Fréttir og tilkynningar

Ályktun frá félagsfundi SFH 2. september 2011

Komum í veg fyrir hættuástand

Standa verður vörð um aldraða og sjúka

 

Félagsfundur Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu haldinn á Hrafnistu Kópavogi 2. september 2011 ályktar 

Samtök fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu mótmæla harðlega frekari niðurskurði í velferðarmálum á fjárlögum næsta árs. Undanfarin ár hafa framlög til velferðarþjónustu lækkað verulega þrátt fyrir kröfur um aukna þjónustu og síhækkandi rekstrarkostnað. Aðildarfélög Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu (SFH) hafa undanfarin þrjú ár hagrætt verulega í rekstri sinna stofnana.

Framlög til aðildarfélaga SFH hafa verið skert einhliða um allt að 17% milli ára hvort sem um er að ræða daggjöld eða undirritaða þjónustusamninga. Nú er svo komið að ekki verður gengið lengra í niðurskurði án þess að hættuástand skapist.

Félagsfundur SFH krefst þess að stjórnvöld taki fullt tillit til þeirra launahækkana sem orðið hafa á árinu og þess stóraukna kostnaðar sem orðið hefur á aðkeyptri þjónustu og vörum, til samræmis við launavísitölur og vísitölu neysluverðs. Verði það ekki gert á fjárframlögum 2012 til aðildarfélaga SFH, lýsa aðildarfélögin hér með yfir að ekki verði mögulegt að veita alla þá lögbundnu þjónustu sem þeim er ætlað.