Á hjúkrunarheimilum landsins dvelja rúmlega 2.300 manns. Þar fá heimilismenn alla þá þjónustu, aðstoð og umönnun sem hver og einn þarfnast. Fyrir þessa þjónustu greiðir Tryggingastofnun ríkisins daggjöld sem velferðarráðherra ákveður einhliða. Þau nema í ár um 22.000 krónum á sólarhring fyrir hvern heimilismann. Samkvæmt lögum þá ber heimilismönnum að greiða hluta af þessum dvalarkostnaði og sér Tryggingastofun ríkisins um að reikna út hversu mikið hverjum og einum ber að greiða. En TR innheimtir þetta ekki, heldur sendir hverju hjúkrunarheimili upplýsingar um hvað viðkomandi heimili þarf að innheimta hjá hverjum og einum heimilismanni. Það er síðan á ábyrgð stjórnenda heimilisins að ná að innheimta þessa kostnaðarhlutdeild hvers heimilismanns. Heimilismaðurinn hefur ekkert með það að segja hvaða fjárhæð honum beri að greiða né hvaða þjónustu hann fær fyrir það sem hann greiðir fyrir. TR lækkar síðan framlagið/daggjaldið til hjúkrunarheimilisins um samsvarandi upphæð þannig að heildartekjur þess eru þær sömu, fyrir alla heimilismenn. Nái heimilið ekki að innheimta hlutdeild heimilismannsins ber það tjónið og TR vísar allri ábyrgð á þessari innheimtu til hjúkrunarheimilanna.
Heimilismaður settur í gjaldþrot
Ég veit þess dæmi að eitt heimili á höfuðborgarsvæðinu hefur reynt að innheimta þessa kostnaðarhlutdeild hjá heimilismanni sem er fæddur 1943. Samkvæmt upplýsingum frá TR bar honum að greiða 1,3 milljónir króna vegna ársins 2010 og svo 311.741 krónu á mánuði á yfirstandandi ári eða samtals 3,7 milljónir í ár. Þessi heimilismaður hefur aldrei greitt krónu af þessum kröfum og hefur hjúkrunarheimilið falið innheimtufyrirtæki að innheimta þessa skuld. Staða málsins nú er að búið er að fara fram á gjaldþrotaskiptameðferð heimilismannsins og verður sú beiðni tekin fyrir fljótlega í héraðsdómi Reykjavíkur. Beiðni um gjaldþrot er nauðsynleg til þess að ganga úr skugga um hvort heimilismaðurinn geti greitt þessa kostnaðarhlutdeild. Verði niðurstaðan sú að viðkomandi heimilismaður verður úrskurðaður gjaldþrota þá tapar þetta hjúkrunarheimili rúmlega fimm milljónum króna og fær það tap hvergi bætt. Þetta hljómar ótrúlega en er engu að síður blákaldur veruleiki. Þar að auki er það nú heldur nöturlegt að sá aðili sem hjúkrar og sinnir velferð heimilismannsins skuli einnig vera settur í þá ömurlegu aðstöðu að þurfa að gera skjólstæðing sinn gjaldþrota. Síðan er það auðvitað álitamál hvort og þá hversu mikinn hluta dvalarkostnaðar heimilismenn hjúkrunarheimila eiga að greiða. En það er pólitík og bíður sú umræða seinni tíma.
Orð og efndir
Á haustþingi 2007 fór fram umræða um fyrirhugaða sameiningu félags- og tryggingamálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis. Þar sagði Jóhanna Sigurðardóttir þáverandi félagsmálaráðherra: „Ég mun láta skoða hvort ekki sé rétt að endurmeta greiðslufyrirkomulag þeirra sem dveljast á hvers kyns þjónustustofnunum aldraðra þannig að horfið verði frá fyrirkomulagi svokallaðra vasapeninga yfir í eðlilegt greiðslufyrirkomulag. Mér hafa borist fréttir af því að þar sé víða pottur brotinn og þetta vil ég skoða sérstaklega. Við hljótum að geta endurmetið á hverjum tíma hvort endilega eigi að halda í úrelt fyrirkomulag sem fólkið sjálft er ósátt við. Ég á einkum við að gerðar verði ráðstafanir þannig að lífeyrisþegar sem kjósa að búa á stofnun haldi í meira mæli fjárhagslegu sjálfstæði sínu.“ Ég eftirlæt lesendum Morgunblaðsins að meta í ljósi ofangreinds hvort þáverandi félagsmálaráðherra og núverandi forsætisráðherra hafi staðið við það sem hún sagði haustið 2007.
Gísli Páll Pállson, forstjóri og formaður Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu