Fréttir og tilkynningar

Framtíðarsýn – hugleiðingar

IMG_8558

Hækkandi lífaldur > fleiri og flóknari sjúkdómar > líkn > samsetning mannafla á hjúkrunarheimilum

Þjóðin eldist og hún eldist hratt, þar af leiðir að æ fleiri hafa lært að lifa með sjúkdómum um langt skeið. Almennt betri heilsa á efri árum og aukin þjónusta heim hefur gert það að verkum að fólk er orðið bæði eldra og veikara er það kemur til dvalar síðustu misserin á hjúkrunarheimili. Vandamálin eru þá stærri , flóknari og fleiri sem krefst aukinnar þekkingar starfsmanna. Íbúarnir eru einnig verr á sig komnir bæði líkamlega og andlega þannig að þeir þurfa oftar aðstoðar tveggja eða jafnvel fleiri starfsmanna við flestar athafir daglegs lífs. Þannig virðist framtíðin ætla að verða sú að á hjúkrunarheimilum, þar sem hingað til hefur búið blandaður hópur hvað andlega og líkamlega færni varðar, verða mjög þungar hjúkrunar- og umönnunardeildar eða nánast líknardeildar. Mörg dæmi eru hreinlega um að verið sé að útskrifa íbúa til dvalar á hjúkrunarheimili frá líknardeildnni á Landakoti, enda veit enginn hvenær kallið kemur og það að fara á hjúkrunarheimili er miklum mun betra fyrir einstaklinginn og fjölskyldu hans en að vera á sjúkrastofu svo kannski mánuðum skipti. Þetta kallar á þörf fyrir aukinn og færari mannafla. Þar sem ég starfa hefur fækkað íbúum vegna þess að tvíbýli voru lögð niður. Við þessa fækkun hefur einnig fækkað starfsfólki en það hefur verið í ófaglærða hópnum, þannig að hlutfall faglærðra starfsmanna þ.e. hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og félagsliða hefur aukist og nú er 47% starfsmanna við umönnun í þessum stéttum. Nú veit ég ekki hvernig þetta er á öðrum heimilum en tel ljóst að þetta hlutfall þurfi að hækka enn frekar í ljósi þessarar þróunar. Við útreikning á hjúkrunarklukkustundum kemur í ljós að í september 2007 voru þær 4,6 á hvern íbúa en nú í mars 2011 eru þær orðnar 6,1 klukkustund á hvern íbúa á sólarhring. Með breytingum á vistunarmatskerfinu verður því kannski nauðsynlegt að ábendingar Landlæknisembættisins frá 2001 um mönnun á hjúkrunarheimilum, þar sem eingöngu er miðað við hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða við umönnun verði að fara að líta dagsins ljós ?

Á síðustu árum hafa stjórnendur verið að hverfa frá „mini sjúkrahúsmódelum“ til þess að skapa heimilislegt umhverfi og andrúmsloft. Við verðum fyrir alla muni að reyna að halda okkur við það þó skjólstæðingar okkar verði veikari. Við ætlum okkur að starfa á heimilum íbúanna, þeir eru ekki komnir á hjúkrunar-heimilið til að eiga heima á vinnustaðnum okkar.

Við verðum í auknum mæli að reyna að líta fram hjá hömlunum og sjúkdómum og einblína frekar á hvað getur einstaklingurinn og hvernig getur hann sem best notið lífsins, bæði einn og sér og í samneyti við aðra og haldið áfram að vera styrkur innan fjölskyldu sinnar og skapa henni grundvöll til samveru. Húsnæði hefur verið breytt, einkarými eru stærri, þar er aðstaða til að taka á móti gestum, hella upp á kaffi og njóta samveru rétt eins og væri heima í eldhúsi að kryfja heimsmálin og oftar en ekki leysa vandamál sem uppi eru á hverjum tíma.

Öll hafa hjúkrunarheimilin í mörg ár verið að byggja upp aðstöðu til að auka möguleika til afþreyingar og þjálfunar af ýmsu tagi fyrir íbúa sína. Í dag er það samt oftar að íbúar eru orðnir of lasburða til að geta notið þess nema hafa nánast manninn með sér við astoð og eftirlit.

Vaktherbergi hafa víða verið lögð af og sameiginlegar borð- og setustofur íbúa og starfsmanna eru til þess að auka þetta daglega áreiti og örvun frá umhverfinu, bara eins og að heyra í uppþvottavélinni, heyra og sjá að verið er að leggja á borð, taka af borðum, skola leirtau, fletta dagblöðum, hlusta á útvarp, horfa á sjónvarp, hræra í og steikja vöfflur og fleira og fleira.

Af framantöldu má sjá að þjónusta við aldraða inni á hjúkrunarheimilum mun þurfa meira fjármagn til að takast á við flóknari og erfiðari verkefni í framtíðinni. Hlutfall fagaðila þarf að aukast, dýrari búnað eins og sjúkralyftur þarf í auknu mæli, til að koma í veg fyrir of mikið álag á stoðkerfi starfsmanna, loftdýnur í rúm til að fyrirbyggja fylgikvilla rúmlegu og þannig mætti lengi telja.

Bjarta framtíð!

 

Margrét Árdís Ósvaldsdóttir

Seljahlíð heimili aldraðra