Miklar mannabreytingar hafa átt sér stað hjá Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu síðustu misserin.
Eybjörg H. Hauksdóttir hefur látið af störfum sem framkvæmdastjóri SFV eftir sex ár í starfi. Eybjörg var fyrsti starfsmaður samtakanna og hefur gegnt lykilhlutverki í að móta stefnu og starf samtakanna síðustu árin. Eybjörg hefur sinnt öllum þeim fjölmörgu verkefnum sem á borð hennar hafa verið borin af mikilli kostgæfni og þökkum við henni kærlega fyrir framúrskarandi góð störf í þágu SFV. Við óskum Eybjörgu alls hins besta og velfarnaðar á nýjum starfsvettvangi.
Þá hefur Tryggvi Friðjónsson einnig látið af störfum hjá SFV. Tryggvi tók við formennsku í kjaranefnd samtakanna í febrúar 2020 þegar hann hafði látið af störfum sem framkvæmdastjóri Sjálfsbjargarheimilisins eftir um 30 ár í starfi þar. Tryggvi hafði einnig setið í stjórn SFV um árabil, með hléum. Þökkum við Tryggva innilega fyrir hans góðu störf og ötula framgöngu í kjaraviðræðum og málefnum þeim tengdum. Tryggva færum við okkar bestu árnaðaróskir á þessum tímamótum.
Sigurjón Norberg Kjærnested hefur tekið við af Eybjörgu sem framkvæmdastjóri samtakanna og mun hann leiða þau fjölmörgu og mikilvægu verkefni sem fram undan eru hjá samtökunum og aðildarfélögum þeirra.
Kristín Ösp Jónsdóttir hóf störf hjá SFV í apríl sl. og hefur tekið við formennsku í kjaranefnd SFV af Tryggva. Hún gegnir einnig stöðu lögfræðings hjá samtökunum og mun sinna fjölmörgum verkefnum í hagsmunagæslu fyrir samtökin.
Við bjóðum Sigurjón og Kristínu velkomin til starfa og hlökkum til komandi samstarfs.