Fréttir og tilkynningar

Búsetuúrræði aldraðra – hvert stefnir?

Vilhjlmur_mynd

Stjórnvöld minnast stundum á búsetuúrræði aldraðra, ráðherrar gefa hástemmdar yfirlýsingar á nokkra ára fresti um aðgerðir, það eru haldnar ráðstefnur og einstaka stjórnmálamenn hafa lagt á sig að nefna þessi mál í skrifum sínum og ræðum. Síðan gerist fátt. Staðreyndin er sú, að áhugi stjórnvalda á þessum málum er lítill. Áður fyrr var miklu meiri áhugi almennt á málefnum aldraðra, jafnt hjá Alþingi og í sveitarstjórnum.

Bæði ríki og sveitarfélög stóðu áður fyrr fyrir margvíslegum framkvæmdum sem tryggði hundruðum eldri borgara góð búsetuúræði. Í því sambandi má nefna uppbyggingu þjónustuíbúða á vegum Reykjavíkurborgar á árunum 1970 til 1994, þar sem byggðar voru mörg hundruð íbúðir í tengslum við þjónustukjarna.  Nú er öldin önnur og hefur t.d. Reykjavíkurborg byggt fáar þjónustuíbúðir í tæp 18 ár og á síðustu árum hefur átt sér stað afar lítil fjölgun á félagslegu leiguhúsnæði fyrir eldri borgara.

 

Mikilvægir áfangar

Það sem einkum hefur átt sér stað í eflingu búsetuúrræða fyrir eldri borgara er bygging öryggis- og þjónustuíbúða Eirar og Hrafnistu og íbúðir á vegum Samtaka aldraðra, þar sem enginn fjárhagslegur stuðningur hefur komið, hvorki frá ríki né borg. Einnig skipti sköpum forysta Reykjavíkurborgar á árum 1983 – 1994 um byggingu uþb. 600 eignaríbúða í tengslum við 8 öfluga félags- og þjónustukjarna í hverfum borgarinnar, sem Reykjavíkurborg byggði og rekur. Bygging sérhannaðra íbúða fyrir eldri borgara á vegum Samtaka aldraðra síðustu fjóra áratugina hefur enn frekar fjölga búsetuúrræðum fyrir eldri borgara, en á þeirra vegum hafa verið byggðar 415 íbúðir. Samtök aldraðra hafa unnið fábært starf á þessum vettvangi og eiga heiður skilinn. Einnig hefur félaga eldri borgarar í Reykjavík staðið að byggingu íbúða fyrir eldri borgara og byggir í dag 50 íbúðir í tengslum við Gerðuberg í Breiðholti. Ríkisvaldið hefur nánast ekkert lagt af mörkum hvað varðar framkvæmdir í búsetuúrræðum fyrir aldraða utan byggingu hjúkrunarheimila. Hjúkrunarheimilin sinna á hinn bóginn eingöngu þeim sem þurfa á fjölþættri heilbrigðisþjónustu að halda, þegar ekki er hægt að tryggja hana í þjónustuíbúðum né í eigin húsnæði. 

Meginmarkmiðið er að eldri borgarar eiga að hafa val um búsetuúrræði og þeir sem vilja og hafa heilsu til geti búið sem lengst í heimahúsi. En þeir sem kjósa önnur búsetuúrræði, m.a. vegna óska um félagslega nærveru, eiga einnig að hafa val. Afskipti ríkis og sveitarfélaga af búsetuúrræðum fyrir eldri borgara eiga fyrst og fremst að miðast við þá eldri borgara sem þurfa liðsinni vegna bágs efnahags og af heilsufarsástæðum.

Hlutverk ríkis, sveitarfélaga og félagasamtaka

Í dag hafa sveitarfélögin dregið verulega úr byggingu þjónustuíbúða og jafnfram nánast ekkert fjölgað félagslegum leiguíbúðum fyrir eldri borgara. Vissulega má finna undantekningar frá þessu en þær eru ekki margar. Ríki og sveitarfélög gætu með ákveðnum aðgerðum auðveldað bæði einstaklingum og félagasamtökum að byggja hagkvæm búsetuúrræði fyrir eldri borgara. Það væri t.d. hægt að gera með stofnstyrkjum vegna bygginga þjónustuíbúða eða sambýla fyrir eldri borgara, viðráðanlegum vaxtakjörum og lægri skattaálögum á húsnæði. Einnig með auknum húsleigubótum fyrir eldri borgara og rýmkun reglna um greiðslu sérstakra húsaleigubóta. 

T.d. er staðan sú í dag, að Reykjavíkurborg greiðir ekki sérstakar húsaleigubætur til viðbótar hefðbundnum húsaleigubótum til þeirra einstaklinga sem leigja í öryggisíbúðum Eirar og sem ekki eru þar í félagslegu húsnæði á vegum borgarinnar. Sama á við um öryggisíbúðir Hrafnistu og leiguhúsnæði á vegum Öryrkjabandalangsins. Hér er eingöngu átt við þá íbúa sem uppfylla þær reglur er gilda um greiðslu slíkra bóta.

Rétt er taka fram að Reykjavíkurborg taldi sig hafa fulla heimild til að setja slíkar reglur en Innanríkisráðuneytið úrskurðaði í nóv. 2010 í framhaldi af kæru Öryrkjabandalagsins, að þessi regla borgarinnar væri brot á jafnræðisreglu og beindi þeim tilmælum til borgarinnar, að allir sem uppfylla skilyrði reglna um að fá sérstakar húsaleigubætur fái þær. Enn hefur Reykjavíkurborg ekki breytt reglunum.

Ef stjórnvöld hafa einlægan vilja til að efla og styrkja margvísleg búsetuúrræði fyrir eldri borgara hvet ég þau til að kalla saman þá aðila, sem hafa reynslu af þessum málum, auk fulltrúa frá Landssambandi eldri borgara og e.t.v. fleiri hagsmunaaðilum. Þar mætti t.d. ræða hver sé stefna ríkis, sveitarfélaga og félagasamtaka og gera tilraun til að svara spurningunni; Hvert stefnir-hver á að gera hvað ? Ef ekki er áhugi fyrir slíku, endurspeglar það í raun það sem ég gat um í upphafi þessarar greinar, þ.e. að áhugi stjórnmálamanna á búsetuúrræðum aldraðra sé lítill.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
stjórnarformaður Eirar og fyrrv. borgarstjóri.