Fréttir og tilkynningar

Að færa til flöskuhálsa

peturmynd

Um þessar mundir eru tvö ár síðan ný lög um vistunarmat aldraðra tóku gildi. Í stuttu máli er vistunarmat ákveðið leyfi sem aldraðir þurfa að fá frá fulltrúum hins opinbera (vistunarmatsnefnd) ætli þeir að búa á hjúkrunarheimilum. Nú er því komin töluverð reynsla á þessi nýju lög um vistunarmatið. Þó margt sé mjög jákvætt og gott með tilkomu þeirra, er ljóst að nokkrir slæmir gallar eru núverandi fyrirkomulagi og þessa galla verður hreinlega að leiðrétta sem fyrst.
Veigamesti annmarkinn er án efa sá að þeir öldruðu sem vistunarmatsnefndir samþykkja til búsetu á hjúkrunarheimilum eru sífellt að verða veikari og veikari. Nánast allir nýjir heimilsmenn eru nú mjög veikir þegar þeir flytja inn. Fjöldi fólks sem hefði fengið vistunarmat fyrir lagabreytinguna, fær ekki vistunarmat í dag þar sem þessi hópur þykir ekki “nógu” veikur. Fyrir utan takmörkun og valfrelsi einstaklinga um búsetu á eldri árum þýðir þetta auðvitað að “meðalheilsufar” heimilisfólks á hjúkrunarheimilum fer versnandi.
Í sjálfu sér er sú hugsun sem býr á baki því að eingöngu allra veikasta fólkið eigi að búa á hjúkrunarheimilnum, ágætlega réttlætanleg. Í framhaldi má svo segja að þeir sem eru bara “dálítið veikir” eigi að vera annars staðar eins og opinber stefna vistunarmatsnefndar, .a.m.k. á höfuborgarsvæðinu, segir til um.
Það er hins vegar vitlaust gefið svo kapallinn gangi upp en ástæðan er fjármagnið. Það er alveg hreint furðulegt að vera leggja á auknar kröfur um þjónustu hjúkrunarheimila og mönnum þeirra (sem er jú dýrasti rekstrarþáttturinn) á sama tíma og fjármagnið til heimilanna er skorið niður. En versnandi „meðalheilsufar“ kallar auðvitað á aukna þjónustu og meiri mönnun á hjúkrunarheimilum. Ekki nóg með það, heldur er ekki til fjármagn í ríkiskassanum til að auka dagþjónustu fyrir þennan hóp aldraðra eða bjóða þeim upp á önnur úrræði. Ekki er heldur til fjármagn til að setja aukin kraft í heimaþjónustu sem er jú lausnin sem á að bíða þeirra sem ekki fá vistunarmat í dag.
Hér ríkir algert stefnuleysi hjá stjórnvöldum sem stýra málaflokki öldrunarmála. Ef gera á róttækar breytingar á skipulagi verður öll heildin að fylgja með. Það er ekki hægt að neita fólki um þjónustu með vísun í úrræði sem ekki eru til og ekki sjáanlegt að verði fjármögnuð í nánustu framtíð. Vonandi verður það einhvern tímann, en sá tími er ekki núna.
Mikilvægt er að hafa skýra stefnu, um það skal ekki deilt. Ekki skal heldur dregið í efa að þeim sem eru á biðlistum eftir hjúkrunarrýmum hefur fækkað eftir að núverandi lög tóku gildi, eins og stefnt var að. En stefnan verður að vera í tengslum við raunveruleikan og vera framkvæmanleg, sérstaklega í því efnahagsástandi sem nú ríkir í fjármálum þjóðfélagsins. Núverandi “óstefna” er því miður bara tilfærsla á flöskuhálsum. hinum öldruðu er ekkert að fækka né heldur hverfa þeir af yfirborði jarðar þó laga- og reglugerðarbreytingar séu samþykktar.

Ég vil nota þetta tækifæri til að hvetja þá sem stýra vistunarmálum aldraðra til að leiðrétta stefnuna á siglingu sinni og tengja stefnuna raunveruleikanum. Annars siglir skipið í strand fyrr eða síðar. Aldraðir, sem eru lítið sem ekkert veikir, eiga sannarlega ekkert erindi til búsetu á hjúkrunarheimilum en þeir sem teljast nokkuð veikir verða að eiga valmöguleika í lífi sínu en ekki að þurfa að fylgja einni, fyrirfram ákveðinni “ríkisleið” sem ekki er svo einu sinni til fjármagn til að framkvæma.

Pétur Magnússon
Forstjóri Hrafnistuheimilanna
Varaformaður SFH