Fréttir og tilkynningar

Af niðurskurðaráformum í öldrunarþjónustu

m4

 Boðaður hefur verið frekari niðurskurður í ríkisútgjöldum á næsta ári. Fyrirhugað er að skera niður  í velferðarkerfinu um 5% til viðbótar við fyrri niðurskurði. Komið hefur fram að með fækkun hjúkrunarrýma megi ná fram 3,8% af niðurskurðarkröfunni, og lækkun daggjalda verður þá um 1,2%. Niðurskurði á dvalarrýmum verður náð með fækkun dvalarrýma, en dagvistargjöld verða lækkuð um 5%. Þetta er sú staða sem öldrunarheimili þurfa að horfa til vegna næsta árs.

 Árið 2003 var tekið upp samræmt greiðslukerfi byggt á RAI-mati hvers heimilis og var þá fjárframlögum skipt á sanngjarnari hátt en áður tíðkaðist. Til að hvetja til innlagna þyngri vistmanna voru gerðar breytingar á greiðslukerfinu árið 2007 og þá um leið var settur álagsstuðull á heimili með 50 rými eða færri. Framlag ríkisins var ekki hækkað vegna þessara breytinga heldur hélst kakan jafn stór sem skipt var milli heimila með greiðslukerfismódelinu. Kakan stækkar heldur ekki þó hjúkrunarþyngd á landsvísu aukist, heldur leiðir það til þess að þegar hjúkrunarþyngd eykst á fleiri heimilum, eins og hefur verið að gerast, þá hækka daggjöldin hlutfallslega minna til þeirra heimila, þar sem hjúkrunarþyngd eykst, eða lækka hlutfallslega meira hjá þeim heimilum, þar sem hjúkrunarþyngd minnkar.

Daggjöld vegna vistunar aldraðra verða seint talin of há. Þau eru ákveðin út frá því fjármagni sem fjárlög heimila hverju sinni til þessarar þjónustu. Draumórar þeirra sem ákveða fjárframlögin, um að kostnaður vegna þjónustu við aldraða sé lægri en hann er í raun, ætla að verða langlífir. Á hverju ári í 5 ár, árin 2004 til 2008, voru á fjáraukalögum settir miklir fjármunir til að leiðrétta rekstrarhalla öldrunarheimila, en framlög í fjárlögum næsta árs á eftir voru aðeins einu sinni lítillega leiðrétt umfram verðlagsþróun, þó að ljóst hafi verið að þau myndu ekki duga fyrir útgjöldum það árið. Eins og við var að búast voru engin viðbótar fjárframlög til öldrunarheimila á fjáraukalögum síðasta árs.

Í ljósi þess að í raun sigldu öldrunarheimilin inní niðurskurðartímabilið með lægri greiðslur, daggjöld, frá ríkinu en raunverulegur kostnaður þeirra hafði verið árin á undan, þá verður athyglisvert að fylgjast með hvort heimilunum takist að halda sjó á þessu ári. Heimilum hefur mörgum tekist að lækka kostnað og jafnvel halda heildarútgjöldum svipuðum og á fyrra ári með margvíslegum aðgerðum, þó það hafi helst verið launakostnaður sem tekist hefur verið á við. Ýmislegt kemur til, en það er kannski fyrst og fremst starfsfólki heimilanna að þakka þegar tekist hefur að halda í horfinu. Starfsfólk, sem ekki var á háum launum fyrir, hefur tekið á sig verulega kjaraskerðingu og einnig hefur kostnaðarvitund almennt aukist á þessum tímum þrenginga. Í “góðærinu”, sem reyndar fór framhjá öldrunarheimilum, jukust kröfur, starfsmannavelta var há, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, og fólk ekki jafn meðvitað um kostnað. En það eru auðvitað takmörk fyrir því hvað hægt er að draga mikið úr kostnaði án þess að þjónusta skerðist.

Í fyrirtækjum eins og á öldrunarheimilum, þar sem launakostnaður er um 75-80%, af rekstrarkostnaði, er áríðandi að stöðugleiki ríki í starfsmannahaldi og laun séu samkeppnishæf við það sem almennt gerist á vinnumarkaði. En þegar fjármunir eru svo naumt skammtaðir eins og raun ber vitni má lítið útaf bregða í starfsmannamálum til að ekki fari illa. Heimilin eru því í mjög viðkvæmri stöðu og afar varasamt að lækka daggjöld frekar.

Þegar ítrekað eru gerðar kröfur um sparnað og hagræðingu er áríðandi að það ráðuneyti sem fer með málaflokkinn, nú væntanlega hið nýja velferðarráðuneyti, komi að borðinu og taki þátt í þeirri vinnu sem framundan er við niðurskurð næsta árs. Eftir þann niðurskurð sem verið hefur á framlögum ríkisins eru heimilin búin að skafa það litla kjöt sem var á beinunum í sínum rekstri og fátt annað en launakostnaður sem hægt verður að eiga við. Ráðuneytið verður að koma fram með skýrum hætti varðandi þá þjónustu sem ríkið vill kaupa og gera þjónustusamninga við heimilin. Þegar ráðuneytið er tilbúið að skilgreina þá þjónustu sem það vill kaupa fyrir daggjöldin, sem greidd eru, geta myndast tækifæri til hagræðingar hjá heimilunum.