Fréttir og tilkynningar

Hjúkrunarheimilin komu til bjargar

Alls þurftu 26 einstaklingar að fá pláss annars staðar

„Innan okkar aðildarfélaga fóru 26 einstaklingar í mismunandi úrræði á hjúkrunarheimilum,“ segir Sigurjón Norberg Kjærnested, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, spurður að því hvað hafi orðið um þá einstaklinga sem bjuggu á hjúkrunarheimilinu í Grindavík, sem og þá sem þurftu á heimahjúkrun að halda, eftir rýminguna 10. nóvember.

„Stærsti hlutinn voru einstaklingar frá hjúkrunarheimilinu Víðihlíð og svo einstaklingar sem voru í öðrum úrræðum, eins og til dæmis dagdvöl,“ segir hann.

Allir boðnir og búnir

Alls tóku 11 hjúkrunarheimili vítt og breitt um landið á móti þessum einstaklingum og segir Sigurjón að strax á laugardeginum eftir rýmingu hafi farið af stað einstaklega gott samstarf á milli almannavarna, heilbrigðisráðuneytisins, Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu og hjúkrunarheimilanna. „Við unnum saman að því að finna bestu úrræðin fyrir þessa einstaklinga en forgangurinn var að finna úrræði fyrir fólkið frá Víðihlíð. Á næstu dögum á eftir var svo unnið í því að finna úrræði fyrir fólk sem var í öðrum úrræðum.“

Segir hann þakkarvert hversu vel allir brugðust við. „Þetta var um helgi og þeir sem voru ekki þegar á vinnustaðnum ruku af stað til að skoða hvar hægt væri að bæta við rýmum, hvernig hægt væri að hjálpa og taka við fólkinu. Öll hjúkrunarheimili sem til var leitað brugðust ótrúlega fallega við.“

Útbjuggu nýtt hjúkrunarrými

Alls fóru 7 einstaklingar frá Víðihlíð á Grund og segir Karl Óttar Einarsson, forstjóri Grundarheimilanna, að einungis hafi tekið þrjár klukkustundir að útbúa nýtt hjúkrunarrými.

„Við áttum rými uppi á lofti sem er ekki nýtt undir hjúkrunarrými heldur var svona stoðrými undir iðjuþjálfun og félagsstarf. Þar útbjuggum við bara í stórum sal 7 rúma einingu. Þetta tók um þrjá tíma en þessir einstaklingar voru komnir til okkar upp úr klukkan 19 á laugardeginum.“

Segir Karl að þegar hafi einn einstaklingur af þessum sjö farið í varanlegt rými á Hellu en hinir sex bíði eftir öðru heimili. Þá hafi þessi neyðarráðstöfun ekki haft áhrif á biðlistana eða daglegan rekstur hjúkrunarheimilanna þótt auðvitað hafi þurft að kalla til aukamannskap. „Þetta er í raun sér eining og alveg aðskilið.“

Grein þessi birtist í morgunblaðinu 1. desember 2023 – skrifuð af Önnu Rún Frímannsdóttur.