Ekki hefur farið framhjá neinum að árið 2009 verður fjárhagslega mjög erfitt fyrir íslenskt þjóðfélag. Atvinnuleysi eykst hröðum skrefum í hverri viku og fjöldi fyrirtækja hafa lækkað laun starfsfólks eða minnkað starfshlutföll. Öldrunarheimili á Íslandi eru því miður ekkert eyland í þessum þrengingum. Daggjöld frá ríkinu eru nánast eini tekjustofn flestra heimilanna. Daggjöldin hafa sannarlega ekki verið ofgreidd undanfarin ár og hækkun daggjalda á þessu ári er minni hjá mörgum heimilum en kjarasamningsbundin launahækkun síðasta árs og verðhækkanir á aðföngum, svo sem lyfjum og matævælum. Þetta þýðir með öðrum orðum að hafi reksturinn verið erfiður undanfarin ár verður lífið ekki auðveldara árið 2009.
Núverandi daggjöld vegna öldrunarþjónustu endurspegla ekki rekstrarumhverfi á réttlátan hátt (eru of lág) og eru því ávísun á rekstrarvandamál. 60% af upphæð daggjalda ákvarðast af niðurstöðum RAI-mats, en ekki hefur verið skilgreint hvernig 40% ákvarðast þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þar um. Kröfur um gæði þjónustu eru sífellt að aukast en daggjöldin eru ekki að hækka samhliða. Sem dæmi má nefna að nútíma kröfur um aðbúnað aldraðra, sem meðal annars stjórnvöld hafa talað fyrir, byggjast mikið á því að herbergi á öldrunarheimilum eiga stækka og allir eiga að vera í einbýli. Þetta hefur för með sér mikla fækkun heimilismanna og því töluverða minnkun á tekjum til daglegs rekstrar þrátt fyrir að þjónustustig sé að aukast.
Jafnframt má nefna að þeir sem fá gilt vistunarmat inn á öldrunarheimili eru sífellt að verða “þyngri” eða “veikari” sem kallar á aukna mönnun og þar með aukinn kostnað.
Samtök fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu (SFH) eru sífellt að minna stjórnvöld á, að þrátt fyrir ítrekaðar óskir, hefur ennþá ekki verið gengið frá skriflegum þjónustusamningum um rekstur öldrunarstofnana. Endalausar frestanir af hálfu ráðuneytis þrátt fyrir loforð um annað, eru ráðuneytinu ekki sæmandi. Gerð þjónustusamninga er lykilatriði svo hægt sé að skilgreina hvaða þjónustu ríkið er tilbúið að borga fyrir, hvaða þjónustu ríkið ætlast til að öldrunarheimili veiti – og ekki síst hvaða þjónustu ríkið vill ekki borga fyrir.
Á haustdögum var sett á fót ný stofnun, Sjúkratryggingar Íslands, sem meðal annars á að gera þjónustusamninga af þessu tagi. Því miður hefur ekkert heyrst frá þessari stofnun ennþá.
Það er ljóst að með ákvöðrun daggjalda fyrir árið 2009, dugar sú upphæð sem ætluð er mörgum öldrunarheimilum alls ekki lengur til að bjóða upp á alla þá þjónustu sem heimilin hafa lagt metnað sinn í að veita. Vegna þessa munu einhver heimili verða að taka upp beina gjaldtöku meðal heimilismanna fyrir þá þjónstuliði á heimilunum, sem ekki er gert ráð fyrir í daggjöldum. Til þess að umrædd gjaldtaka verði markviss, sanngjörn og lendi sannarlega á þeim þjónstuliðum sem ekki er gert ráð fyrir í núvernandi daggjöldum, er lykilatriði að upplýst verði um nákvæma skiptingu allra þeirra þátta sem mynda daggjöldin.
Hér með óska öldrunarheimili landsins eftir skjótri og markvissri samvinnu við heilbrigðisráðherra við að upplýsa hvaða þjónustuliðir tilheyra í daggjöldum og í framhaldinu beita sér fyrir gerð þjónustusamninga. Þetta er einfalt og sanngjarnt réttlætismál.
Bestu kveðjur,
Pétur Magnússon
Forstjóri Hrafnistuheimilanna
Varaformaður SFH