Fréttir og tilkynningar

Börn náttúrunnar

Í kvikmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar , Börn náttúrunnar , er fjallað um aldraðan mann sem aðstoðar konu við að “flýja” af elliheimilinu og ferðast á heimaslóðir konunnar. Það var henni nauðsynlegt að fá að sjá þann stað sem var henni kærari en allt annað. Við sem störfum í öldrunarþjónustunni erum ugglaust ósátt við upphaf þessa ferðalags, því við myndum frekar aðstoða hana en aftra henni frá því.

Hugtakið heimaslóðir er okkur íslendingum hugleikið. Við leggjum ríka áherslu á hvaðan við erum og hverra manna. Það er eitt af því sem gerir manninn að manneskju og þjóðina okkar að þjóð og verður gjarnan umræðuefni þegar fólk kemur saman, fyrir utan veðrið að sjálfsögðu. Heimaslóðir og heimabyggð er líka eitthvað sem við skynjum sterkt sem störfum á hjúkrunarheimilum á landsbyggðinni. Hinn aldraði fær tækifæri til að búa áfram í umhverfi sem hann þekkir og oft fáum við til okkar einstaklinga sem hafa flutt burt um tíma en vilja síðan eyða ævikvöldinu á bernskuslóðum. Ferðalag konunnar í Börnum náttúrunnar er því kunnuglegt stef.

Á þeim rúmu 20 árum sem ég hef starfað með öldruðum hafa áherslur verið að þróast og breytast, sem er sjálfsagt og nauðsynlegt í allri starfsemi. Við höfum í ríkara mæli tekið mið af hver sé vilji hins aldraða og aðstandenda. Rannsóknir hafa verið gerðar sem hafa leitt til áherslubreytinga, minningarvinna hefur gefið góða raun og lögð hefur verið áhersla á hugmyndafræði sem miðar að þátttöku íbúa og að sjálfsákvörðunarréttur sé virtur. Í auknum mæli hugum við að því að notandinn hafi áhrif á þá þjónustu sem hann fær. Til marks um þróunina hafa fundir og ráðstefnur í velferðarþjónustu hvers konar síðustu misseri gjarnan haft í yfirskriftinni orð eins og nýjungar, ný hugsun, breyttir tímar o.þ.h.

Þegar kreppa ríkir og niðurskurðarhnífurinn ristir í sífellu, svo ekki sér fyrir endann á er enn meiri áskorun, og reyndar jaðrar það við þrekraun að hafa áfram þessi grundvallarhugtök að leiðarljósi við vinnuna. Til þess að það gangi þurfa allir starfsmenn og stjórnendur að taka höndum saman til að styrkja hið innra starf.

Um leið og við erum í þeirri glímu erum við minnt á að allt er í heiminum hverfult. Eldgos dynur yfir , og þá fáum við ekki við allt ráðið. Þurfum að haga seglum eftir vindi, spila eftir eyranu, vera jafnvel dálítið sveigjanleg og ekki síst æðrulaus. Holl áminning okkur öllum, sem höldum áfram að glíma við rekstur heimila og stofnana.

 

Guðlaug Guðmundsdóttir, forstöðumaður Hjallatúni, Vík.