Breytingar hafa verið gerðar meðal lykilstjórnanda hjá Sóltúni heilbrigðisþjónustu ehf.
Sóltún heilbrigðisþjónusta rekur Sóltún hjúkrunarheimili, Sólvang hjúkrunarheimili, Sóltún Heima, Sóltún Heilsusetur og Sólstöður. Dótturfélög Sóltúns heilbrigðisþjónustu eru Öldungur hf. og Sóltún öldrunarþjónusta ehf.
Anna Birna Jensdóttir, sem hefur verið framkvæmdastjóri Öldungs í 20 ár, lætur nú af störfum sem framkvæmdastjóri en tekur við sem starfandi stjórnarformaður Sóltúns heilbrigðisþjónustu. Halla Thoroddsen var áður framkvæmdastjóri Sóltúns öldrunarþjónustu sem rekur Sólvang hjúkrunarheimili, Sóltún Heima og Sóltún Heilsusetur á Sólvangi en mun nú gegna stöðu forstjóra Sóltúns heilbrigðisþjónustu.
Nánari umfjöllun um breytingarnar hjá Sóltúni heilbrigðisþjónustu má finna í fréttatilkynningu félaganna sem var m.a. birt á heimasíðu Sólvangs og Sóltúns.
Þess má einnig geta að Anna Birna Jensdóttir sat í stjórn Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu í sex ár en lét af störfum fyrir samtökin í apríl 2021. Sama ár var Halla Thoroddsen kjörin í stjórn samtakanna og hlaut endurkjör í ár.
SFV óska þeim báðum velfarnaðar í nýjum stöðum.
Samtökin vekja jafnframt athygli á áhugaverðu og skemmtilegu viðtali við Önnu Birnu sem birt var í Sunnudagsmogganum 11. september sl. en viðtalið má m.a. nálgast á heimasíðu Sóltúns og Sólvangs.