Fréttir og tilkynningar

Aðalfundur SFV 22. apríl 2013

gislipall

Kæru félagsmenn, góðir gestir

Velkomin á aðalfund Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu.  Ég vil byrja á því að þakka stjórnendum Krabbameinsfélagsins kærlega fyrir að taka á móti okkur.  Á síðasta aðalfundi sem haldinn var hjá Eir fyrir nákvæmlega einu ári og einum degi betur, voru auk mín kosin í stjórn, þau Ásgerður Björnsdóttir, Margrét Ósvaldsdóttir, Pétur Magnússon og Ragnheiður Haraldsdóttir og til vara þeir Björn Bjarki Þorsteinsson og Jóhann Árnason.  Finnbogi Björnsson og Tryggvi Friðjónsson gáfu ekki kost á sér til endurkjörs og komu ný inn í stjórn og varastjórn þau Ragnheiður og Bjarki.  Stjórnin skipti með sér verkum á þann veg að Pétur var kosinn varaformaður, Margrét ritari og Ásgerður gjaldkeri.  Varastjórnarmenn eru ávallt boðaðir á stjórnarfundi og mæta jafnt á við aðra.  Lagabreytingartillaga sem var send út með aðalfundarboði felur í sér breytingu á skipan stjórnar en betur að því síðar.  Við höfum frá síðasta aðalfundi haldið 11 stjórnarfundi, stefnumótunarfund sem varði í einn sólarhring í Skálholti og einn félagsfund sem haldinn var í febrúar sl.  Þetta er einum stjórnarfundi fleiri en á síðasta starfsári en félags- og samráðsfundum hefur heldur fækkað.

Á árlegum stefnumótunarfundi stjórnar sem haldinn var í Skálholti í byrjun september á síðasta ári voru línur lagðar fyrir vetrarstarfið.  Þar var samþykkt að leggja mesta áherslu á lífeyrisskuldbindingar, hvað annað, en þar að auki var sett á blað og að fjallað yrði um með einhverjum hætti, yfirfærslu á málefnum aldraðra frá ríki til sveitarfélaga, kostnað hjúkrunarheimila vegna dýrra lyfja og hjálpartækja, innheimta kostnaðarhlutdeildar heimilismanna hjúkrunarheimila, ráðstefnuhald, væntanlegan niðurskurð á fjárlögum vegna ársins 2013, samstarf við landlæknisembættið, skoða möguleika á að ráða starfsmann til samtakanna, félagsfundir, lagabreytingar, samstarf við Landsamband eldri borgara og afla nýrra félagsmanna.  Ég mun koma inn á flest þessarar atriða auk nokkurra annarra.

Eitt heimili yfirgaf okkur á þessu starfsári en það var Grenilundur á Grenivík.  Segja má að annað heimili hafi yfirgefið okkur og nýtt komið beint í staðinn en Holtsbúð í Garðabæ var lagt niður en í stað þess er nýja heimilið í Garðabæ, sem heitir Ísafold gengið í samtökin. Ég býð Ísafold og forstöðumann þess, Ingibjörgu Valgeirsdóttur hjartanlega velkomin í samtökin.

Stærsta einstaka málið sem við höfum glímt við í vetur, er því miður það sama og við höfum verið að reyna að leysa undanfarin ár, lífeyrisskuldbindingar aðildarfélaga SFV.  Sjálfsagt vitið þið flest um hvað málið fjallar í aðalatriðum þannig að ég ætla ekki að rekja alla sögu þess, heldur fara yfir stöðuna eins og hún er í dag og hvaða leiðir eru til lausnar.  Eftir að málið sigldi í strand í febrúar á síðasta ári hafa óformlegar viðræður átt sér stað á milli velferðar- og fjármálaráðuneytis, okkar og sambands sveitarfélaga.  Eins og ykkur er kunnugt þá munu sveitarfélögin ekki taka málaflokk aldraðra yfir til sín án þess að gengið verði frá þessum lífeyrisskuldbindingamálum.  Ég hef átt mjög gott samstarf við Bolla Þór Bollason skrifstofustjóra í velferðarráðuneytinu um málið og hann er enn bjartsýnn á að það náist farsæl lausn þrátt fyrir þróun mála.   Hann ásamt fulltrúum fjármálaráðuneytis hafa átt all nokkra fundi um málið sín í milli en auk þess hafa fulltrúar beggja ráðuneyta átt í það minnsta tvo fundi nú nýverið með fulltrúum sambands sveitarfélaga.  Ég hef fengið staðfest að ákveðin tillaga að lausn liggi á borðinu en því miður náðist ekki að kynna mér hana fyrir þennan aðalfund.  Ég á von á því að ég heyri í Bolla á næstu vikum og í framhaldi verður vonandi hægt að leggja línur með hvaða hætti verði hægt að leysa þetta erfiða mál.  Þessi vinna hefur fyrst og fremst miðast að því að byrja á því að reyna að leysa lífeyrisskuldbindingamálið gagnvart öldrunarstofnununum og í framhaldi verður síðan unnið að lausn þeirra fjögurra aðildarfélaga SFV sem ekki sinna öldrunarþjónustu.  Við áttum í þar síðustu viku ágætan fund með fulltrúum þeirra auk lögmanna okkar hjá Juris, þeim Andra Árnasyni og Þóru Jónsdóttur þar sem kynnt voru drög að minnisblaði um stöðu þeirra en frekari gagnaöflun stendur nú yfir og verður unnið áfram við gerð minnisblaðsins.

Í febrúar sl. ákvað Sjómannadagsráð fyrir hönd Hrafnistuheimilanna að hætta að greiða áfallnar lífeyrisskuldbindingar vegna b – deildar lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga.  Grund og Ás fylgdu í kjölfarið í mars ásamt Sunnuhlíð, Hlévangi og Garðvangi.  Í sem skemmstu máli má segja að engin viðbrögð hafi borist frá velferðarráðuneyti vegna þessa og er það í raun hið furðulegasta mál.  Vitaskuld er ekki við LSR að sakast í þessu máli en Hrafnista og aðrir aðilar sem hafa ákveðið að hætta að greiða töldu þetta vera síðasta hálmstráið sem hægt væri að grípa í og í það minnsta vekja athygli ráðamanna með þessu.  Nokkur fjölmiðlaumfjöllun varð í kjölfarið og var undirritaður boðaður á fund fjárlaganefndar alþingis um málið og fór Þóra lögfræðingur með mér á þann fund. Einnig mættu á fundinn fulltrúar fjármála- og velferðarráðuneytis.  Var fundurinn hinn ágætasti en skilaði sennilega ekki miklum árangri.  Stöðug bjartsýni mín á lausn málsins hefur ekki bilað hingað til og það er mín von og trú að þetta mál leysist með farsælum hætti á þessu ári.

Tvær ráðstefnur voru haldnar á okkar vegum.  Sú fyrri var haldin á Grand hótel 18. október sl. undir yfirskriftinni “Öryggismál hjúkrunarheimila.“  Í beinu framhaldi af ráðstefnunni héldum við upp á 10 ára afmæli samtakanna og tókst sá gleðskapur með miklum ágætum þrátt fyrir fjarveru nokkurra boðsgesta.  Sú seinni var einnig haldin á Grand hótel 14. mars sl. undir yfirskriftinni “Fjármögnun heilbrigðisþjónustu.”  Forseti Íslands flutti ávarp en að loknum framsöguerindum þá svöruðu fulltrúar þeirra sex flokka sem eiga fulltrúa á alþingi spurningum fundarmanna í pallborðsumræðum.  Báðar ráðstefnur tókust vel og eins og endranær vöktu þær einnig athygli á tilvist samtakanna.  Þær eru vissulega nokkuð kostnaðarsamar en við fáum talsverða umfjöllun vegna þeirra og all margir fundargesta koma frá ráðuneytum og öðrum opinberum aðilum þannig að mitt mat er það að við eigum að halda okkur við það fyrirkomulag að halda tvær ráðstefnur á ári.

Yfirfærsla á málefnum aldraðra hefur verið í undirbúningi frá því í nóvember árið 2011 en þar er meðal annars að störfum 13 manna nefnd undir forystu Bolla Þórs skrifstofustjóra velferðarráðuneytis.  Nefndin er skipuð fulltrúum úr ráðuneytum og hagsmunaðilum og á ég sæti í nefndinni fyrir hönd okkar samtaka.  Þegar sýnt var að yfirfærslan næðist ekki á kjörtímabili þessarar ríkisstjórnar var eins og að drægi úr áhuga manna að ljúka verkinu, fundum snar fækkaði og nú eru líkindi til þess að yfirflutningurinn eigi sér ekki stað fyrr en í fyrsta lagi 1. janúar 2015 eða jafnvel ekki fyrr en 1. janúar 2016.  Sumir segja seinna, aðrir aldrei.  Það er erfitt að segja til um hvenær eða yfir höfuð hvort verður af þessu, tíminn leiðir það í ljós.

Samstarf við landlækni varð minna en stefnt var að.  Á fyrri hluta síðasta árs var skipaður fimm manna vinnuhópur vegna birtingar gæðavísa hjúkrunarheimila.  Hópinn skipa tveir frá okkur, tveir frá landlækni auk Ingibjargar Hjaltadóttur en verkefni hópsins er að móta verklagsreglur með hvaða hætti þessir gæðavísar verði birtir.  Hópurinn hefur tekið til starfa en niðurstaða liggur ekki fyrir enn sem komið er.

Fyrir tveimur árum ákvað stjórn SFV að hitta árlega fulltrúa Landssambands eldri borgara og við áttum samráðsfund með þeim í október og mars sl.  Meðal atriða sem við ræddum á þessum fundum voru endurskoðun laga um almannatryggingar, greiðsluþátttaka heimilismanna auk fleiri atriða.  Þessir fundir eru gagnlegir og nauðsynlegt fyrir bæði samtökin að vita að hverju hvor aðili er að vinna.

