100 ára þjónusta í þágu aldraðra.
Grund, dvalar- og hjúkrunarheimili, fagnar aldarafmæli í dag, 29. október 2022.
Grund er elsta starfandi heimili fyrir aldraða hér á landi. Aðalhvatamenn að stofnun Grundar voru stjórnarmenn líknarfélagsins Samverjans. Það voru þeir Sigurbjörn Ástvaldur Gíslason guðfræðingur, Flosi Sigurðsson trésmíðameistari, Páll Jónsson skrifstofumaður, Haraldur Sigurðsson verslunarmaður og Júlíus Árnason kaupmaður.
Það var ekki auðvelt verk að stofna heimili fyrir aldraða á þessum tímum en safnað var fyrir verkefninu með ýmsum hætti, s.s. með skemmtunum fyrir aldraða og fjársöfnun meðal bæjarbúa. Í byrjun september 1922 hafði safnast nægjanlegt fjármagn svo stjórn Samverjans gæti fest kaup á steinhúsinu Grund, sem stóð vestan við Sauðagerðistún, eða við Kaplaskjólsveg, eins og við þekkjum í dag. Húsið var vígt 29. október sama ár.
Í upphafi voru heimilismenn 21 en þeim fjölgaði hratt og hófst því fljótlega vinna við nýtt húsnæði á lóð milli Hringbrautar og Brávallagötu sem bæjarstjórn Reykjavíkur hafði úthlutað heimilinu. Síðan þá hefur Grund vaxið jafnt og þétt og sér heimilið nú m.a. um rekstur dvalarheimlisins Áss í Hveragerði og hjúkrunarheimilisins Markar í Reykjavík, auk þess að eiga og reka þjónustuíbúðir við Suðurlandsbraut.
Í tilefni aldarafmælis Grundar hefur heimilið gefið út veglegt 300 síðna afmælisrit um sögu þess. Þar er stiklað á stóru um lífið og starfið á Grund síðustu 100 árin. Sagan er skráð af feðginunum sr. Guðmundi Óskari Ólafssyni og Guðbjörgu R. Guðmundsdóttur.
Þá má lesa stutta samantekt um sögu Grundar á heimasíðu heimilisins.