Í samræmi við ákvörðun félagsfundar Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) sem haldinn var þann 28. ágúst sl., hefur stjórn SFV sent frá sér eftirfarandi ályktun:
Reykjavík, 3. september 2015.
Stjórn Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) skorar á fjármálaráðuneytið að ljúka samningaviðræðum við SFV um yfirtöku lífeyrisskuldbindinga þeirra aðildarfélaga sem eftir er að ljúka samkomulagi við. Upphaflegur tímarammi sem ákvarðaður var í samkomulagi fjármála – og efnahagsráðherra við SFV er löngu liðinn. Ljúka átti viðræðum við Heilsustofnun NLFÍ, Krabbameinsfélag Íslands, SÁÁ og Sjálfsbjörg fyrir 1. janúar 2015 og í beinu framhaldi átti að semja við hjúkrunarheimili innan SFV sem rekin eru af sveitarfélögum. Stjórn SFV lýsir miklum vonbrigðum með þær óásættanlegu tafir sem orðið hafa á málinu.
Mjög mikilvægt er að ljúka viðræðunum sem fyrst, að öðrum kosti er yfirstandandi samningaviðræðum milli SFV og Sjúkratrygginga Íslands um þjónustusamninga um rekstur hjúkrunarrýma, dvalarrýma og dagdvalarrýma, stefnt í verulega hættu. Áríðandi er að lausn finnist á þessu máli á næstu vikum.