Fréttir og tilkynningar

Hér og þar

m4

Fyrir um 25 árum var ég staddur í almenningsgarði í bandaríkjunum með fjölskyldu minni þegar ungur maður sem sagðist vera frá Kóreu vatt sér að mér og lýsti því yfir með stolti að hann ætti von á ömmu sinni til sín frá Kóreu því hann ætlaði að sjá um hana í ellinni, hún væri orðin lasburða og hún myndi búa hjá honum, ekki fara á heimili fyrir aldraða. Menningin hjá okkur, sagði sá kóreanski, er allt öðru vísi en hér í bandaríkjunum, þar hugsum við um foreldra okkar, en sendum þau ekki á heimili, þegar þau geta ekki lengur séð fyrir sér. Ég þekkti þennan mann ekkert og veit ekki af hverju hann fann svona mikla þörf á að segja mér frá þessu, nema kannski af því að tengdamamma var með okkur í ferð, en þessi orð hans hafa setið í mér síðan.

Þetta atvik rifjaðist upp fyrir mér fyrir nokkrum dögum þar sem ég var staddur í Tanzaníu í Afríku. Ég var spurður að því við hvað ég starfaði heima á Íslandi og ég átti í mesta basli með að útskýra fyrir innfæddum á hvernig vinnustað ég ynni og að til væru sérstök heimili fyrir gamalt fólk sem ekki gæti lengur verið heima hjá sér. Það var ekki fyrr en ég mundi eftir því að meðalævilengd fólks í þessu Afríkuríki er aðeins 59 ár að ég áttaði mig á því hvers vegna þeir skyldu þetta ekki. Þegar ég sagði þeim svo að þetta væru nokkurskonar sjúkrahús, en að þar væri nær eingöngu gamalt sjúkt fólk, að það kviknaði ljós hjá þeim, en þeim fannst þetta samt mjög undarlegt.

Menningarheimar þessara landa eru vissulega frábrugðnir þeim sem við Íslendingar lifum í. Þó er ekki svo ýkja langt síðan sömu venjur og eru í mörgum Asíu og Afríkuríkjum voru við lýði hjá okkur. En við þróuðum okkar þjónustu í átt að því fyrirkomulagi sem vestrænar þjóðir höfðu tekið upp. Miklar breytingar hafa orðið á síðustu 30 til 40 árum þar sem heimili ætluð öldruðum hafa risið víða um land, heimili sem hafa þá tekið mið af aðstæðum á hverjum tíma og hverjum stað. Þrátt fyrir að við höfum þróað fyrirkomulag öldrunarþjónustu í svipaða átt og önnur vestræn ríki með svipaða menningu og okkar eigum við samt langt í land með að ná þeim þjóðum sem við viljum miða okkur við. Til dæmis eru mannréttindi aldraðra sem búa á öldrunarstofnunum ennþá brotin með því að svipta þá forræði yfir ellilífeyri sínum og þeir sem hafa tekjur umfram ákveðna upphæð er gert að greiða hluta þeirra til ríkisins. Aldraðir sem hafa eingöngu ellilífeyri sem einu tekjur eru gerðir að ölmusumönnum sem sækja um vasapeninga fyrir nauðsynlegum persónulegum þörfum. Og því miður þurfa alltof margir aldraðir á öldrunarheimilum enn að deila herbergi með öðrum eða búa í litlum skonsum. Vonandi gera stjórnvöld eitthvað til að hægt verði að breyta þessu sem fyrst.

Við höfum ákveðið að allir eigi að búa sjálfstæðri búsetu og með reisn til æviloka og þurfa ekki að vera uppá aðra komnir nema brýna nauðsyn beri til. Til að framfylgja þeirri stefnu dugar ekkert hálfkák, að sumir geti búið við þau réttindi, en aðrir ekki. Við þurfum að fara alla leið og lagfæra það sem enn er í ólagi, fljótt, svo við getum verið stolt af þjónustu okkar við aldrað fólk.

Jóhann Árnason,
Framkvæmdastjóri Sunnuhlíðar