Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu héldu upp á 10 ára afmælið sitt um daginn. Svo sem ekki í frásögur færandi en er tilefni þessarar greinar. Ég sendi boðskort í tölvupósti til allra alþingismanna í velferðar- og fjárlaganefndum, 18 manns alls og bað um svar hvort þeir kæmu eður ei. Af þessum 18 svöruðu þrír, þau Kristján Þór Júlíusson, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Þuríður Backman. Það tekur um 20 sekúndur að svara og einhverra hluta vegna höfðu þessir þrír þingmenn þessar 20 sekúndur lausar, hinir 15 ekki. Ég geri mér fulla grein fyrir því að þingmenn eru önnum kafnir og hafa í mörg horn að líta en það er dálítið sérstakt að geta ekki gefið sér tíma til að afþakka boð sem þetta. Enginn gerir kröfu um að þeir mæti á alla þá fjölmörgu viðburði sem þeir eru boðnir til.
En segja má að þáttur velferðarráðherra líti enn verr út. Samkvæmt venju þá hringdi ég í ritara ráðherra rúmum tveimur vikum fyrir afmælisboðið og spurði hvort ráðherra væri tilbúinn að mæta í boðið og ávarpa gesti. Tók hún ágætlega í þá beiðni, sagði hann reyndar líklega vera upptekinn úti á landi á þessum tíma en bað mig um að senda tölvupóst sem ég og gerði. Ekkert svar barst. Átta dögum síðar sendi ég annan póst á ritarann og meðfylgjandi voru drög að boðsbréfi þar sem fram kom að velferðarráðherra myndi ávarpa samkomuna og bað um svör varðandi mætingu ráðherrans. Ekkert svar barst. Fimm dögum fyrir afmælið sendi ég svo ritaranum þriðja tölvupóstinn og bað um svar hvort ráðherra kæmist en sagðist jafnframt líta svo á að fengi ég engin svör, liti ég á það sem afsvar ráðherrans. Ekkert svar barst.
Þetta finnst mér vera frekar dónalegt, það er að svara alls ekki. Ég hef fullan skilning á því að velferðarráðherra sé mjög upptekinn maður og komist ekki í þetta tiltölulega léttvæga afmæli en ég skil illa, að maður sem hefur mannskap í vinnu við að svara erindum sem þessum og aðstoða hann við skipulagningu síns tíma, skuli ekki sjá sér fært að svara svona boði. Nú er ekki svo að skilja, að við sem vorum í afmælinu höfum saknað þeirra sem ekki svöruðu og ekki komu í boðið. Það fór vel fram og allir skemmtu sér mjög vel. En það er engin furða að virðing almennings fyrir alþingi skuli vera nálægt núlli. Enginn þingmaður né fulltrúi frá velferðarráðuneytinu mætti í afmælið.
En svar við boði í afmæli er langt því frá eina tilvikið sem ekki hefur borist svar um frá velferðarráðuneytinu. Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu og aðildarfélög þeirra eiga talsvert mörg ósvöruð erindi hjá ráðuneytinu, sem eru væntanlega einhvers staðar á borðum ráðuneytisins þrátt fyrir skýr ákvæði um skyldur opinberra aðila að svara slíkum erindum innan vissra tímamarka.
Afi minn heitinn, Gísli Sigurbjörnsson forstjóri Grundar í sex áratugi, sagði við mig þegar ég hóf störf í Ási fyrir rúmum tveimur áratugum:
„Gísli Páll minn, ef að smáatriðin hjá þeim eru ekki í lagi, þá er alveg bókað að þau sem stærri eru, séu það ekki heldur.“
Mér sýnist þetta máltæki hans eiga ágætlega við í þessu efni.
Höfundur er formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu
Úrdráttur: En það er engin furða að virðing almennings fyrir alþingi skuli vera nálægt núlli.