Neðangreind grein eftir formann og varaformann SFV birtist í Morgunblaðinu 5.1.2017:
Nýr rammsamningur skýrir hlutverk og skyldur öldrunarstofnana
Nýlega var gefinn út fyrsti heildstæði rammasamninginn sem kveður á um þá þjónustu sem hjúkrunar- og dvalarheimili landsins eiga að veita, samkvæmt samkomulagi Sjúkratrygginga Íslands, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) þar um. Hingað til hafa flest hjúkrunarheimili verið rekin fyrir daggjöld sem ríkið hefur lagt til án samninga, í mörgum tilfellum áratugum saman og í engu samræmi við þá verðlagsþróun sem verið hefur á hverjum tíma. Samningurinn markar því ákveðin tímamót fyrir bæði þá sem veita þjónustuna og ekki síður notendur þjónustunnar. Með samningnum er ætlunin að styrkja grunnstoðir þjónustu hjúkrunarheimila með það að markmiði að tryggja íbúum einstaklingsmiðaða, heildræna og örugga þjónustu. Einnig er samningnum ætlað að auka gegnsæi og samræmi í greiðslum fyrir veitta þjónustu.
Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu eru hagsmunasamtök sjálfstætt starfandi aðila sem ekki eru í eigu ríkisins og starfa á heilbrigðissviði samkvæmt þjónustusamningum eða öðrum tengdum opinberum greiðslum, til dæmis daggjöldum. Innan SFV eru nærri fimmtíu aðilar; fyrirtæki, félagasamtök og sjálfseignarstofnanir, þar á meðal langflest hjúkrunarheimili landsins. Opinberar greiðslur til aðila í SFV nema um 20% af heildarútgjöldum ríkisins til heilbrigðismála á ári. Umfangið varpar því ekki síst ljósi á mikilvægi þeirrar velferðarþjónustu sem hinir sjálfstætt starfandi aðilar í SFV veita innan íslenska heilbrigðiskerfisins, enda er nýi samningurinn sem undirritaður hefur verið sá stærsti sem Sjúkratryggingar Íslands hafa gert. Aðild að samningnum eiga hjúkrunarheimili um land allt sem hafa yfir að ráða um 2.500 hjúkrunar- og dvalarrýmum.
Samkvæmt samningnum munu árlegar greiðslur úr ríkissjóði nema tæplega 30 milljörðum króna á ári. Að mati SFV hefur ríkisvaldinu alla tíð borið rík skylda til að gera skýran samning um þá þjónustu sem aðilum í SVF hefur verið gert að veita fyrir hönd hins opinbera enda verið að ráðstafa fé úr vösum almennings. Það er því fagnaðarefni að hinn nýi samningur skuli nú loks hafa tekið gildi.
Enda þótt mörg áherslumála hjúkrunarheimilanna hafi ekki náð fram að ganga telja SVF að áfangasigur hafi náðst á ýmsum sviðum sem réttlætt hafi gerð samningsins að þessu sinni. Í viðræðunum var mikið rætt um mönnun á hjúkrunarheimilum og hvaða viðmið skyldi leggja til grundvallar í þeim efnum. Skjal sem ber heitið „Viðmið um mönnun á hjúkrunarheimilum skilgreind“ sem gefið er út af Landlæknisembættinu, var fyrirferðarmikið í samræðum aðila, hvaða þýðingu viðmiðin þar hefðu í raun og hvaða skyldur þau leggðu á hjúkrunarheimilin. Ástæða umræðunnar var auðvitað sú staðreynd að fjármagnið sem ríkið greiðir í dag og hefur greitt í gegnum tíðina dugir engan veginn til að uppfylla þær skyldur sem viðmið landlæknis gera til þjónustu hjúkrunarheimilanna. Í stuttu máli má segja að fulltrúar ríkisvaldsins hafi ekki verið tilbúnir til að greiða hjúkrunarheimilunum þá upphæð sem dugir til að uppfylla kröfurnar og er það mjög miður. Það er þó einlæg ósk SFV að úr þessu verði bætt sem allra fyrst.
Sé litið til jákvæðustu hliða samningsins má nefna að svokölluð kröfulýsing er lykilatriði samningsins. Hún er í raun skjal með upptalningu á lágmarkskröfum sem hið opinbera gerir til þess aðila sem tekur að sér rekstur þjónustunnar og um þá þjónustu sem veita skal. Kröfulýsingunum sem slíkum ber mjög að fagna enda mikilvægt að öll þjónusta sé vel skilgreind. Kröfulýsingarnar auka gegnsæi og tryggja sem kostur er að helstu hagsmunaðilar, ekki síst notendur þjónustunnar og aðstandendur þeirra, starfsfólk og rekstraraðilar, átti sig betur á hvaða þjónustu nákvæmlega er verið að gera kröfu um, en ekki síður hvaða þjónustu ekki er farið fram á.
Kröfulýsingar er oftast hægt að kostnaðargreina og með þeim má meðal annars gera greinarmun á draumsýnum (til dæmis stjórnmálamanna) og raunhæfum væntingum með hliðsjón af því fjármagni sem ríkisvaldið er tilbúið til að setja í málaflokkinn. Rekstaraðilar heilbrigðisþjónustu sitja stundum undir því ámæli að þykja lítt hæfir til verka þegar þeir eru einmitt að fara að lögum, reglugerðum og kjarasamningum sem gera að verkum að ómögulegt er að standast ætlaðar fjárheimildir. Auðvitað á að gera ríkar kröfur til rekstraraðila í heilbrigðisþjónustu um hagkvæmni, skýra áætlunargerð og markvissa eftirfylgni eins og í öllum öðrum ábyrgum rekstri. Það verður því að liggja fyrir í upphafi að úthlutað fjármagn dugi fyrir þeirri þjónustu sem ríkið vill kaupa með þeim réttindum og skyldum sem því kunna að fylgja. Það er í allra þágu. Von okkar hjá Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu er því að hinn nýi rammasamningur um starfsemi dvalar- og hjúkrunarheimila og kröfulýsingin sem honum fylgir, verði öldruðum og öldrunarþjónustu til hagsbóta í samfélagi okkar til framtíðar.
Pétur Magnússon og Björn Bjarki Þorsteinsson.
Höfundar eru formaður og varaformaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu.