildar að Samtökum atvinnulífsins og verðar niðurstöður þeirrar könnunar lagðar fyrir fyrsta aðalfund samtakanna í apríl á næsta ári.     

Fyrsti formaður samtakanna var kosinn Jóhann Árnason, framkvæmdastjóri Sunnuhlíðar, aðrir í stjórn voru kosnir Júlíus Rafnsson, framkvæmdastjóri á Grund, Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri NLFÍ, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, formaður stjórnar Eirar, og Theodór S. Halldórsson, framkvæmdastjóri SÁÁ.  Varamenn eru Guðmundur Hallvarðsson, formaður stjórnar Sjómannadagsráðs, sem rekur Hrafnistuheimilin og Finnbogi Björnsson, framkvæmdastjóri Dvalarheimila aldraðra Suðurnesjum.

Félagar í samtökunum vænta þess að samtökin geti orðið það afl sem þarf til að bæta starfsskilyrði aðildarfélaga, svo fyrirtækin geti rækt þá þjónustu með sómasamlegum hætti, sem þau hafa tekið að sér.