Sakleysisleg yfirskrift en undanfarin ár hef ég leitað svara við því hvert hlutverk þessara stjórna sé, án árangurs. Á þeirri stofnun sem ég starfa við, er stjórn sem valin er svokölluðu pólitísku vali. Það þýðir að þeir flokkar sem hafa betur í sveitastjórnarkosningum (oftast) á fjögurra ára fresti, eiga flesta menn í stjórn og/eða formann stjórnarinnar. Svona hefur þetta verið á mörgum öldrunarstofnunum á Íslandi svo áratugum skiptir og ég hef ekki séð neinn gera athugasemdir við það fyrirkomulag.
Hvert er hlutverk þessara stjórna? Veit það einhver? Ég hef leitað að einhverju sem skrifað er svart á hvítu þar sem fram kemur hvert hlutverk þeirra sé, og til að gera langa sögu stutta hef ég ekkert fundið. Mér finnst það dálítið merkilegt og jafnframt þykir mér það styðja það álit mitt að stjórnir þessara stofnana séu óþarfar meðan þær eru mannaðar á þennan hátt! Djúpt í árinni tekið? Kannski, en rekstur öldrunarstofnana er erfiður á Íslandi og því væri gott ef stofnanirnar væru lausar við þann kostnað sem fylgir því að hafa stjórnir mannaðar misvitrum stjórnmálamönnum og -konum sem mörg hver hafa hagsmunapot að leiðarljósi í sinni vinnu. Það er ekki víst að allir séu sammála því, en ég er sannfærð um það, að ef stjórnir þessara stofnana væru mannaðar fagfólki, t.d. læknum, hjúkrunarfræðingum, félagsráðgjöfum, iðjuþjálfum, viðskiptafræðingum eða lögfræðingum, þá væru þær bæði virkari og gerðu meira gagn.
Þegar fólk tekur að sér að vera í stjórn, gerir það það væntanlega í ákveðnum tilgangi, ekki satt? En hver er þessi tilgangur? Jú, vonandi er hann sá að þetta fólk vilji láta gott af sér leiða. En fyrir hverja? Ég get bara svarað þessari spurningu fyrir mig og það er mín tilfinning að það sé ekki tilgangur allra stjórnarmanna og/eða stjórnarkvenna að vinna að bættum hag aldraðra Íslendinga.
Mig langar að nota þetta tækifæri til þess að leggja til að framvegis verði stjórnarfólk í stjórnum öldrunarstofnana á Íslandi að hafa menntun og/eða reynslu, sem nýtist þeim í stjórnarstarfi. Það væri líka gott ef áhugi á starfsemi stofnunarinnar væri fyrir hendi. Að lokum óska ég eftir upplýsingum um það hvert sé hlutverk þessara stjórna……..einhver?
Með bestu kveðju og óskum um gleðilegt sumar………
Soffía Anna Steinarsdóttir
Hvammi Húsavík