Stjórnin ákvað að skoða möguleika þess að ráða starfsmann til samtakanna og að því komu auk mín Kristján Sigurðsson, Sigurður Rúnar Sigurjónsson og Tryggvi Friðjónsson.  Við héldum nokkra fundi, skiptumst á skoðunum og upplýsingum en formleg tillaga til stjórnar um lausn málsins var ekki lögð fram.  Nefndin var þó sammála um að núverandi fyrirkomulag gengi ekki til lengdar.  Tvær megin leiðir komu til greina að mati nefndarmanna.  Annars vegar að ráða starfsmann í hálft starf en kostnaður við það yrði um það bil 6 milljónir á ári.  Hin leiðin væri sú að verkefnatengja starfið, ef svo mætti að orði komast, þannig að það yrði ráðinn ráðgjafi sem fengi ákveðna lágmarkstíma greidda en einnig yrði sett hámark á tímafjöldann.  Þessi einstaklingur yrði einnig formaður launanefndar SFV.  Samhliða þessari seinni leið hefði formaður heimild til að ráða ritara í ýmis verkefni svo sem fundarhöld, ráðstefnur og hvað það annað sem formaður telur henta hverju sinni.  Til stóð að ræða þessi mál á félagsfundi í febrúar en ekki vannst tími til þess.  Það væri ágætt að fá að vita hvaða skoðun þið hafið á þessu.

Kjaramálin hafa ekki verið áberandi þennan veturinn.  Við fylgdum í kjölfar ríkis og almenna markaðarins, með styttingu á kjarasamningum en þeir voru styttir um tvo mánuði, frá 31. mars 2014 til 31. janúar sama ár.  Í stað styttingar kemur eingreiðsla upp á 38.000 krónur þann 1. janúar 2014 og kemur sú greiðsla til með að tilheyra árinu 2014.  BSRB hefur farið fram á að komið verði á fót samstarfsnefnd sem hefði það hlutverk að skýra réttindi og skyldur starfsmanna aðildarfélaga SFV.  Þessi beiðni er meðal annars til komin vegna dóms hæstaréttar vegna sjúkraliða sem höfðaði mál gegn Hrafnistu en við fengum kynningu á þeim dómi á félagsfundi okkar sem var haldinn á Grund í febrúar síðastliðnum.  Samninganefndin er nú skipuð fjórum einstaklingum og líklegt má teljast að það verði fjölgað í nefndinni fyrir haustið.  Ný stjórn tekur afstöðu til þess fljótlega.  Í lagabreytingatillögu sem verður tekin fyrir og afgreidd á eftir er sú nýbreytni lögð til að formaður launanefndar SFV verði valinn úr hópi stjórnarmanna.  Hingað til hefur það verið misjafnt hvort formaður launanefndarinnar hafi átt sæti í stjórn samtakanna en það tryggir mun betri tengsl við stjórnina að hafa formanninn í stjórninni og þess vegna er þetta lagt til.

Einn stjórnarmaður gefur ekki kost á sér til endurkjörs en það er Jóhann Árnason framkvæmdastjóri Sunnuhlíðar.  Hann gegndi formennsku í samtökunum fyrstu sex árin og hefur setið í stjórn eða varastjórn frá því ég tók við formennskunni árið 2008.  Jóhann er einstakur maður, ráðagóður og yfirvegaður og var kjölfestan í samtökunum á fyrstu árum þeirra.  Hann mótaði starfið í upphafi og hefur fylgt því ötullega eftir.  Ég vil fyrir hönd stjórnarinnar þakka Jóhanni kærlega fyrir hans góðu störf fyrir samtökin og bið hann um að koma hingað til mín og taka við smá gjöf frá samtökunum.

Ég var fyrst kosinn formaður samtakanna vorið 2008 og hef því gegnt formennskunni í fimm ár.  Það var ætlun mín að ná niðurstöðu í lífeyrisskuldbindingamálið á þessu starfsári, láta það gott heita og hætta þá sem formaður samtakanna.  En ég er ekki þeirrar gerðar að gefast upp og því gef ég kost á mér til endurkjörs nú á eftir en vona jafnframt samhliða því, að þetta verði mitt síðasta ár sem formaður okkar góðu samtaka.  Það er tímafrekt að vera formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu og maður endist ekki endalaust í þessum erli.  Ég vil í lokin nota þetta tækifæri og þakka stjórnarmönnum afar gott samstarf og ykkur öllum sömuleiðis fyrir gott og farsælt samstarf á yfirstandandi starfsári.

Gísli Páll Pálsson,formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu

Flutt á aðalfundi SFV  haldinn hjá Krabbameinsfélagi Íslands mánudaginn 22.apríl 2013

 

Tillaga til stjórnarkjörs á aðalfundi SFV haldinn 22. apríl 2013:

Formaður:  Gísli Páll Pálsson.

Stjórnarmenn:  Ásgerður Björnsdóttir, Björn Bjarki Þorsteinsson, Kristján Sigurðsson, Margrét Ósvaldsdóttir, Pétur Magnússon og Ragnheiður Haraldsdóttir.

Skoðunarmenn:  Hrefna Sigurðardóttir og Ingibjörg Ólafsdóttir