Kæru félagsmenn, góðir gestir.
Verið velkomin á aðalfund Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu. Ég vil byrja á því að þakka stjórnendum Grundar kærlega fyrir að taka á móti okkur. Á síðasta aðalfundi sem haldinn var hjá Krabbameinsfélaginu fyrir nákvæmlega einu ári og fimm dögum betur, voru auk mín kosin í stjórn, þau Ásgerður Björnsdóttir, Björn Bjarki Þorsteinsson, Kristján Sigurðsson, Margrét Ósvaldsdóttir, Pétur Magnússon og Ragnheiður Haraldsdóttir. Einn þáverandi stjórnarmaður, Jóhann Árnason, gaf ekki kost á sér og var Kristján Sigurðsson kjörinn í hans stað. Aðrir stjórnarmenn voru endurkjörnir. Stjórnin skipti með sér verkum á þann veg að Pétur var kosinn varaformaður, Margrét ritari, Ásgerður gjaldkeri og Kristján formaður launanefndar samtakanna.
Lagabreytingartillaga sem var samþykkt á síðasta aðalfundi fól í sér breytingu á skipan stjórnar á þann veg að engir varamenn eru kosnir, eingöngu aðalmenn. Þá er nýlunda að stjórnin kýs sér úr hópi stjórnarmanna formann launanefndar og var eins og áður sagði Kristján kosinn formaður launanefndarinnar. Við höfum frá síðasta aðalfundi haldið 11 stjórnarfundi, stefnumótunarfund sem varði í einn sólarhring í Skálholti og nokkra félagsfundi þar sem til umfjöllunar var í öll skiptin lífeyrisskuldbindingar aðildarfélaga SFV auk annarra mála. Nánar að því síðar.
Ég var beðinn um að skila mjög góðri kveðju frá einum aðildarfélaga, Magnúsi Jónassyni framkvæmdastjóra Hraunbúðum í Vestmannaeyjum, en hann lætur af störfum nú um mundir. Við starfi hans tekur Sólrún Gunnarsdóttir og bjóðum við hana hjartanlega velkomna í SFV um leið og við þökkum Magnúsi kærlega fyrir mjög gott samstarf undanfarin ár. Magnús er á knattspyrnuleik í London og komst þess vegna ekki til að kveðja okkur. Veit ekki hvaða leik hann er á en vonandi fer hann vel.
Eitt heimili hætti rekstri á þessu starfsári en það er Sunnuhlíð en í stað Sunnuhlíðar kom Vigdísarholt sem er í sama húsnæði en er nú rekið af nýju félagi í eigu ríkisins. Ég vil þakka Sunnuhlíð og framkvæmdastjóranum Jóhanni Árnasyni kærlega fyrir mjög gott samstarf í gegnum árin samhliða því að bjóða Vigdísarholt velkomið í samtökin og vænti góðs samstarfs af framkvæmdastjóranum, Kristjáni Sigurðssyni. Önnur stofnun gekk til liðs við okkur nú á vormánuðum, Heilbrigðisstofnun Suðausturlands. Býð ég stofnunina og framkvæmdastjóra hennar, Matthildi Ásmundardóttur velkomin í samtökin og vænti einnig góðs samstarf við hana og hennar samstarfsmenn.
Á árlegum stefnumótunarfundi stjórnar sem haldinn var í Skálholti í byrjun september á síðasta ári voru línur lagðar fyrir vetrarstarfið. Þar var samþykkt að leggja mesta áherslu á lífeyrisskuldbindingar, hvað annað, en þar að auki var sett á blað og að fjallað yrði um með einhverjum hætti í vetur daggjöldin, kjaramál, innheimtu kostnaðarhlutdeildar heimilismanna, ráðstefnuhald, yfirfærsla á málefnum aldraðra frá ríki til sveitarfélaga og samstarf við landlæknisembættið. Ég mun koma inn á flest þessarar atriða auk nokkurra annarra.
Eins og svo mörg undanfarin ár þá hafa lífeyrisskuldbindingar aðildarfélaga SFV tekið mestan tíma stjórnarinnar og formannsins í vetur. Framan af leit ekki vel út með framgang málsins en segja má að málið hafi tekið flugið eftir fund sem ég og Kristján Sigurðsson áttum með Bjarna Benediktssyni efnahags- og fjármálaráðherra þann 4. febrúar sl. Sá fundur hafði staðið til lengi og það sem rætt var um á fundinum voru lífeyrisskuldbindingar og jafnlaunaátak. Hvað varðar jafnlaunaátakið gaf ráðherra lítið út á það og vildi sem minnst gera til að leysa það erfiða mál. Og var alveg hreinskilinn með þá afstöðu sína. En lífeyrisskuldbindingamálið sagði hann vera vilja til að leysa og fól starfsmönnum sínum sem voru á fundinum með okkur, þeim Sigurði Helgasyni og Viðari Helgasyni að semja við okkur um lausn málsins og gera það hratt og vel. Þetta var í fyrsta skipti sem ég hitti fjármálaráðherra vegna lífeyrisskuldbindinganna og segja má að árangurinn hafi verið eftir því. Mjög góður. Strax var tekið til við fundarhöld og allt annar tónn en áður var í viðsemjendum okkar en auk Sigurðar og Viðars komu að þessum samningum fyrir hönd ríkisins þeir Bolli Þór Bollason og Einar Njálsson frá velferðarráðuneyti. Auk mín þá sátu í samninganefnd af hálfu SFV þau Harpa Gunnarsdóttir og Tryggvi Friðjónsson. Þar að auki sátu Ragnheiður Haraldsdóttir og Pétur Magnússon nokkra samningafundi í forföllum hinna. Síðast en ekki síst skal telja lögfræðing samtakanna sem hefur komið að þessu máli frá upphafi, Þóru Jónsdóttur lögfræðing hjá Juris. Öllum þeim sem hafa komið að þessu máli þakka ég kærlega fyrir vel unnin störf og þar ber hæst afar góð yfirsýn og utanumhald Þóru sem hefur frá fyrsta degi lagt mikið af mörkum hvað snertir lögfræðilegu hliðina til lausnar þessu máli.
Ég ætla ekki að fara út í smáatriði samkomulags þess sem skrifað var undir af hálfu okkar, fjármálaráðuneytis og LSR og LH þann 11. apríl sl. en nefna það helsta. Ríkið kemur til með að taka yfir ábyrgð og greiðslu á áföllnum lífeyrisskuldbindingum og greiðslu lífeyrishækkana þeirrar starfsemi Áss, Brákarhlíðar, Eirar, Fellsenda, Grundar, Hrafnistu Reykjavík, Hrafnistu Hafnarfirði, Hrafnistu Vífilsstöðum, Markar, Skjóls, Skógarbæjar og Sunnuhlíðar sem fjármagnaður er með daggjöldum úr ríkissjóði. Á sama tíma falla framangreindar skuldbindingar út úr efnahagsreikningum ofangreindra stofnana. Þá mun ríkið taka að sér greiðslu lífeyrishækkana frá og með 1. júlí 2013 en hluti stofnananna sem um ræðir hefur ekki greitt lífeyrishækkanir til LSR og LH lungann úr síðasta ári. Það sem við tökum að okkur í staðinn er að greiða verulega hækkað lífeyrissjóðsframlag til LSR og LH vegna þeirra starfsmanna sem eru enn í starfi hjá okkur og eiga aðild að þessum lífeyrissjóðum. Líklegt er að um verði að ræða allt að helmings hækkun á lífeyrisiðgjöldum vegna þessara starfsmanna en eftir því sem að þeir hætta að vinna hjá okkur vegna aldurs eða flytja sig til í starfi þá mun þessi greiðsla lækka eftir því sem árin líða. Mjög gróf nálgun á þessu leiddi í ljós um það bil helmings lækkun útgjalda vegna lífeyrisgreiðslna hjá tveimur þeirra stofnana sem eiga aðild að samkomulaginu. Og þær greiðslur koma til með að lækka eins og áður sagði. Þetta er gert til þess að ekki safnist upp „nýjar“ lífeyrisskuldbindingar sem koma þá til greiðslu í framtíðinni. Allt verður gert upp jafnóðum.
Staða mála í dag er með þeim hætti að við höfum átt einn fund með Viðari og framkvæmdastjóra og tveimur lögfræðingum LSR og LH um gerð samninga við einstaka aðildarfélög en samkomulagið sem ég sagði frá hér á undan er rammasamkomulag og því eftir að gera samninga fyrir hverja og eina stofnun. Á þeim fundi skiptumst við á upplýsingum auk þess sem við fórum yfir fyrstu drög að samningi sem Viðar hafði sett upp. Eins og fyrr sagði þá verða allar lífeyrisskuldbindingar teknar yfir vegna reksturs sem hefur verið fjármagnaðar með daggjöldum úr ríkissjóði. Lykilatriði í þessu er fjármögnun með daggjöldum, en með því að hafa náð þessu fram með þessum hætti verður ekki skoðað og eftir atvikum undanþegið í yfirtökunni, skuldbindingar sem eru til komnar vegna rekstur dvalarrýma. En lengi framan af þá var það skoðun ráðuneytismanna að rekstur dvalarrýma væri ekki heilbrigðisþjónusta á vegum ríkisins heldur félagslegt úrræði á vegum sveitarfélaga og því ekki á ábyrgð ríkisins. Sem betur fer tókst að ná þessu í gegn með þessum hætti. Slíkt einfaldar málið að þurfa ekki að sundurgreina dvalarrýmisreksturinn frá hjúkrunarrýmisrekstrinum auk þess sem að þetta þýðir að líklega verða allar lífeyrisskuldbindingar ofangreindra stofnana yfirteknar af ríkinu. Það eina sem ríkið vill ekki taka yfir, er ef að einhverjar þessara skuldbindinga eru til komnar vegna reksturs á dagvistarrýmum. Ég og Viðar munum skoða málið hvað þetta varðar á næstu dögum og að því loknu verður væntanlega gengið endanlega frá samningum við hverja og eina stofnun, skrifað undir og gengið frá greiðslum í aðra hvora áttina. Til LSR og LH hjá sumum og frá LSR og LH til hinna, allt eftir því hvernig staðið var að greiðslum lífeyrisskuldbindinga í fyrra og það sem af er þessu ári. Stefnt er að því að ljúka gerð samninga, undirritun þeirra og greiðslum fyrir 1. júní næstkomandi.
Við höfum margoft rætt það vandasama verk sem það er að semja um þessar lífeyrisskuldbindingar fyrir svo mörg félög, með margskonar eignaraðild, mismunandi starfsemi og fjármögnun. Enda kom það á daginn að þetta var ekki einfalt. Á þeim undanförnum sex árum sem ég hef staðið í þessum samningaviðræðum þá hafa margar tillögur á lausn málsins orðið til. Á einhverjum tímapunkti átti að semja við okkur um lausn hinna fjögurra fræknu fyrst, það er Heilsustofnunar NLFÍ, Krabbameinsfélagsins, SÁÁ og Sjálfsbjargar og síðan yrði samið við okkur um hjúkrunarheimilin. Á einhverjum tímapunkti til að byrja með þá var ekki gerður greinarmunur á þeim hjúkrunarheimilum sem nú er verið að semja fyrir og þeim sem rekin eru af og/eða á ábyrgð sveitarfélaganna en síðan kom fram þessi krafa ríkisins um skuldajöfnun gagnvart þessum „sveitarfélagaheimilum“ ef þannig mætti að orði komast. Í þeirri samningalotu sem nú stendur yfir var það skoðun ríkisins á köflum að hafa þessa tvo hópa innan SFV, það er hin fjögur fræknu og sveitarfélagaöldrunarstofnanirnar hreint ekkert með í þessu rammasamkomulagi sem var undirritað fyrr í þessum mánuði. Það hafðist þó að koma inn sérstökum kafla um hin fjögur fræknu þar sem samþykkt er að unnið verði að greiningu þjónustusamninga við Heilsustofnun NLFÍ, Krabbameinsfélag Íslands og SÁÁ með tilliti til lífeyrisskuldbindinga. Sambærileg greining verður gerð vegna þeirrar starfsemi Sjálfsbjargar sem ríkið hefur fjármagnað. Stefnt er að því að greiningarvinnan hefjist 1. júní, samningagerð hefjist 1. september og samningar verði undirritaðir fyrir árslok 2014. Hvað varðar sveitarfélagaheimilin þá náðist eingöngu að fá inn bókun um málið á þá leið að SFV áréttar þann eindregna vilja sinn að ríkið hefji í september á þessu ári viðræður við Samband íslenskra sveitarfélaga um uppgjör lífeyrisskuldbindinga þessara heimila. Í bókuninni segir jafnframt að stefnt skuli að því að ljúka þeim viðræðum fyrir mitt næsta ár. Ég hef verið í góðu sambandi við forsvarsmenn Sambands íslenskra sveitarfélaga og sagt þeim frá því hvert stefndi í samningaferlinu. Þeir voru skiljanlega ekki sáttir við að við skyldum ekki ná lengra með þessar stofnanir en töldu þó að þetta væri vissulega skref í rétta átt og þegar samningar okkar vegna hinna hjúkrunarheimilanna væru frá gengnir væri vonandi hægt að nota þá sem fyrirmynd samninga vegna sveitarfélagaheimilanna. Sömu sögu má segja um forsvarsmenn hinna fjögurra fræknu. Þeir hefðu skiljanlega viljað ná meiri árangri fyrir hönd sinna stofnana en tóku sem betur fer skynsamlega á málum og studdu þetta samkomulag þó að stofnanir þeirra séu ekki meðal þeirra fyrstu sem gengið verður frá lífeyrisskuldbindingum. Vil ég þakka forsvarsmönnum hinna fjögurra fræknu og forsvarsmönnum Sambands íslenskra sveitarfélaga kærlega fyrir þeirra stuðning og drengskap við gerð rammasamkomulagsins.
Lögfræðikostnaður vegna samninga um lífeyrisskuldbindingra nemur um það bil sex og hálfri milljón króna í dag. Einhver kostnaður kemur svo til með að falla til við frágang samninganna við hjúkrunarheimilin 12. Stjórn samtakanna samþykkti á sínum tíma að þessi lögfræðikostnaður yrði endurgreiddur af þeim heimilum sem kæmu til með að fá endurgreiðslu lífeyrisskuldbindinga frá ríkinu. Á þeim tíma ríkti sjálfsagt nokkur bjartsýni um að við fengjum nokkur ár aftur í tímann endurgreidd. Raunin varð önnur. Hálft ár 2013 fáum við til baka. Ég ræddi þetta í síðustu viku við forsvarsmenn þeirra 12 heimila sem koma til með að fá endurgreiddar lífeyrisskuldbindingar, hvort þau samþykktu að endurgreiða SFV ofangreindar tæpar sjö milljónir og þá í hlutfalli við þær endurgreiðslur greiddra lífeyrisskuldbindinga sem þær koma til með að fá endurgreiddar og samþykktu þeir það einróma. Talsverður hluti þessa kostnaðar er til kominn vegna annarra en þeirra sem koma til með að endurgreiða hann. Mér fannst ekki rétt að geyma einhvern hluta þessa lögfræðikostnaðar til endurgreiðslu af hálfu hinna fjögurra fræknu eða sveitarfélagaheimilanna komi til þess að þau fái endurgreiddar þær lífeyrisskuldbindingar sem þær hafa greitt við gerð samninga í samræmið við rammasamkomulagið. Dálítið snúið að heyra þetta ef til vill með þessum hætti en vonandi skilst þetta. Ef ekki, þá er bara að spyrja á eftir.
Ég er verulega stoltur og ánægður með að hafa náð loksins ásættanlegri niðurstöðu í þetta mjög svo snúna mál. Því er að vísu ekki lokið að fullu en þau skref sem hafa verið stigin síðan í febrúar eru öll á þann veg að lausn færist nær, misjafnlega mikið en allt saman í rétta átt. Þessar samningalotur hafa tekið mikinn tíma og orku en þegar lausn er í sjónmáli þá gleymist það einhvern veginn og ég sé svo sannarlega ekki eftir allri þeirri vinnu sem ég hef lagt í lausn málsins. Enn og aftur þakka ég öllum þeim sem komu að þessu máli, bæði mínu fólki á vegum SFV en ekki síður þeim sem hafa staðið vaktina af hálfu fjármála- og velferðisráðuneyta. Þetta mál hefur verið það lang mikilvægasta og fyrirferðarmesta hjá SFV á yfirstandandi starfsári og ber skýrsla formanns þess glöggt merki.
Kjaramálin hafa verið áberandi þennan veturinn. Flestir samningar voru lausir í upphafi árs og hefur launanefndin setið á mörgum og ströngum samningafundum við mismunandi stéttarfélög. Ég ætla ekki út í smáatriði en alvarlegustu tíðindin eru auðvitað boðun verkfalls sjúkraliða og starfsmanna SFR hjá okkar aðildarfélögum. Þrír verkfalls- eða vinnustöðvunardagar, þann 12., 15. og 19. maí og svo er boðað allsherjarverkfall þann 22. maí. Vinnustöðvanir staka daga er eitthvað sem hægt er að ráða við en veldur að sjálfsögðu miklu raski.
Allsherjarverkfall er hins vegar eitthvað sem verður mjög erfitt að eiga við. Ágreiningsefni okkar og þessara félaga er fyrst og fremst réttindamál starfsmanna. Félögin vilja að lög og reglur um opinbera starfsmenn gildi um alla starfsmenn þeirra félaga sem starfa hjá aðildarfélögum SFV. Það er mjög mismunandi hvort að ofangreind lög og reglur séu í gildi hjá aðildarfélögum SFV. Þau eldri þurfa mörg hver að fara eftir þessum lögum og reglum á meðan þau yngri eru óbundin af þeim. Það er að mínu mati ekki ásættanlegt að öll aðildarfélög SFV undirgangist þessi lög án þess að eitthvað annað komi í staðinn. Við getum ekki gefið þeim öll réttindi til handa þeirra starfsmönnum án þess að þeir gefi þá eitthvað annað eftir í staðinn. En ég treysti launanefndinni til að leysa þetta erfiða mál eins og önnur mál sem þau hafa leyst hingað til. Formaður launanefndarinnar, Kristján Sigurðsson á eins og áður sagði sæti í stjórn SFV þannig að samráð við lausn málsins verður náið og er reyndar nauðsynlegt. Samningar við hjúkrunarfræðinga og Eflingu eru í farvegi og ekki hefur komið til boðunar verkfalls eða annarra aðgerða af þeirra hálfu. Jafnlaunaátak fyrrverandi ríkisstjórnar tengist að sjálfsögðu kjaramálunum og hef ég átt fundi með með ráðherrum fjármála- og heilbrigðismála með beiðni um viðbótar fjárframlög til aðildarfélaga SFV þannig að við gætum komið til móts við kröfu okkar starfsmanna sem vilja skiljanlega fá sambærilegar launabætur og jafnlaunaátakið gaf til dæmis starfsmönnum LSH. Þeir fundir og beiðnir hafa verið til lítils en þó er ekki öll nótt úti enn og við Kristján höfum verið að hugsa leiðir til lausnar og höfum kynnt þær nýlega fyrir ofangreindum ráðherrum. Vonandi leysast öll þessi kjarasamningsmál á farsælan hátt sem fyrst.
Yfirfærsla á málefnum aldraðra hefur verið í undirbúningi frá því í nóvember árið 2011 en þar er meðal annars að störfum 13 manna nefnd undir forystu Bolla Þórs skrifstofustjóra velferðarráðuneytis. Nefndin er skipuð fulltrúum úr ráðuneytum og hagsmunaðilum og á ég sæti í nefndinni fyrir hönd okkar samtaka. Ný ríkisstjórn hefur sýnt þessu málið afar lítinn áhuga og það hefur einungis verið haldinn einn fundur í nefndinni á síðastliðnum 10 mánuðum. Ég hef litla trú á því að þetta verkefni flytjist frá ríki til sveitarfélaga, i það minnsta ekki næstu þrjú árin.
Heilbrigðisráðherra sagði í lok síðasta árs í fjölmiðlum í tengslum við þrot Sunnuhlíðar að daggjöld hjúkrunarheimila væru of lág og nefndi þar tölur allt að 10%. Hann fól síðan Ríkisendurskoðun í lok janúar að gera úttekt á rekstri allra hjúkrunarheimila landsins. Samhliða þeirri úttekt átti Ríkisendurskoðun að gera tillögu til ráðherra um hvernig fyrirkomulag samskipta og samninga á milli ráðuneytis og hjúkrunarheimila væri best fyrir komið. Ég hef unnið talsvert með starfsmönnum Ríkisendurskoðunar að undirbúningi þessarar könnunar og jafnframt hvatt aðildarfélög SFV til að skila greinargóðum upplýsingum sem spurt er eftir á fljótan og skilvirkan hátt. Starfsmenn Ríkisendurskoðunar voru afar ánægðir með aðkomu samtakanna að þessari vinnu og vonandi skilar skýrslan árangri, bæði auknum fjármunum til hjúkrunarheimila og svo ekki síður skynsamlegum tillögum um samskipti og samninga eins og áður sagði.
Til stóð að halda tvær ráðstefnur, aðra sl. haust og hina í mars. Sú fyrri var undirbúin í samstarfi við Landssamband eldri borgara, Félag stjórnenda í öldrunarþjónustu og Öldrunarráð Íslands og vinnuheiti ráðstefnunnar var „Öldrunarheimili framtíðarinnar.“ Skemmst er frá að segja að ekki tókst að finna frambærilega fyrirlesara í tæka tíð og var því ráðstefnunni frestað um óákveðinn tíma. Stjórn SFV taldi ekki fært að halda aðra ráðstefnu í mars þar sem öll tíma og orka fór í lífeyrisskuldbindingamálið og kjaramál. Við fengum síðan nýlega boð frá Öldrunarráði Íslands um að koma að ráðstefnuhaldi með þeim seinni hlutann í maí ásamt Landssambandi eldri borgara. Umfjöllunarefni ráðstefnunnar verður líknardauði – líknardráp, hvar liggja mörkin? Líklegur ráðstefnudagur er mánudagurinn 19. maí eða þriðjudagurinn 20. maí. Við erum að reyna að fá til okkar einstakling frá Hollandi sem hefur fjallað nokkuð um þessi mál og hann getur sagt okkur frá hvernig þessum málum er háttað þar í landi en segja má að Holland sé með frjálslyndustu löndum í heiminum þegar komið er að möguleikum og heimild einstaklinga til að svipta sig lífí og fá aðstoð annarra til þess. Mjög spennandi og þarft umræðuefni sem verður áhugavert að taka þátt í.
Gerð þjónustusamninga við hjúkrunarheimili er eitt af því sem stjórn SFV hefur verið með til skoðunar í vetur. Lítið sem ekkert virðist vera að gerast í þeim málum en skv. núgildandi lögum þá ber Sjúkratryggingum Íslands að hafa lokið gerð allra slíkra samninga fyrir 1. janúar 2015. Ég rakti gang þessa máls í grein í Morgunblaðinu í nóvember síðastliðnum, ýtti heldur harkalega við Ríkisendurskoðanda og hlaut bágt fyrir en að öðru leyti tjáði enginn ráðamaður eða stjórnmálamaður sig um málið. Ég get ekki séð að gerð þjónustusamninga við öll hjúkrunarheimili landsins verði lokið fyrir árslok eins og lög kveða á um og er hræddur um að ég hafi rétt fyrir mér í þeim efnum að í haust komi fram lagabreytingartillaga þess efnis að frestur til að ljúka ofangreindum samingum verði framlengdur til ársloka 2017, eða um tvö ár. Ætla ekki að fjalla frekar um þetta mál nú, en eflaust verður það til skoðunar hjá þeirri stjórn stjórn sem kjörin verður á þessum aðalfundi.
Sjálfsagt mætti tína fleira til af því sem stjórn SFV hefur verið með til umfjöllunar i vetur en læt þetta duga að sinni.
Ég var fyrst kosinn formaður samtakanna vorið 2008 og hef því gegnt formennskunni í sex ár. Þrátt fyrir yfirlýsingar mínar á síðasta aðalfundi þess efnis að yfirstandandi starfsár yrði mitt síðasta þá hefur mér algjörlega snúist hugur og ég sækist fast eftir því að halda áfram sem formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu og vona að ég njóti trausts ykkar til þess. Ég vil í lokin nota þetta tækifæri og þakka stjórnarmönnum afar gott samstarf og ykkur öllum sömuleiðis fyrir gott og farsælt samstarf á yfirstandandi starfsári.
Gísli Páll Pálsson, formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu
Flutt á aðalfundi SFV haldinn á Grund mánudaginn 28.apríl 2014
Tillaga til stjórnarkjörs á aðalfundi SFV haldinn 28. apríl 2014:
Formaður: Gísli Páll Pálsson. (óbreytt)
Stjórnarmenn: Ásgerður Björnsdóttir, Björn Bjarki Þorsteinsson, Kristján Sigurðsson, Margrét Ósvaldsdóttir, Pétur Magnússon og Ragnheiður Haraldsdóttir. (óbreytt)
Skoðunarmenn: Hrefna Sigurðardóttir og Ingibjörg Ólafsdóttir. (óbreytt)