Stjórn Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu hefur sent frá sér eftirfarandi ályktun:
Reykjavík, 16. mars 2021
Ályktun frá stjórn Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu
Undanfarin ár hefur verið þrengt að rekstri hjúkrunarheimila með aðhaldskröfum og ófullnægjandi verðbótum, á sama tíma og umönnunarþörf íbúanna hefur aukist. Er svo komið að flest hjúkrunarheimili landsins eru komin í rekstrar– og greiðsluerfiðleika. Undir þessum kringumstæðum hafa mörg sveitarfélög verið að greiða með rekstri hjúkrunarheimila í sinni heimabyggð og þær greiðslur hafa farið hækkandi með auknum rekstrarerfiðleikum heimilanna. Eru þessar greiðslur farnar að sliga mörg sveitarfélög og hafa leitt til þess að sum þeirra hafa talið nauðsynlegt að segja sig frá þessum rekstri, enda hvílir ábyrgðin á rekstrinum samkvæmt lögum á ríkinu.
Í 20. grein þjónustusamnings hjúkrunarheimila við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) kemur fram að hjúkrunarheimili skuldbinda sig til að taka þátt í gerð verklokaáætlunar vegna lokunar eða rekstraraðilaskipta ef til þeirra kemur. Hjúkrunarheimilið skuldbindur sig einnig til að taka þátt í vinnu við verklok sín og tryggja með því viðskilnað sem hefur lágmarksáhrif á einstaklingana sem þar dvelja. Sambærileg ákvæði er að finna í öðrum samningum SÍ við veitendur heilbrigðisþjónustu. Fjögur sveitarfélög sem rekið hafa sex hjúkrunarheimili hafa núna í tæpt ár ítrekað komið því á framfæri við stjórnvöld og í fjölmiðlum að þau ætli ekki að taka ábyrgð á þessum rekstri lengur. Í sumum tilfellum lá fyrir að rekstrarsamningar myndu renna út um síðastliðin áramót, en í öðrum tilfellum var gildandi samningum hreinlega sagt upp. Því miður hafa viðbrögð stjórnvalda verið að hunsa þessar yfirlýsingar og ýta þessum málum á undan sér. Sveitarfélögin hafa nú í marga mánuði kvartað undan ófaglegum vinnubrögðum og ómarkvissum viðræðum. Nú á dögunum varð ljóst að þessi mál væru algjörlega komin í þrot þegar heilbrigðisráðherra lýsti því yfir að heilbrigðisstofnanir myndu taka við rekstri þriggja þessara hjúkrunarheimila en aðilaskiptalögin væru ekki talin gilda um yfirfærslu verkefnisins. Í því fælist að nú yrði að segja upp öllum starfsmönnum þessara heimila þar sem ríkið myndi ekki taka yfir þeirra ráðningarsamninga.
Stjórn SFV lýsir yfir miklum vonbrigðum með vinnubrögð stjórnvalda í þessum málum. Vinnubrögð í málum þessara hjúkrunarheimila, sem og brotalamir við yfirfærslu á verkefnum Krabbameinsfélagsins til opinberra aðila um síðustu áramót, eru óboðleg fyrir þjónustunotendur, rekstraraðila og starfsfólk sem sinna þessum verkefnum. Þörf er fyrir skýrt, gegnsætt og skilvirkt verklag við yfirfærslu jafn viðkvæmra verkefna og felast í heilbrigðisþjónustu á milli rekstraraðila, hvort sem ríkið eða annar aðili á í hlut. Stjórnvöld þurfa að átta sig á að þeim ber einnig að gera sitt til að tryggja að slík yfirfærsla hafi lágmarksáhrif á þjónustunotendur, þau geta ekki bara lagt þær kröfur á aðra aðila. Í því felst auðvitað einna helst að hlúa að því starfsfólki sem sinnir þjónustunni, en án starfsfólksins er engin þjónusta.
Stjórn SFV skorar á heilbrigðisráðherra að endurskoða afstöðu sína varðandi þörf fyrir uppsagnir á starfsfólki umræddra hjúkrunarheimila, eða þá beita sér fyrir þeim lagabreytingum sem þörf er á til að þessi yfirfærsla gangi vel fyrir sig og kippi ekki fótunum undan starfseminni með þessum hætti. Næg mistök hafa verið gerð í þessum málum hingað til.
Stjórn SFV skipa:
Gísli Páll Pálsson (stjórnarformaður)
B. Bjarki Þorsteinsson (varaformaður)
Anna Birna Jensdóttir
Ásgerður Th. Björnsdóttir
María Fjóla Harðardóttir
Ragnar Sigurðsson
Sigurður Rúnar Sigurjónsson