Aðalfundur Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu var haldinn þann 26. febrúar sl.
Breytingar urðu á stjórn samtakanna. Gísli Páll Pálsson gaf ekki kost á sér sem formaður stjórnar, en hann hefur verið formaður stjórnar SFV í átta ár. Þá hafði Þröstur Árni Gunnarsson sagt sig úr stjórn samtakanna í nóvember sl. þegar hann lét af störfum hjá Krabbameinsfélaginu.
Ný stjórn SFV samkvæmt kosningu á aðalfundi þann 26. febrúar sl. er eftirfarandi:
Pétur Magnússon, formaður stjórnar, frá Sjómannadagsráði.
Anna Birna Jensdóttir, frá Sóltúni.
Ásgerður Th. Björnsdóttir, frá S.Á.Á.
Björn Bjarki Þorsteinsson, frá Brákarhlíð hjúkrunar – og dvalarheimili.
Brynjar Þórsson, frá Heilsustofnun NLFÍ.
Margrét Árdís Ósvaldsdóttir, frá Seljahlíð – heimili aldraðra.
Sveinn Magnússon, frá Eir hjúkrunarheimili.
Frekari upplýsingar um stjórn samtakanna má finna undir liðnum ,,Stjórn samtakanna“.
Fráfarandi stjórn SFV, starfsmaður samtakanna, sem og fyrirsvarsmenn aðildarfélaga, nýttu tækifærið á aðalfundinum til að þakka Gísla Páli fyrir mikilvæg og góð störf í þágu SFV. Ljóst er að vegur samtakanna hefur vaxið mikið undir hans stjórn og gríðarlega mikilvæg markmið hafa náðst á hans starfstíma.
Hér að neðan má lesa ræðu fráfarandi formanns SFV, Gísla Páls Pálssonar:
Kæru félagsmenn, góðir gestir
Verið hjartanlega velkomin á aðalfund Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu. Ég mun nú í síðasta skipti fara stuttlega yfir það helsta í starfsemi samtakanna á yfirstandandi starfsári. Fyrsta heila starfsárinu sem við njótum þeirra forréttinda að vera með starfsmann í fullu starfi. Betur að því síðar.
Á síðasta aðalfundi sem haldinn var Seljahlíð fyrir 10 mánuðum, voru auk mín endurkosin í stjórn, þau Ásgerður Björnsdóttir, Björn Bjarki Þorsteinsson, Margrét Ósvaldsdóttir, Pétur Magnússon og Þröstur Árni Gunnarsson. Einn nýr stjórnarmaður kom til liðs við stjórnina, Anna Birna Jensdóttir forstjóri Sóltúns sem kom í stað Ragnheiðar Haraldsdótur þáverandi forstjóra Krabbameinsfélagsins. Stjórnin skipti með sér verkum á þann veg að Pétur var kosinn varaformaður, Margrét ritari, Ásgerður gjaldkeri og Þröstur formaður launanefndar samtakanna. Við höfum frá síðasta aðalfundi haldið 10 stjórnarfundi, stefnumótunarfund sem varði í einn sólarhring í Skálholti og þrjá félagsfundi.
Á árlegum stefnumótunarfundi stjórnar sem haldinn var í Skálholti í byrjun september á síðasta ári voru línur lagðar fyrir vetrarstarfið. Þar var samþykkt að leggja áherslu á mörg mikilvæg mál. Gerð þjónustusamninga við Sjúkratryggingar Íslands stóð þar upp úr, lífeyrisskuldbindingar, ráðstefnuhald, starf launanefndar samtakanna og hvernig megi tryggja sanngjarnar launabætur frá ríkinu, reykingar á hjúkrunarheimilum og fleira. Ég mun koma inn á flest þessara atriða auk nokkurra annarra.
Þrjú ný aðildarfélög gengu til liðs við okkur á þessu starfsári. Grenilundur á Grenivík, Silfurtún í Búðardal og Sólheimar í Grímsnesi. Býð ég þau öll velkomin í samtökin okkar.
Lang stærsta málið okkar á síðasta ári og í byrjun þessa hafa verið samningamálin við Sjúkratryggingar Íslands um rekstur hjúkrunarheimilanna. Við áttum 26 bókaða fundi með samninganefnd Sjúkratrygginga á síðasta ári en af okkar hálfu hafa setið í samninganefnd SFV auk undirritaðs, Pétur Magnússon, Bjarki Þorsteinsson og Eybjörg Helga Hauksdóttir. Þá hefur Gunnlaugur Júlíusson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga setið í nefndinni fyrir hönd sambandsins. Þá hafa all margir komið að þessari samningagerð þar sem sérstaklega voru teknir voru fyrir ákveðnir þættir í samningagerðinni. Ber þar helst að nefna mönnunarmál, húsnæðiskostnað og hótelkostnað. Samkomulag náðist um fjárhæð húsnæðiskostnaðar, bæði viðhaldshluta, þar sem innifalið var minni háttar viðhald, fasteignagjöld og tryggingar og þess háttar, og svo fjármagnshluta húsnæðiskostnaðarins, það er vexti og afborganir lána og afskriftir. Kem nánar að því síðar hvaða stóð svo út af varðandi húsnæðiskostnaðinn.
Ég ætla ekki að fara nákvæmlega í saumana hvernig þessar viðræður hafa gengið, það höfum við gert á félagsfundum og með tölvupóstsendingum, en ætla þess í stað að fara stuttlega yfir hvað það er sem stendur út af borðinu. Segja má að það séu fyrst og fremst fjögur atriði sem helst ber í milli. Í fyrsta lagi þá er það enn ekki komið á hreint af hálfu viðsemjanda okkar hvaða þjónustu hjúkrunarheimilinum beri að veita. Það er hvaða mönnunarlíkan eigi að miða við varðandi umönnunarþáttinn. Á að miða við núverandi mönnun? Á að miða við mönnunina eins og hún er skilgreind í kröfulýsingu heilbrigðisráðuneytisins? Eða á að miða við lágmarksmönnun landlæknisembættisins? Eða ef til vill einhverja fjórðu tegund mönnunar sem við vitum svo sem ekki hver gæti verið. Ég viðurkenni það fúslega að ég var ekki nógu ákveðinn í þessum viðræðum að fá þetta á hreint og segja má að um mistök mín hafi verið að ræða. Pétur hefur tekið á þessu af myndarskap og við ákváðum að tillögu hans að boða einhliða til fundar með fulltrúum heilbrigðisráðuneytis, landlæknisembættis og Sjúkratrygginga Íslands, ásamt okkur auðvitað, þar sem farið var rækilega yfir þessa óvissuþætti sem eru fyrir hendi varðandi umönnunarþáttinn og mönnunarmálin tengt því. Fundurinn var haldinn fimmtudaginn 4. febrúar og var góð mæting frá öllum ofangreindum aðilum. Við vonuðumst til að fá nokkuð skýrari mynd á það hvernig mönnunin ætti að vera en okkur varð ekki að ósk okkar. Málin voru rædd fram og til baka en ráðuneytisfólkið, sem okkur virðist að eigi að taka af skarið, gat engu svarað hvaða mönnunarlíkan ætti að gilda. Annar fundur hefur verið boðaður með sömu aðilum, í mars að ég held, og vonandi skýrast þá línur með þetta mikilvæga mál. Þegar maður horfir í baksýnisspegilinn, og það er alltaf gott að vera vitur eftir á, þá er það auðvitað alveg stórkostlega furðulegt að sá sem ætlar sér að kaup þjónustu af okkur skuli ekki hafa ákveðið magn og gæði væntanlegrar keyptrar þjónustu, tæpum fjórtán mánðum eftir að samningaviðræður hófust.
Í öðru lagi liggur ekki enn ljóst fyrir hvort og hvernig ríkið hyggst fullnusta samkomulag það sem samtökin gerðu við fjármála- og efnahagsráðherra í apríl árið 2014. Í því samkomulagi kemur skýrt fram að á árinu 2014 átti að ljúka greiningu þjónustusamninga ríkisins við Heilsustofnun NLFÍ, Krabbameinsfélag Íslands og SÁÁ með tilliti til lífeyrisskuldbindinga. Þá yrði gerð sambærileg greining vegna þeirrar starfsemi Sjálfsbjargar sem ríkið hefur fjármagnað. Og þá segir í samkomulaginu að við ofangreinda greiningarvinnu skuli metið í hve miklum mæli meginþættir þessa samkomulags geti átt við. Það er skemmst frá því að segja að ekkert af þessu hefur staðist. Við áttum einhverja örfáa fundi á síðasta ári með fulltrúum fjármálaráðuneytisins en síðastliðið rúmt hálft ár hef ég varla fengið svar við þeim beiðnum mínum um fund með Viðari Helgasyni sem heldur utan um málið af hálfu fjármálaráðuneytis. Hann ber við miklum önnum í starfi en í mínum huga er augljóst að ráðuneytið ætlar sér ekki og vill ekki standa við samkomulagið um framhald viðræðnanna. Svipaða sögu er að segja um bókun þá sem fylgdi samkomulaginu þess efnis að viðræður hefjist á milli fjármálaráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um uppgjör lífeyrisskuldbindinga hjúkrunarheimila sem stofnuð eru af sveitarfélögum eða rekin á ábyrgð þeirra. Stefnt skuli að því að ljúka þeim viðræðum um mitt næsta ár, sem sagt mitt ár 2015. Það hefur lítið gerst í þessu en viðræðunefnd hefur þó skipuð og einhverjar viðræður hafa átt sér stað. Þessi ófrágengnu atriði er snerta lífeyrisskuldbindingar starfsmanna koma í veg fyrir að hægt sé að ganga frá samkomulagi við Sjúkratryggingar um rekstur hjúkrunarheimila.
Þriðja atriðið sem stendur í veginum fyrir að samkomulag náist er skortur á skynsamlegri lausn á því með hvaða hætti launabætur og aðrar þær peningalegu bætur sem við þurfum að fá vegna launa- og verðlagshækkan séu reiknaðar út og greiddar til okkar. Við sem þekkjum hvernig þessum málum er háttað í dag vitum að ríkið reiknar vísvitandi út lægri launabætur en okkur ber með því að nota óeðlilega lágt hlutfall launa af heildarkostnaði við rekstur hjúkrunarheimila. Og þar sem laun hækka yfirleitt meira en verðlag, í það minnsta seinni árin, þá veldur þetta kerfisskekkju sem sífellt eykur rekstrarvanda hjúkrunarheimilanna. Við höfum enn ekki séð hvernig þessu máli verður lent á skynsamlegan hátt.
Að lokum má nefna stórt atriði sem er óafgreitt og það er áður nefndur húsnæðiskostnaður. Eins og áður sagði náðist samkomulag um allar fjárhæðir, líka fjármagnskostnað og afskriftir. Byggir sá útreikningur að mestu á hinum svo kölluðu leiguleiðaheimilum sem hafa verið byggð undanfarin ár víðs vegar um landið. Sveitarfélögin sem hafa byggt þessi hjúkrunarheimili hafa fjármagnað byggingarnar með lánsfé sem ríkið hefur svo fallist á að greiða þeim fyrir með ákveðnu leigugjaldi. Þetta leigugjald byggir á raunkostnaði við að taka lán til framkvæmda og borga svo af því afborganir og vexti. Við í samninganefndinni höfum óskað eftir því að sama verði látið yfir alla ganga, það er að það verði greiddur fjármagnskostnaður allra þeirra sem hafa byggt hjúkrunarheimili hér á landi á undanförnum áratugum en á þær óskir vilja sjúkratryggingar ekki fallast á og þetta á eflaust eftir að reynast erfitt úrlausnar.
Lífeyrisskuldbindingarnar fjallaði ég um hér að framan og ætla ekki að bæta frekar við þann kafla hér.
Tengt þessu með húsnæðiskostnaðinn var fréttaflutningur í byrjun þessa mánaðar þess efnis að Grund og Ás hyggðist opna gistiheimili fyrir ferðamenn í því húsnæði sem stæði autt í Hveragerði og Grund væri að skoða breytingu á notkun hluta þess húsnæðis sem í dag er notað undir rekstur hjúkrunarheimilis. Samskonar viðhorf komu fram hjá stjórnendum Hrafnistu. Þessi rekstur gistiheimilis í Hveragerði hefur verið í skoðun í all langan tíma og það er gaman að segja frá því að fyrstu gestirnir koma næstkomandi þriðjudag, hjón frá Hong Kong. Geðrýmum í Ási hefur markvisst verið fækkað af ráðamönnum og okkur var því þessi kostur nauðugur í stað þess að láta húsnæðið standa autt. Og svipaða sögu er að segja af Grund. Þessi tvö heimili sendu heilbrigðisráðherra húsaleigureikning vegna fjármagnskostnaðarhluta húsaleigunnar, þann hluta sem ríkið neitar að greiða, að upphæð 320 milljónir króna. Ef Grund og Ás fengju sem sagt samskonar leigugreiðslur og til dæmis Hrafnista á Nesvöllum eða Ísafold í Garðabæ, þá væru tekjur þessara tveggja heimila 320 milljónum króna hærri á síðasta ári. Það munar um minna. Ég hef óskað eftir fundi með heilbrigðisráðherra til að ræða hvernig og hvenær ráðuneytið hyggst greiða þennan húsaleigureikning en ekki fengið fundartíma enn. Það kemur. Þið afsakið þennan útúrdúr en fannst málið tengjast beint þessum viðræðum okkar við Sjúkratryggingar um greiðslu húsnæðiskostnaðar.
En þá aftur að starfsemi SFV. Breytingar urðu á formennsku launanefndar samtakanna. Þröstur Árni Gunnarsson fjármálastjóri Krabbameinsfélagsins hætti í stjórninni í nóvember síðastliðnum og tók Eybjörg yfir formennskunni, tímabundið til að byrja með. Nú á eftir verður kosin ný stjórn samtakanna og þar á meðal annars væntanlega nýr formaður launanefndarinnar. Í all nokkurn tíma hefur vantað einn fulltrúa í launanefndina en upphaflega voru þeir fimm. Stjórn SFV ákvað því á fundi sínum í september að skipa Karl Óttar Einarsson bókara á Grund í launanefndina. Fulltrúar í launanefnd SFV eru sem sagt Eybjörg formaður, Kristín Sigurþórsdóttir varaformaður, Ágúst Jónatansson, Lucia Lund og Karl Óttar. Margir samningar voru gerðir seinni hluta síðasta árs og í byrjun þessa og allir til nokkurra ára. Tryggir þetta vonandi vinnufrið á næstu árum. Unnið er að gerð stofnanasamninga við hin ýmsu stéttarfélög og stefnt er að því að hafa þá eins miðlæga og kostur er.
Við héldum þrjá félagsfundi þetta starfsárið. Sá fyrsti var haldinn 28. ágúst á Hrafnistu í Reykjavík og snerist hann fyrst og fremst um samningagerðina við Sjúkratryggingar. Pétur fór rækilega yfir stöðu mála, hvað stæði út af og hvers væri að vænta á næstu mánuðum. Góðir gestir fundarins voru þau Steingrímur Ari Arason og Helga Garðarsdóttir frá Sjúkratryggingum en sú síðarnefnda fór yfir stöðuna frá sjónarhóli SÍ. Önnur mál voru svo rædd eftir kaffihlé og bar þar hæst lífeyrisskuldbindingar, kjaramál og fleira.
Annar félagsfundur var svo haldinn þann 20. nóvember í Mörk, hjúkrunarheimili. Aftur var aðal umfjöllunarefnið samingagerðin og fórum við Pétur og Eybjörg yfir helstu þætti málsins eins og staðan var á þeim tíma.
Þriðji félagsfundurinn var svo haldinn þann þann 15. janúar sl. á Hrafnistu Boðaþingi. Fjölmiðlar komust á snoðir um fundarhaldið og kölluðu þennan fund neyðarfund, sú nafngift kom ekki frá okkur sem sagt, en með sanni má segja að þetta hafi verið neyðarfundur. Á þessum tíma hafði Garðabær ákveðið að skila rekstri Ísafoldar aftur til ríkisins, Akureyrarbær gaf út dökka skýrslu um rekstrarkostnað og rekstrarhorfur Öldrunarstofnana Akureyrarbæjar og forsvarsmenn Hraunbúða viðruðu þá hugmynd að feta í fótspor Garðbæinga og skila rekstri heimilisins til ríkisins. Þá fengum við Eybjörg tölvupósta og símtöl frá forsvarsmönnum margra aðildarfélaga þar sem þeir báru sig verulega illa. Fundurinn hófst með stuttri ræða undirritaðs og í framhaldi af því töluðu þeir Guðmundur Hallvarðsson, stjórnarformaður Sjómannadagsráðs, Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæ, Halldór Guðmundsson framkvæmdastjóri Öldrunarheimila Akureyrarbæjar og Sigurður Rúnar Sigurjónsson forstjóri Eirar og Skjóls. Þeir sögðu okkur frá stöðu sinna stofnana og hvaða leiðir þeir töldu skynsamlegt að fara. Fundurinn vakti mikla athygli fjölmiðla og voru fréttir af honum dagana á eftir. Samþykkt var ályktun á fundinum sem var send viðeigandi aðilum, svo sem ráðherrum heilbrigðis-, fjármála og forsætis, embættismönnum og svo fjölmiðlum. Í ályktuninni óskuðum við eftir fundi með ofangreindum þremur ráðherrum en fengum eingöngu fund með heilbrigðisráðherra. Held að forsætis hafi ekki einu sinni svarað. Við höfum hitt heilbrigðisráðherra tvisvar eða þrisvar vegna fjárhagsstöðu aðildarfélaga SFV og síðast lofaði hann útspili, ekki skilgreint hvort það væru fjármunir eða eitthvað annað, um þessi mánaðarmót. Svo hefur það nú verið aðeins frjálslegt hvernig menn túlka slíkar tímasetningar eða með hvaða hætti menn rífa af dagatalinu í þessu ágæta ráðuneyti. Í það minnsta hefur okkur ekki borist nein vitneskja um hvað felst í þessu útspili. Það verður að koma í ljós og vonandi verður það í næstu viku þó að reynslan kenni manni að vera ekki alltof bjartsýnn.
Sérstök uppákoma átti sér stað síðastliðið vor. Við útgáfu reglugerðar um daggjöld í upphafi síðasta árs náðist fram langþráð krafa okkar um að sama húsnæðisgjald yrði greitt fyrir dvalarrými og hjúkrunarrými. Hingað til hafði húsnæðisgjald dvalarrýmis aðeins numið um það bil þriðjungi af húsnæðisgjaldi hjúkrunarrýmis. En með nýju reglugerðinni var þetta sem sagt á pari. Og fögnuðum við þessum áfanga. Þegar kemur svo að því að ýta þurfti á eftir þessum greiðslum segist ráðuneytið hafa gert mistök við útgáfu reglugerðarinnar, það hafi aldrei staðið til að þetta yrði með þessum hætti. Og gaf ráðuneytið út nýja reglugerð sem gilti að mig minnir frá miðjum maí og aftur var farið í fyrri hlutfall varðandi greiðslu húsnæðisgjalds vegna dvalarrýma. Þriðja uppákoman í þessu mjög svo skondna máli átti sér svo stað í lok sumars þegar starfsmenn ráðuneytisins sjá fyrir sér að fjárveitingin vegna þessa liðar kemur ekki til með að duga út árið þar sem þessu meintu mistök kostuðu meira en áætlað hafði verið. Var þá gefin út þriðja reglugerðin þar sem húsnæðisgjald vegna dvalarrýmis var fellt niður það sem eftir lifði árs frá seinni hluta síðasta sumars. Þetta hljómar eins og reyfari og auðvitað er það með ólíkindum hvernig stjórnsýsla heilbrigðisráðuneytisins virkar, eða kannski réttara að segja, virkar ekki.
Samræmd veikindaskráning er eitt af þeim efnisatriðum sem við fjölluðum um í Skálholti og Eybjörg hefur verið að vinna að gagnaöflun í þessu máli undir forystu Maggýar, sem er að ég held nánast alltaf kölluð Maggý en heitir Margrét Árdís Ósvaldsdóttir. Hafa þær eftir því sem ég best veit verið að miða við skráningarform eins og viðgengst hjá Reykjavíkurborg. Þetta er mjög mikilvægt verkefni þar sem það er afar brýnt að stuðst verði við rauntölur þegar kemur að gerð samninga við SÍ og að aðildarfélögin fái þannig bættan allan kostnað vegna veikinda starfsmanna. Það sem við vorum búin að hlera að stæði til að nota sem prósentutölu er hlutfallslega alltof lágt.
Við héldum sjálf eina ráðstefnu í nóvember síðastliðnum sem kallaðist „Hver á okkur?“ og undirtitillinn var „Starfsumhverfi einkaaðila og sjálfseignarstofnana sem veita velferðarþjónustu“. Þessi ráðstefna var meira miðuð inn á við í samtökunum og síður til almennings. Enda voru talsverð gæði í mætingu fundarmanna en minna magn. Þó rúmlega 60 manns að ég held og erindin voru feikn góð og fróðleg. Eins og alltaf voru þau svo birt á heimasíðu félagsins. Þá vorum við þátttakendur í ráðstefnu um ofbeldi gegn öldruðum að frumkvæði Öldrunarráðs Íslands ásamt fleiri samtökum og opinberum aðilum. Ofbeldið var greinilega miklu meira spennandi heldur en starfsumhverfið og var ráðstefnan fjölsótt og vel heppnuð í alla stað.
Stjórnin fjallaði lítillega um Mósa sýkingar og Eybjörg útvegaði aðildarfélögum samtakanna leiðbeiningar hvernig beri að bregðast við komi Mósa sýking upp á viðkomandi stofnun. Þá verður sérstaklega litið til kostnaðar vegna slíks við gerð samninga við Sjúkratryggingar Íslands um rekstur hjúkrunarheimila.
Ég nefndi í upphafi ræðu minnar að þetta væri fyrsta starfsárið sem við nytum þess að vera með starfsmann í fullu starfi. Eybjörgu Helgu Hauksdóttur sem okkur bar gæfa til að ráða fyrir tæpu ári síðan. Þvílíkur happafengur sem hún Eybjörg er og ég tel þetta vera stærsta og skynsamlegasta skrefið sem þessi samtök hafa stigið allt frá stofnun samtakanna fyrir fjórtán árum síðan. Það að hafa starfsmann sem heldur utan um alla þræði starfseminnar, passar upp á öll gögn og sér til þess að ákvörðunum stjórnar er framfylgt, er þessum samtökum afar mikilvægt. Formannsskipti og stjórnarmannaskipti geta nú orðið með afar auðveldum hætti og starfsmaðurinn tryggir góða samfellu í okkar mikilvæga starfi.
Ég var fyrst kosinn formaður samtakanna vorið 2008 og hef því gegnt formennskunni í átta ár. Allt hefur sinn tíma segir í góðri bók. Líka það að hætta sem formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu. Þessi formennska hefur gefið mér mjög mikið. Þrátt fyrir talsvert álag og annir í þessu embætti þá tel ég tíma mínum hafa verið vel varið í þágu SFV. Ég tók ákvörðun um að hætta seint á síðasta ári. Það sem gerði útslagið í þeirri ákvörðun var sú staðreynd að samningar okkar við Sjúkratryggingar Íslands um rekstur hjúkrunarheimilanna sigldu í strand. Eða í það minnsta náðist ekki að ljúka þeim fyrir áramót. Og þegar ég sá hvað verða vildi taldi ég réttast að stíga sem fyrst til hliðar. Halda aðalfundinn eins snemma á þessu ári og kostur var og gefa þannig nýjum formanni og nýrri stjórn óskorað umboð félagsins til að stýra þessum mikilvægu samningum við Sjúkratryggingar Íslands í höfn. Ég taldi mig ekki geta gert betur þó ég hefði að sjálfsögðu glaður viljað ljúka þessum mikilvægu samningum. Og ég hef vísvitandi dregið mig út úr þeim verkefnum sem stjórn SFV hefur verið að vinna að frá síðustu áramótum. Þannig hefur næsti formaður, sem ég vona svo sannarlega að verði Pétur Magnússon, frjálsari hendur með það hvernig hann vill stýra málum samtakanna. Kannski fannst stjórninni og Eybjörgu ég orðinn eitthvað kærulaus og latur en það var nú ekki ástæðan fyrir því hversu mikið ég gaf eftir, heldur ofangreint.
Ég hef einstaka sinnum fengið smá fráhvarfseinkenni ef þannig má að orði komast, það er að ég hef séð eftir því að hafa ákveðið að hætta. En þau einkenni vara afar stutt, nokkrar mínútur í mesta lagi í einu og ég sé alltaf betur og betur að þetta er rétti tíminn fyrir mig að hætta. Tilfinningin undanfarna daga hefur verið pínulítið eins og þegar börnin manns fara að heiman. Nema núna er það foreldrið sem yfirgefur föðurhúsin.
Ég vil í lokin nota þetta tækifæri og þakka Eybjörgu og stjórnarmönnum afar gott samstarf, sumum hverjum stjórnarmönnunum síðastliðin átta ár, og ykkur öllum sömuleiðis fyrir gott og farsælt samstarf á yfirstandandi starfsári. Ég óska jafnframt Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu velfarnaðar um ókomna tíð.
Gísli Páll Pálsson,
Formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu