Fréttir og tilkynningar

Aðalfundur SFH – ræða formanns

gislipall

Aðalfundur SFH fór fram mánudaginn 23. apríl s.l. Meðfylgjandi er ræða formanns á fundinum.

Velkomin á aðalfund Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu. Ég vil byrja á því að þakka stjórnendum á Eir kærlega fyrir að taka á móti okkur. Á síðasta aðalfundi sem haldinn var hjá Hrafnistu í Boðaþingi í apríl í fyrra voru auk mín kosin í stjórn þau Ásgerður Björnsdóttir, Finnbogi Björnsson, Pétur Magnússon og Tryggvi Friðjónsson og til vara þau Jóhann Árnason og Margrét Ósvaldsdóttir. Stjórnin var endurkjörin óbreytt frá fyrra ári og skipti með sér verkum á þann veg að Pétur var kosinn varaformaður, Ásgerður ritari og Tryggvi gjaldkeri. Varastjórnarmenn eru ávallt boðaðir á stjórnarfundi og mæta jafnt á við aðra. Við höfum frá síðasta aðalfundi haldið 10 stjórnarfundi, stefnumótunarfund sem varði í einn sólarhring í Skálholti, félagsfund um lífeyrisskuldbindingar þann 6. maí á síðasta ári og sama dag héldum við fyrsta samráðsfund okkar með fulltrúum landlæknisembættisins um gæðamál á hjúkrunarheimilum. Þá héldum við almennan félagsfund 2. september sl. þar sem við samþykktum harðorða ályktun þar sem við mótmæltum frekari niðurskurði á fjárframlögum til heilbrigðismála. Þriðji félagsfundurinn var haldinn 28. nóvember sl. þar sem við fórum almennt yfir stöðu mála og þeirra verkefna sem stjórnin hefur verið að vinna að. Fjórði félagsfundurinn var haldinn 3. febrúar sl. og í tengslum við hann var haldinn þriðji samráðsfundur okkar með landlæknisembættinu um gæðamál á hjúkrunarheimilum. Kem nánar að því síðar. Þá héldum við fund þann 8. mars síðastliðinn með skýrsluhöfundum Ríkisendurskoðunar um Rekstur og starfsemi hjúkrunarheimila.   Alls eru þetta 10 stjórnarfundir, fjórir félagsfundir, þrír fundir með landlæknisembættinu og einn með Ríkisendurskoðun. Einhverjum finnst kannski nóg um og það væri gott að fá viðbrögð ykkar við þessu, það er hvort ykkur finnst þessi fjöldi félagsfunda og samráðsfunda með Landlækni og Ríkisendurskoðun vera hæfilegur.

 

Á árlegum stefnumótunarfundi stjórnar sem haldinn var í Skálholti í október á síðasta ári voru línur lagðar fyrir vetrarstarfið. Þar var samþykkt að leggja áherslu á lífeyrisskuldbindingar, samráð við velferðarráðuneyti, innheimtu kostnaðarhlutdeildar heimilismanna hjúkrunarheimila, halda tvær ráðstefnur, bregðast við niðurskurði á fjárlögum 2012, eiga samstarf við Landlæknisembættið um gæðamál á hjúkrunarheimilum, halda félagsfundi, skoða breytingar á lögum félagsins, eiga samstarf við Landsamband eldri borgara, taka þátt í undirbúningi á yfirfærslu á málefnum aldaðra frá ríki til sveitarfélaga og fá til liðs við samtökin nýja veitendur heilbrigðis- og velferðarþjónustu. Ég mun koma inn á öll þessi atriði auk nokkurra annarra.

 

Eir og Skjól hjúkrunarheimili gengu í samtökin í júní sl. og býð ég þessi heimili velkomin í SFH á nýjan leik. Þá gekk til liðs við okkur snemma á þessu ári Grenilundur, sem er hjúkrunarheimili á Grenivík. Ég býð Grenilund velkominn í samtökin. Við höfum verið að reyna að fá fleiri til liðs við okkur og aldrei að vita hvernig það fer. Engir nýir liðsmenn eru þó í sjónmáli.

 

Stærsta einstaka málið sem við höfum glímt við í vetur, er því miður það sama og við höfum verið að reyna að leysa undanfarin ár, lífeyrisskuldbindingar aðildarfélaga SFH. Sjálfsagt vitið þið flest um hvað málið fjallar í aðalatriðum þannig að ég ætla ekki að rekja alla sögu þess, heldur fara yfir stöðuna eins og hún er í dag og hvaða leiðir eru til lausnar. Frá síðasta hausti höfum við verið að ræða við nefnd skipaða fulltrúum fjármála- og velferðarráðuneytis undir forystu Viðars Helgasonar úr fjármálaráðuneyti. Af okkar hálfu hafa auk mín tekið þátt í viðræðunum Tryggvi Friðjónsson framkvæmdastjóri Sjálfsbjargar og gjaldkeri SFH, Harpa Gunnarsdóttir fjármálastjóri Hrafnistu, Andri Árnason lögfræðingur Juris og Þóra Jónsdóttir lögfræðingur Juris. Í sem stystu máli þá héldum við að ráðuneytisfólkið vildi semja við okkur og gert var samkomulag um fyrirkomulag samningagerðarinnar og undirbúningsvinna af beggja hálfu hófst. Það sem virðist síðan hafa gerst, er að þegar lögfræðingar fjármálaráðuneytisins sjá þessi drög með hvaða hætti þessi samingagerð yrði framkvæmd, þá hafi þeir skipt um skoðun og talið allt það sem áður var lagt til af þeim sjálfum, það er Viðari Helgasyni, ógilt og væri ekki lengur til umræðu. Við fengum í hendurnar nýtt minnisblað sem samið var af lögfræðingum fjármálaráðuneytisins þar sem kynnt er kúvending í málinu. Í minnisblaðinu er því haldið fram að ríkið hafi greitt hjúkrunarheimilum SFH þessar fjárhæðir með daggjöldum fyrri áratuga og lagt er til að samið yrði um uppgjör lífeyrisskuldbindinga annarra aðildarfélaga SFH en hjúkrunarheimila, það er Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði, Krabbameinsfélags Íslands, SÁÁ og Sjálfsbjörg. Okkur þótti þetta miður gott en ræddum við ofangreind fjögur félög og ræddum málið einnig við Þóru lögfræðing. Í framhaldi af þessu fól stjórnin Þóru að semja minnisblað um málið sem við lögðum síðan fyrir á næsta samningafundi. Í því minnisblaði kröfðumst við þess að haldið yrði áfram að semja um lífeyrisskuldbindingar hjúkrunarheimilanna en við héldum því að vísu opnu að semja samhliða um lífeyrisskuldbindingar hinna fjögurra stofnananna. Þetta minnisblað og tillaga okkar féll í grýttan jarðveg í ráðuneytinu. Á næsta fundi með viðsemjendum okkar kom fram sú skýring eða eins og Ólafur ráðgjafi þeirra orðaði það að í teoríunni, þá hefði ríkið greitt okkur þessar lífeyrishækkanir, sem við erum að greiða núna og komum til með að þurfa að greiða í framtíðinni, með daggjöldum hvers árs fyrri áratuga. Með öðrum orðum að þessi kostnaður sem nú fellur til hafi verið greiddur jafnóðum með daggjöldum hvers árs fyrir sig og það hefði átt að vera okkar mál, að leggja þessar fjárhæðir fyrir og eiga þær tilbúnar á bankabók þegar til þessara útgjalda kæmi. Ég fór fram á að fá sannanir fyrir því að þetta hafi verið gert með þessum hætti og að við fengjum staðfestingu á útreikningum daggjalda frá ca. 1980 þar sem þessir útreikningar kæmu skýrt fram, þ.e. hversu hátt hlutfall af daggjaldi hvers árs og þá hver fjárhæðin hefði verið, væri ætlað til greiðslu þessara lífeyrishækkana, annað hvort með fundargerðum daggjaldanefndar eða útreikningum daggjalds hvers árs fyrir sig. Ég er þess fullviss að slíkir útreikningar séu einfaldlega ekki til. Fékk síðan svar frá Sturlaugi í velferðarráðuneytinu í síðustu viku þar sem hann segir að þeir hafi ekki komist til þess að afla þeirra upplýsinga sem ég bað um og varða störf daggjaldanefndar og að það verði einhver bið á því að þeir komist í þá vinnu. Jafnfram leggur hann til að tíminn verði notaður til að hefja umræður um önnur félög/ heimili innan SFH en öldrunarheimili. Það er sem sagt enginn vilji hjá velferðarráðuneytinu að halda áfram að semja um lífeyrisskuldbindingar hjúkrunarheimilanna og það á væntanlega að þreyta okkur til þess að semja um lífeyrisskuldbindingar hinna fjögurra og svo vonast þeir sennilega til að við gefumst upp með hjúkrunarheimilin eða að þetta vandamál gufi upp. Stinga höfðinu í sandinn að því að mér sýnist. Þessi vinnubrögð eru auðvitað til háborinnar skammar og ættu hvergi að líðast. Við höfum marg oft rætt þessi mál hér á vettvangi SFH og þrátt fyrir ótrúlega framkomu þessara opinberu starfsmanna þá er það skoðun stjórnar SFH að halda áfram að reyna að semja um málið.

 

Tvær ráðstefnur voru haldnar á okkar vegum. Sú fyrri var haldin á Grand hótel 12. október sl. undir yfirskriftinni “Niðurskurður í velferðarþjónustu, hvað er hægt að gera?” Sú ráðstefna var haldin í samvinnu við Landssamband heilbrigðisstofnana og Félag forstöðumanna sjúkrahúsa og vakti ráðstefnan nokkra athygli fjölmiðla. Sú seinni var einnig haldin á Grand hótel 21. mars sl. undir yfirskriftinni “Búseta aldraðra – framtíðarfyrirkomulag.”   Báðar ráðstefnur tókust vel og eins og endranær vöktu þær einnig athygli á tilvist samtakanna.

 

Samninganefndin okkar fékk nýjan formann í ágúst í fyrra en Tryggvi Friðjónsson hætti og við formennskunni tók Kristján Sigurðsson verkefnastjóri á Grund. Kristján var formaður samninganefndarinnar á árum áður og því alvanur. Ingibjörg Kjartansdóttir á Heilsustofnun flutti erlendis sl. haust og hætti því í samninganefndinni. Enginn hefur verið tilnefndur í hennar stað en það verður væntanlega gert fyrir næstu samningalotu. Samninganefndin gerði kjarasamning við BHM sem var eins og sá sem ríkið gerði. Þá hefur verið unnið að gerð stofnanasamnings á milli aðildarfélaga SFH og SFR en nokkuð hefur borið á milli hvernig slíkur samningur á að líta út. Á samningafundi í síðustu viku varð þó talsverður árangur og það styttist vonandi í undirskrift. Fellsendi fól samninganefnd SFH að gera kjarasamninga fyrir stofnunina og var gengið frá þeim samningum í mars sl. Fellsendi hefur þó átt aðild að SFH í mörg ár en fól okkur fyrst núna að sjá um gerð kjarasamninga.

 

Ríkið undirbýr yfirflutning á málefnum aldaðra yfir til sveitarfélaganna. Umræða um málið hefur staðið yfir í mörg ár og upphaflega stóð til að flytja málaflokkinn yfir til sveitarfélaganna árið 2008. Nú er líklegt að þessi yfirflutningur eigi sér stað 1. janúar 2014 eða jafnvel ekki fyrr en 1. janúar 2015. Velferðarráðherra skipaði 14 manna nefnd til að undirbúa flutninginn sem ég á meðal annars sæti í. Nefndin hefur fundað fjórum sinnum og nú síðast var ákveðið að skipa sex óformleg sérfræðiteymi, eins og velferðarráðuneytið kallar það. Fyrsta teymið fjalli um umfang og kostnað núverandi þjónustu, annað um þörf fyrir öldrunarþjónustu, þriðja um greiðslur aldraðra, fjórða um fyrirkomulag og fjármögnun fasteigna, fimmta um undirbúning lagabreytinga og það sjötta um samninga við sjálfstæða aðila. Við vorum beðin um að skipa einn aðila í teymið um greiðslur aldraðra og fer ég í þá vinnu, einn fulltrúa í fyrirkomulag og fjármögnun fasteigna og fer Júlíus Rafnsson framkvæmdastjóri á Grund og í Ási í þá vinnu og svo tvo fulltrúa í samninga við sjálfstæða aðila og fara Pétur og Jóhann úr stjórn SFH í þá vinnu. Eitt af því sem nefndin leggur áherslu á, og þá sérstaklega fulltrúar velferðarráðuneytisins, er að ljúka gerð þjónustusamninga við rekstraraðila hjúkrunarheimilanna á þessu ári. Ég fékk tölvupóst frá Brit á Akureyri í síðustu viku þar sem hún segir frá því að verið sé að endurnýja þjónustusamninga við Akureyrarbæ, sveitarfélagið Hornafjörð og Hafnarfjarðarbæ. Með þessum pósti fylgdi drög að þjónustusamningi, skilmálablöð og kröfulýsing. Allt nokkuð almenns eðlis og ekki skilgreint hversu margar hjúkrunarklukkustundir ríkið hyggst kaupa af sveitarfélögunum né heldur hversu margar sjúkraþjálfunar- eða iðjuþjálfunarklukkustundir. Þá er ekkert minnst á húsaleigu í þessum drögum. Húsaleigan er eitt af því sem samtökin hafa lagt mikla áherslu á í viðræðum við ríkisvaldið þegar gerð þjónustusamninga hefur verið til umræðu. Auðvitað kemur í kjölfarið umræða um framlög ríkisins til þessara bygginga í gegnum Framkvæmdasjóð aldraðra og þá verður sú umræða auðvitað tekin. Því skal haldið til haga að það er mikið verk óunnið áður en að þessum yfirflutningi kemur og einstaka sveitarstjórnarmenn eru enn á báðum áttum hvort þetta sé yfir höfuð skynsamlegt skref. Við sjáum hvað gerist.

 

Eitt af því sem við ákváðum að skoða í vetur er með hvaða hætti væri hægt að bregðast við mjög dýrum lyfjameðferðum einstakra heimilismanna hjúkrunarheimila. Pétur leiddi viðræður við velferðarráðuneytið á síðasta ári og eitthvað mun málið hafa verið skoðað innan ráðuneytisins en lítið gerðist. Ég skrifaði síðan grein í Morgunblaðið í febrúar sl. sem nefndist „Of dýr fyrir mig?“ Vakti greinin nokkra athygli og þá sérstaklega velferðarráðherra. Brást hann hinn versti við og kallaði mig meðal annars siðleysingja og óhæfan stjórnanda. Frekar vanstillt viðbrögð. Jafnframt sagði hann málið vera í vinnslu innan ráðuneytisins og von væri á frumvarpi á Alþingi þar sem tekið væri á þessu máli. Ég veit ekki til þess að frumvarpið hafi verið lagt fram en það getur þó verið.

Önnur grein eftir mig sem fjallaði um innheimtu hjúkrunarheimila í kostnaðarahlutdeild heimilismanna, birtist svo í sama blaði í mars. Þar fór ég stuttlega yfir fyrirkomulag þessarar innheimtu og benti á að það væri miður skemmtilegt að annast um heimilismann með hægri hendinni og koma svo með beiðni um gjaldþrot í þeirri vinstri vegna þess að viðkomandi, einhverra hluta vegna, neitaði að greiða kostnaðarhlutdeild sína í dvalarkostnaði. Aftur brást velferðarráðherra frekar illa við og taldi innheimtufyrirkomulagið hið ágætasta, þrátt fyrir að forstjóri Tryggingastofnunar teldi það vel koma til greina að TR sæi alfarið um þessa innheimtu. Eins og svo oft áður þá svaraði ráðherrann því til, að verið væri að skoða þessi mál í ráðuneytinu og einhvers konar breytingar myndu eiga sér stað við yfirfærslu málaflokksins frá ríki til sveitarfélaga. Af innheimtumálinu sem ég sagði frá í greininni er það að frétta að gjaldþrotabeiðni fór til héraðsdóms Reykjavíkur í febrúar og verður beiðnin væntanlega tekin fyrir á næstu vikum. Hvað gerist þegar og ef viðkomandi heimilismaður verður úrskurðaður gjaldþrota er ekki ljóst. Líklega mun ég reyna að innheimta kostnaðarhlutdeild hans hjá Tryggingastofnun en hver árangur þess verður er algjörlega óvíst.

 

Frá síðasta aðalfundi hefur SFH staðið að þremur fundum með fulltrúum Landlæknisembættisins og Ingibjörgu Hjaltadóttur hjúkrunarfræðings um gæðamál á hjúkrunarheimilum. Þessir fundir voru auglýstir fyrir öll hjúkrunarheimili landsins og mikill áhugi var á málinu. Fundirnir voru allir haldnir á Grund og kann ég stjórnendum Grundar bestu þakkir fyrir góðar móttökur. Á þessum fundum kynnti Ingibjörg niðurstöður sínar úr doktorsritgerð sinni sem heitir „Íbúar á íslenskum hjúkrunarheimilum. Lifun, heilsufar, færni og gæði umönnunar yfir tímabilið 1996 – 2009.“ Auk þess að niðurstöður um þróun gæðavísa á hjúkrunarheimilum voru kynntar, þá var fundarmönnum skipt upp í nokkra hópa sem ræddu hvort, hvenær og með hvaða hætti þessir gæðavísar yrðu birtir. Við áttum fund með fulltrúum embættisins í síðustu viku þar sem ákveðið var að halda þessari vinnu áfram. Skipaður verður fimm manna vinnuhópur, tveir frá okkur, tveir frá landlækni auk Ingibjargar Hjaltadóttur. Þessi vinnuhópur mun móta verklagsreglur með hvaða hætti þessir gæðavísar verði birtir og er niðurstöðu að vænta fyrir árslok.

 

Stjórn SFH fékk ábendingu á félagsfundi í vetur að kanna grunn RAI – mælitækisins og tengingu þess við útreikning daggjalda. Við fengum Önnu Birnu í Sóltúni til að leiða vinnuhóp sem ætlar að skoða þessi mál. Vinnan hefur ekki farið af stað en vonandi rætist úr því á næstunni.

 

Fyrir ári síðan ákvað stjórn SFH að hitta fulltrúa Landssambands eldri borgara og við áttum samráðsfund með þeim í október og febrúar sl. Meðal atriða sem við ræddum á þessum fundum voru endurskoðun laga um almannatryggingar, greiðsluþátttaka heimilismanna á hjúkrunarheimilum, kjara- og lífeyrismál ellilífeyrisþega og margt fleira. Þessir fundir eru gagnlegir og nauðsynlegt fyrir bæði samtökin að vita að hverju hvor er að vinna.

 

Stjórn SFH var á síðasta ári boðin aðild að evrópskum systursamtökum okkar sem heita EDE og heita á ensku European Association of Directors and Providers of Long – Term Care Services for the Elderly eða Evrópsk samtök forstjóra og veitenda langtíma hjúkrunarþjónustu. 18 Evrópulönd eiga aðild að samtökunum og fór ég á einn fund í Prag, seinni hluta síðasta árs. Leist vel á en stjórn SFH samþykkti einróma að ekki væri tímabært að ganga í samtökin vegna kostnaðar við fundarhöld.

Ríkisendurskoðun gaf út skýrslu í febrúar sem nefndist „Rekstur og starfsemi hjúkrunarheimila 2008 – 2010. Megin tilgangur með útgáfu skýrslunnar var að kanna hvort bankahrunið og kreppan sem fylgdi í kjölfarið hefði haft áhrif á rekstur og þjónustu hjúkrunarheimila. Megin niðurstaða skýrsluhöfunda var að þjónusta hefði ekki dregist saman og vinnuálag hefði ekki aukist. Við sem störfum í hjúkrunarheimilsbransanum vorum ekki alveg sammála þessari niðurstöðu og SFH fékk tvo fulltrúa Ríkisendurskoðanda sem unnu skýrsluna á fund með okkur í byrjun mars þar sem innihald og niðurstöður skýrslunnar voru ræddar. Um 15 manns mættu á fundinn og áttu sér stað gagnlegar umræður og skoðanaskipti. Að loknum fundinum var gerð breyting á skýrslunni og fréttatilkynning sem áður var send út til fjölmiðla endursamin. Jafnframt fékk ég staðfest í tölvupósti frá Kristínu Kalmansdóttur, öðrum skýrsluhöfunda, að Ríkisendurskoðun muni hafa SFH í huga sem umsagnaraðila vegna skýrsludraga sem stofnunin vinnur að um málefni aldraðra í framtíðinni og vonast eftir góðu samstarfi í þeim efnum. Ég tel að við höfum náð eyrum starfsmanna Ríkisendurskoðunar með þessum fundi sem skilar okkur vonandi því að stofnunin muni ráðfæra sig við SFH við gerð skýrslna sem tengjast aðildarfélögum samtakanna.

 

Stjórn SFH samþykkti á fundi sínum í janúar sl. að óska formlega eftir upplýsingum frá velferðarráðherra „um útreikning daggjalda hjúkrunarheimila innan SFH vegna ársins 2012. Með því er átt við hvaða þjónustuþættir skulu vera inn í umræddu gjaldi og hvað hver þjónustuþáttur má eða á að kosta. Einnig með hvaða hætti er tekið tillit til launahækkana vegna samningsbundinna hækkana sem koma til framkvæmda á yfirstandandi ári“ eins og segir orðrétt í bréfi dagsettu 23. janúar sl. Ráðherra svaraði ekki bréfinu og sendi ég ítrekun um að fá svar 2. mars sl. og vísaði þar meðal annars til upplýsingalaga en þar segir í 11. grein að „stjórnvald skal taka ákvörðun um hvort það verður við beiðni um aðgang að gögnum svo fljótt sem verða má. Hafi beiðni ekki verið afgreidd innan sjö daga frá móttöku hennar skal skýra aðila frá ástæðum tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta.“ Þetta var sem sagt sent 2. mars sl. og enn hefur ekkert heyrst frá velferðarráðuneyti. Stjórnin samþykkti að fela mér að senda inn kvörtun til umboðsmanns Alþingis vegna þessa og gerði ég það þann 26. mars sl. Frekari upplýsingar hef ég ekki um málið eins og er en þarna sést enn og aftur hversu ófullkomin íslensk stjórnsýsla er og hefur verið í áratugi.

