Grein undirritaðs um greiðsluþátttöku heimilismanna hjúkrunarheimila í dvalarkostnaði sem birtist í Morgunblaðinu sl. þriðjudag vakti nokkra athygli. Flestir sem hafa tjáð sig um málið eru þeirrar skoðunar að greiðslufyrirkomulagið sé óheppilegt. Þar er þó undantekning á og mér sýnist á viðbrögðum velferðarráðherra að hann sé sáttur við núverandi fyrirkomulag. Ráðherrann líkir þessari innheimtu við það sem sjúkrahús þurfa að rukka sjúklinga sína um vegna ýmiskonar heilbrigðisþjónustu sem þeir fá á sjúkrahúsum landsins. Veigamikill munur er á þessu tvennu. Í fyrsta lagi eru greiðslur sjúklinga fyrir læknisþjónustu á sjúkrahúsum í nær öllum tilvikum mjög lágar og fáar og þar af leiðandi mjög lítill hluti heildartekna viðkomandi sjúklings, á meðan greiðslur fyrir dvöl á hjúkrunarheimili geta numið rúmum 311 þúsund krónum á mánuði. Sú upphæð getur numið tæplega 83% af heildartekjum viðkomandi heimilismanns frá því hann flytur á hjúkrunarheimilið og til æviloka. Í öðru lagi þá hagar því þannig í mörgum tilvikum að það eru aðstandendur heimilismannsins sem sjá um fjármál hans. Ég veit um mörg tilvik þar sem þessir aðstandendur kjósa ýmist að draga þessar greiðslur til hjúkrunarheimilanna verulega eða neita hreinlega að borga og nota þessa fjármuni að því er virðist í eigin þágu. Þetta eru því síður en svo sambærilegir hlutir.
Heiðarleiki
Ég tek hatt minn ofan fyrir heiðarleika velferðarráðherra þegar hann segir núverandi greiðslufyrirkomulag vera hið ágætasta. Með þeirri yfirlýsingu staðfestir hann með afgerandi hætti að það hefur væntanlega aldrei staðið til að standa við þau orð Jóhönnu Sigurðardóttur sem hún lét falla í ræðustól Alþingis haustið 2007 um að breyta bæri þessu greiðslufyrirkomulagi: „…mun ég láta skoða hvort ekki sé rétt að endurmeta greiðslufyrirkomulag þeirra sem dveljast á hvers kyns þjónustustofnunum aldraðra þannig að horfið verði frá fyrirkomulagi svokallaðra vasapeninga yfir í eðlilegt greiðslufyrirkomulag. Mér hafa borist fréttir af því að þar sé víða pottur brotinn og þetta vil ég skoða sérstaklega. Við hljótum að geta endurmetið á hverjum tíma hvort endilega eigi að halda í úrelt fyrirkomulag sem fólkið sjálft er ósátt við. Ég á einkum við að gerðar verði ráðstafanir þannig a lífeyrisþegar sem kjósa að búa á stofnun haldi í meira mæli fjárhagslegu sjálfstæði sínu.“
Gísli Páll Pálsson, forstjóri og formaður Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu