Fréttir og tilkynningar

Breytingar á stjórn SFV

María Fjóla Harðardóttir nýr stjórnarformaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu. 

María Fjóla Harðardóttir, forstjóri Hrafnistuheimilanna, var kjörin formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, SFV, á aðalfundi samtakanna sem fram fór þriðjudaginn 26. apríl. Hún tekur við af Birni Bjarka Þorsteinssyni, framkvæmdastjóra Brákarhlíðar, sem lætur af störfum eftir 10 ára starf í stjórn SFV.

Stjórn og starfsfólk SFV þakka Bjarka innilega fyrir hans óeigingjarna og kraftmikla starf í þágu samtakanna í gegnum tíðina.

María Fjóla Harðardóttir:

„Ég tek bjartsýn við formannsstöðu samtakanna. Það eru stór tækifæri framundan til að bæta þjónustu til okkar heldri borgara með áframhaldandi góðu samtali, trausti og vilja sem við finnum hjá nýjum heilbrigðisráðherra. Verkefnið er stórt og auðvitað eru áskoranir í bland við tækifærin, en við erum meira en tilbúin til að takast á við þær og í góðri samvinnu við aðra.“

Björn Bjarki Þorsteinsson:

„Á þessum tímamótum er mér efst í huga þakklæti til samstarfsfólks í stjórn, nú sem fyrr, fyrir frábært og árangursríkt samstarf og ekki síður þakklæti til starfsmanna samtakanna, án þeirra krafta værum við vanmáttugri. Ég stíg til hliðar stoltur af verkum og stöðu SFV og í þeirri vissu að samtökin munu áfram vaxa og dafna undir handleiðslu öflugra einstaklinga sem veljast í stjórn og störf innan raða okkar.“

Ný framboð til stjórnarsetu voru tvö að þessu sinni og hlutu þeir Karl Óttar Einarsson frá Grundarheimilunum og Kjartan Kjartanson frá Höfða, hjúkrunar og dvalarheimili, kosningu ásamt öðrum stjórnarmönnum sem höfðu gefið kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu.

Stjórn SFV er nú svo skipuð:
Stjórnarformaður:

María Fjóla Harðardóttir, Hrafnistuheimilunum

Stjórnarmenn:
  • Ásgerður Th. Björnsdóttir, SÁÁ
  • Halla Thoroddsen, Sóltúni öldrunarþjónustu (Sólvangi og Sóltúni Heima)
  • Karl Óttar Einarsson, Grundarheimilunum
  • Kjartan Kjartansson, Höfða, hjúkrunar- og dvalarheimili
  • Sigurður Rúnar Sigurjónsson, Eir, Hömrum og Skjóli
  • Vilborg Gunnarsdóttir, Alzheimersamtökunum

Ársskýrsla SFV

Á aðalfundinum var jafnframt kynnt ársskýrsla samtakanna fyrir starfsárið 2021-2022 en þar er fjallað er um helstu atriði úr starfi SFV á starfsárinu. Ársskýrsluna má skoða á eftirfarandi hlekk:

Árskýrsla SFV 2021-2022