Grein undirritaðs sem birtist í Morgunblaðinu sl. laugardag virðist hafa hreyft við velferðarráðherra og er það vel. Í greininni vakti ég athygli á að hár lyfjakostnaður einstaklinga sem væntanlegir eru á hjúkrunarheimili valdi því að þeir eigi síður möguleika á að komast inn en aðrir. Þessi staðreynd hefur verið rædd innan Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu (SFH) og marg oft verið rætt við fulltrúa velferðarráðuneytis og áður heilbrigðisráðuneytis undanfarin ár. Fulltrúar samtakanna og velferðarráðuneytis áttu fund 13. maí í fyrra þar sem farið var yfir stöðu mála og mögulegar leiðir til úrbóta. Þá var samþykkt að leggja fyrir ráðherra minnisblað og möguleika til lausnar.
Frumkvæði kom frá Sjúkratryggingastofnun Íslands sl. haust um að leysa þetta mál og eftir viðræður SFH við SÍ var send tillaga að lausn til skoðunar í velferðarráðuneytinu í desember sl. Tillögu að lausn var hafnað og í svarbréfi ráðuneytisins til SÍ segir: „Ráðuneytið tekur undir með Sjúkratryggingum að þessi sértæki lyfjakostnaður geti valdið brotalömum í þjónustu og jafnvel leitt til þess að sjúklingar sem séu á umræddum lyfjum sé síður teknir inn á heimilin. Eðli máls samkvæmt eru hjúkrunarheimili, sérstaklega þau minni, treg að taka við slíkum sjúklingum.“ Þarna viðurkennir ráðuneytið að vandamálið sé fyrir hendi og það sé í raun skiljanlegt að heimilin grípi til þess neyðarráðs að taka slíka einstaklinga síður inn á heimilin. Flest heimili innan SFH eru með færri heimilismenn en 100 og mörg hver eru með 20 – 40 heimilismenn og í þeim tilvikum skiptir hver einstaklingur sem notar mjög dýr lyf miklu máli varðandi rekstrarafkomu heimilisins.
Athygli vekur í fréttinni að ráðherra talar tvisvar um 4 – 500 manna hjúkrunarheimili hér á landi. Staðreyndin er sú að það er ekkert hjúkrunarheimili á Íslandi með yfir 400 manns í heimili, hvað þá 500. Stærsta heimilið er Hrafnista í Laugarási með 250 heimilismenn, Hrafnista í Hafnarfirði með 220 og þá Grund með tæplega 200. Önnur með talsvert færri heimilismenn. Að mínu mati er það mjög alvarlegt að ráðherra fari vísvitandi með rangt mál eða hann viti hreinlega ekki hversu stór hjúkrunarheimili landsins eru.
Eitt hjúkrunarheimili á Íslandi hefur sérstöðu með þessi lyfjamál en það er Sóltún sem tók til starfa árið 2002. Í samningi Sóltúns við ráðuneytið (þá heilbrigðisráðuneyti) er ákvæði á þann veg að „ef lyfjakostnaður einstaklings fer yfir eðlileg frávik frá meðaltali tekur verkkaupi (ráðuneytið) þátt í greiðslu heildsöluverðs fyrir viðurkennd lyf sem hafa fengið markaðsleyfi hér á landi eða heilbrigðisyfirvöld hafa heimilað notkun á.“ Þessi grein samningsins auðveldar Sóltúni að taka inn einstaklinga á dýrum lyfjum og hafa stjórnendur í öldrunarþjónustu allt frá árinu 2002 beðið velferðarráðuneytið og áður heilbrigðisráðuneytið um að fá samskonar meðferð vegna mjög dýrra lyfja en ekki fengið. Tíð skipti ráðherra heilbrigðis- og velferðarmála undanfarinn áratug veldur því að einstaka ráðherra geta auðvitað ekki vitað um allt sem er í gangi í ráðuneytinu.
Það er endalaust hægt að rökræða með hvaða hætti þessi mál hafa verið í gegnum tíðina og hvernig og hverjir hafi reynt að leysa þau. Aðal atriðið er að þau verði leyst með sómasamlegum hætti sem allra fyrst, þeim sem nota þessi dýru lyf til hjálpar. Ef sú lausn kostar það að vera kallaður siðleysingi og óhæfur stjórnandi af velferðarráðherra, þá er það alveg þess virði.
Gísli Páll Pálsson er forstjóri og formaður Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu