Fréttir og tilkynningar

Blaðagrein eftir stjórnarmann SFV

 

Eftirbátar annarra Norðurlanda í öldrunarþjónustu

 

Í sögulegu samhengi hafa Íslendingar verið eftirbátar annarra Norðurlanda í öldrunarþjónustu. Sjaldan hefur frumkvæði að bættum hag komið frá ríkinu. Hugsjónafólk, grasrótarsamtök, góðgerðarfélög, fag- og stéttarfélög, félög eldri borgara og sveitarfélög hafa farið fram á völlinn og sótt réttindi og bættan aðbúnað. Í alþingiskosningum undanfarna áratugi hefur þó ekki skort kosningaloforð til umbóta fyrir eldri borgara, en efndirnar hafa því miður verið á hraða snigilsins og virðist þá litlu skipta hvaða stjórnmálaflokkar hafa farið með völdin. Stefnuleysi hefur viðgengist.

Samkvæmt spá Hagstofu Íslands mun Íslendingum sem eru 67 ára og eldri fjölga úr 39000 í 86000 á árunum 2016 til 2050. Þar af munu einstaklingar 90 ára og eldri fjórfaldast og verða tæplega 8000, og einstaklingar 80 ára og eldri þrefaldast og verða rúmlega 33000. Heilbrigði eldri borgara er nokkuð gott hér á landi og langlífi í hærri kantinum. Langflestir búa sjálfstæðu lífi. Það eru einungis 6,5% 67 ára og eldri sem dveljast á hjúkrunarheimilum og þurfa sólarhringsumönnun. RAI-mat sem mælir raunverulegan aðbúnað aldraðra sýnir að meðaldvalartími styttist og að færni til athafna daglegs lífs fer minnkandi og fleiri eru algjörlega háðir umönnunaraðilum.

 

Í dag eru rúmlega 2500 hjúkrunarrými í boði á landinu og hefur sá fjöldi staðið nokkurn veginn í stað undanfarin ár þar sem fækkun fjölbýla hefur komið til móts við byggingu nýrra hjúkrunarrýma. Dvalarrými sem er léttara þjónustustig eru nánast að hverfa. Í ársbyrjun voru yfir 300 manns á biðlista um að komast inn á hjúkrunarheimili. Þar af eru um 100 sem hafa lokið meðferð á Landspítala og bíða þar eftir hjúkrunarheimili. Tíminn í aðdraganda þess að veikir einstaklingar fái færni- og heilsumat getur verið nokkrir mánuðir. Biðtíminn síðan eftir hjúkrunarrými er óviðunandi langur. Nóg er að vera komin í þá aðstöðu að missa heilsuna og vera öðrum háður um umönnun sína.   Ættingjar missa jafnvel einnig heilsu og kvíði og óöryggi eykst. Því miður eru farin að sjást aukin ummerki ófullnægjandi umönnunar fólks á biðlistum, eins og legusár, vannæring og færnisskerðing. Árið 2030 er áætlað að þörf sé á 4500 hjúkrunarrýmum sem samsvarar byggingu 2000 nýrra rýma á 12 árum, það er helmingi fleirri en ráðuneytið hefur talað fyrir. Í október 2016 var gerður rammasamningur milli Sjúkratrygginga Íslands og hjúkrunarheimila um rekstur og þjónustu sem rammar inn þær kröfur sem gerðar eru til hjúkrunarheimila, þ.e. um aðbúnað og þjónustu og hvernig skuli greiða fyrir reksturinn. Var það mikið framfaraskref og mikilvægt verður að fara vel yfir reynsluna á fyrsta samningstímanum til að færa endurnýjum hans  í átt til þess að rétt endurgjald sé greitt fyrir velferðarþjónustu og að ekki séu gerðar opinberar kröfur án kostnaðargreiningar

Samkvæmt gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands 2016 þá var meðaldaggjald hjúkrunarheimila á höfuðborgarsvæðinu 29084 kr. fyrir sólarhringsþjónustu. Það er örlítið ódýrara en ef keypt er núna gisting á hóteli fyrir einn í eina nótt. Daggjöldin eru mjög lág. Á hótelinu er e.t.v. morgunmatur, þrif á herbergi, þvottur og einhver yfirbygging sem greitt er fyrir. Þar er enginn sem ætlar að hjúkra gestinum, hjálpa í bað, klæða, aðstoða við að matast, taka lyfin, lina verkina og kvíðann, hjálpa á salernið, þjálfa, fara með honum út, lyfta honum, aka honum, veita honum öryggi, hlýju og skemmtun.

 

Mörg hjúkrunarheimili bjóða húsakost sem er eins frambærilegur og á góðum hótelum, nema að sjúkrarúm og sérhæfður hjálpartækjabúnaður er dýrari.  Í fljótu bragði virðist því vera lítið rekstrafé til velferðarþjónustunnar sjálfar, og/eða nánast ekkert til reksturs húsnæðis. Þjónusta hjúkrunarheimila er borin upp af kvennastéttum eins og hjúkrunarfræðingum, sjúkraliðum, þjálfurum, félagsliðum, matartæknum og umönnunarstarfsfólki. Konur mælast að meðaltali með 13% lægri laun en karlar. Afar brýnt er að tryggja að þeir sem menntað hafa sig til starfa í velferðarþjónustu beini kröftum sínum þangað. Ríkið ber ábyrgð og leiðir kjarasamninga gagnvart þessum hópum og það er mikilvægt að ríkið tryggi þeim samkeppnishæf laun. Í dag er skortur á fagfólki og mikilvægt að auka námsframboð heilbrigðisstétta til að tryggja mönnun. Jafnframt er mikilvægt að við kostnaðargreiningu velferðarþjónustunnar sé hvergi til sparað að nota velferðatæknina til að auka lífsgæði íbúa hjúkrunarheimila og bæta vinnuumhverfi. Mikilvægt er að stjórnvöld hugsi til famtíðar, séu í fararbroddi og stuðli að þróun og nýsköpun. Of mikil tregða hefur verið  í kerfinu og sjóðir sem styðja nýsköpunarverkefni vandfundnir. Hjúkrunarheimili vilja veita góða þjónustu og mæta þörfum íbúanna. Starfsfólk þarf að þrífast í velferðarþjónustunni, þar af leiðandi þarf að sjálfsögðu að leggja áherslu á velferð þeirra með samkeppnishæfum launum og góðum aðbúnaði. Umbætur eru nauðsynlegar í  þjónustu fyrir eldri borgara þannig að Íslendingar komist úr sporunum og standi að minnsta kosti jafnfætis hinum Norðurlöndumum. Íslendingar hafa alla burði til þess.

Anna Birna Jensdóttir er framkvæmdastjóri Sóltúns, stjórnarmaður í Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu og formaður Öldrunarráðs Íslands.

 

Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. Október 2017