Fréttir og tilkynningar

Að komast ekki úr sporunum

17125848091

Hvers eiga aldraðir að gjalda?  Ekki, nema von að spurt sé. Íslendingum hefur ekki borið gæfa til að koma lagi á hag eldri borgara í samfélaginu. Bætt menntun og aukin þekking þjóðarinnar hefur ekki dugað til að skipa þeim sem elstir eru mannsæmandi sess. Vansæmdin felst ekki síst í því að grafið er undan fjárhagslegu sjálfstæði með því að gefa sér það viðhorf að aldur einn og sér valdi því að tekjur geti verið lægri en hjá öðrum aldurshópum. Fram hjá eldri borgurum er jafnframt gengið í samfélagslegri umræðu og jafnvel ekki haft fyrir því að leita álits þeirra. Skoðanir eldri borgara fara sem vindur um eyru ráðamanna, þó að á milli séu blekkingavefir spunnir sem villa tímabundið fyrir almenningi, sérstaklega þegar kosningar eru í nánd.
Eldri borgarar njóta ekki jafnréttis hvað greiðsluþátttöku í heilbrigðisþjónustu varðar. Greiðsluþátttaka þeirra eykst ár frá ári á sama tíma og þeim fjölgar sem fá lífeyrir sinn frá skyldulífeyrissparnaði í stað almannatrygginga greidda af skattfé.
Valfrelsi þegar heilsubrestur verður er í raun ekkert, heldur getur tilviljun ráðið kasti, hvað býðst. Heimaþjónusta er að skornum skammti þar sem samfélagið hefur ekki forgangsraðað fjármagni til þjónustunnar þannig að meginmarkmið í lögum um málefni aldraðra að eldri borgarar eigi rétt á að búa á eigin heimili sem lengst, nái fram að ganga. Þverrandi heilsa og hæfni til að annast sjálfan sig mætir tæplega 10% af aldurshópnum 67 ár og eldri. Fjölskyldum þeirra, maka og/eða öðrum í hópi nánustu ættinga bíður umönnunarbyrði og áhyggjur. Á höfuðborgarvæðinu birtist þessi mynd að þegar um þrýtur hefjast tíðar sjúkrahúsainnlagnir, sífellt fleiri meðulum er bætt á og baráttan við skrifræðið eykst. Síðan þvælingur á 5 daga deildir og heim um helgar, göngudeildir, dagþjálfun og hvíldarinnlagnir þar til um þrýtur. Í stað heildrænnar þjónustu virðist sem um einhverskonar ,,reddinga“ lækningar sé að ræða og markmiðið að koma sjúklingnum sem fyrst af sér í annarra hendur. 
Að óska eftir því að metið sé þörf fyrir vistun á hjúkrunarheimili er hafnað. Það má ekki meta þörfina. Kerfið brýtur manneskjuna kerfisbundið niður með því að virðist einhvers konar geðþótta eða hugsanlega algjöru áhugaleysi fyrir velferð viðkomandi og fjölskyldunni. Fleiri og fleiri leita á náðir landlæknis til að leita réttar síns að fá metið þörfina fyrir vistun. Ferillinn tekur fleiri mánuði og fjölskyldan er að niðurlotum komin. Vistunarmatið þegar það er loksins pressað í gegn sýnir í stigum að viðkomandi er í mjög brýnni þörf.   Slík þörf verður ekki til á einni nóttu.Í hálfgerðu plati er fólki leiðbeint að velja síðasta dvalarstaðinn á lífsleiðinni, helst þrjá staði. Raunin er oftast sú að taka verður fyrsta tilboði, hvort sem manni líkar betur eða vel. Aðrir detta í lukkupottinn og fá óska staðinn. 
Þá hefur Alþingi samþykkt þá niðurstöðu að einstaklingurinn þurfi ekki meira en um 60 þúsund krónur á mánuði, annað fé taki ríkið til sín til að kosta dvölina að hluta og greiða fyrir heilbrigðisþjónstuna, mat og aðrar nauðþurftir sem skilgreindar eru og ákvarðaðar af öðrum. Þannig greiða þeir sem mestar tekjur hafa hæst rúmlega 280 þúsund krónur á mánuði.Þetta fyrirkomulag er ómannsæmandi og löngu úrelt í löndunum í kringum okkur. 
Fyrir löngu var orðið lag að breyta málum þannig að ef fólk þarf að flytja búsetu vegna heilsubrests, þá haldi það áfram tekjum sínum, greiði leigu og rekstur húsnæðis, ákvarði matarkaup og aðra þjónustu sem væri búsetan á eigin heimili. Heilbrigðisþjónustan yrði skilgreind, sem veita skyldi og greiða ætti af almannafé. Síðan yrði kostur á að kaupa viðbótarþjónustu. 
Efnahagskreppan er því miður á góðri leið að stuðla að krísu í heilbrigðisþjónustu eins og boðaðar áætlanir segja til um. Bæði Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) og Alþjóðabankinn vöruðu  ríkisstjórnir heimsins við strax í upphafi kreppu að gæta sérstaklega að því að það gerðist ekki.Krísa í öldrunarþjónustu hefur því miður verið viðloðandi síðustu áratugi og má engan vegin við niðursveiflu af neinu tagi. Það er löngu tímabært að tryggja eldri borgurum reisn í samfélaginu, eyða fordómum og viðhorfum sem vinna gegn velferð þeirra. Spyrnum við fótum og styrkjum mannréttindi eldri borgara landsins.