Reykjavík 14. janúar 2104
Stjórn Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) harmar þá stöðu sem upp er komin á hjúkrunarheimilinu Sólvangi en eins og fram hefur komið í fjölmiðlum virðist heimilisfólk vera fjötrað og síður tekið fram úr rúmum vegna niðurskurðar á mannafla sökum fjárskorts.
Rétt er að taka fram að Sólvangur er eina hjúkrunarheimilið á höfuðborgarsvæðinu sem rekið er af ríkinu og þar með alfarið á ábyrgð heilbrigðisráðherra.
Fyrir rekstraraðila hjúkrunarheimila er tvennt í stöðunni í dag: Annars vegar að gera eins og Sunnuhlíð, að halda uppi góðri þjónustu með þeim afleiðingum að reksturinn kemst í þrot eða að gera eins og heilbrigðisráðherra hefur valið, að láta samdrátt í fjárframlögum bitna á heimilisfólki eins og gert er á Sólvangi.
SFV hefur árangurslaust undanfarin ár reynt að knýja fram leiðréttingar á fjárframlögum til hjúkrunarheimila. Þar á meðal farið fram á sanngjörn daggjöld, lausn á lífeyrisskuldbindingamálum, gerð þjónustusamninga og aukin fjárframlög vegna jafnlaunaátaks, en allt án árangurs. Þá má nefna að heilbrigðisráðherra hefur sjálfur bent á að daggjöld hjúkrunarheimila séu að minnsta kosti 9% of lág.
Stjórn SFV skorar á heilbrigðisráðherra að beita sér fyrir lausn ofangreinda atriða sem allra fyrst.
Fyrir hönd stjórnar SFV,
Gísli Páll Pálsson, formaður.