 

Lög SFH hafa, að því ég best veit, verið nánast óbreytt frá upphafi. Að frumkvæði Tryggva Friðjónssonar voru lögin endurskoðuð og sú breytingartillaga var send með aðalfundarboði fyrir rúmum tveimur vikum. Þessi tillaga verður tekin til afgreiðslu og umræðu hér á eftir en megin breytingarnar eru að mínu mati tvær. Annars vegar breyting á nafni samtakanna úr Samtök fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu í Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu og hins vegar grundvallarbreyting á aðildargjaldi á þann veg að við útreikning á gjaldstofni, verða teknar heildartekjur hverrar stofnunar af veitingu heilbrigðis- og velferðarþjónustu í stað einungis tekna frá ríki. Nánar um það á eftir.

 

Samtökin fagna 10 ára afmæli á morgun en þau voru stofnuð þann 24. apríl árið 2002 á Hrafnistu í Reykjavík. Í erli dagsins þá gleymdi formaður þessum merku tímamótum en það verður nýrrar stjórnar að ákveða hvort og þá með hvaða hætti við fögnum þessum tímamótum.

 

Einhver fleiri mál hafa verið á borðum stjórnarinnar í vetur en skýrslan er orðin þokkalega ítarlega. Má þar meðal annars nefna samræmt sjúkraskráningarkerfi, þátttaka í gerð heilbrigðisáætlunar til ársins 2015, dóm héraðsdóms um túlkun á greiðslum til sjúkraliða í vetrarfríum og kaffitímum, samninga við Sjúkratryggingar Íslands um þátttöku í lyfjakostnaði vegna heimilismanna hjúkrunarheimila og fleira.

Nú að loknum aðalfundinum munu þau Guðmundur Steingrímsson alþingismaður og Embla Ágústsdóttir stjórnarformaður NPA miðstöðvarinnar segja okkur frá NPA hugmyndafræðinni eða notendastýrð persónuleg aðstoð. Að lokinni framsögu þeirra verða fyrirspurnir og umræður.

 

Tveir stjórnarmenn gefa ekki kost á sér til endurkjörs. Það eru þeir Tryggvi Friðjónsson og Finnbogi Björnsson. Tryggvi hefur verið gjaldkeri SFH frá 2008 en hann var fyrst kosinn í stjórn árið 2006. Tryggvi hefur sinnt gjaldkerastarfinu af miklum dugnaði og nákvæmni. Nauðsynlegir eiginleikar gjaldkera. Finnbogi hefur verið í stjórn samtakanna frá stofnun þeirra og ég hef þekkt Finnboga af góðu einu í yfir tvo áratugi. Hann hefur í formennskutíð minni lagt margt gott til málanna og hefur á köflum viljað ganga heldur lengra en flestir aðrir í sumum málum og slíkir menn eru nauðsynlegir, þó að ég sé ekki alltaf sammála Finnboga um að ganga svo langt. Það má segja að hann setji ytri mörkin. Ég þakka þeim tveimur kærlega fyrir framúrskarandi samstarf á undanförnum árum og óska þeim velfarnaðar í starfi og leik.

 

Ég var fyrst kosinn formaður samtakanna vorið 2008 og hef því gegnt formennskunni í fjögur ár. Það fer sífellt meiri tími hjá mér í störf fyrir SFH, en ég hef engu að síður áhuga á að halda áfram sem formaður samtakanna. Umsvif samtakanna og fjöldi verkefna hafa aukist ár frá ári og ég tel það eingöngu vera tímaspursmál hvenær við ráðum fastan starfsmann til að hægt verði að sinna öllum þessum brýnu málum á viðeigandi hátt. Ég vil í lokin nota þetta tækifæri og þakka stjórnarmönnum afar gott samstarf og ykkur öllum sömuleiðis fyrir gott og farsælt samstarf á yfirstandandi starfsári.

 

Gísli Páll Pálsson,

formaður Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu

 

Flutt á aðalfundi SFH haldinn hjá Eir mánudaginn 23.apríl 2012