Fréttir og tilkynningar

Hvar er „Þráinn“ öldrunarmálanna?

peturmynd_02

Í lok sumars ár hvert eru fjárlög ríkisins fyrir komandi ár vinsælt umræðuefni. Þar sýnist auðvitað sitt hverjum en síðustu ár hafa flestir reynt að berjast með kjafti og klóm til að lenda sem minnst undir hinum margfræga niðurskurðarhníf.

Nýlega lýsti Þráinn Bertelsson alþingismaður yfir afdráttarlausri skoðun sinni á fjárframlagi ríkisins til Kvikmyndaskóla Íslands í komandi fjárlögum. Skoðun hans á mikilvægi skólans er mjög einföld og skýr. Hann mun ekki styðja komandi fjárlög nema Kvikmyndaskólanum verði tryggt rekstrarfjármagn. Ástæður þessa eru vafalaust mikilvægi skólans fyrir íslenskt samfélag, ekki síst nú síðustu misserin þegar flestir berjast gríðarlegri baráttu við að láta starfsemi og rekstur ganga upp.

Þessa dagana erum við sem rekum öldrunarþjónustu landsins að velta fyrir okkur hvernig endar geti náð saman næsta rekstrarár. Allir sem tengjast öldrunarþjónustu eru sammála um að niðurskurður enn eitt árið sé ekki boðlegur, þó við óttumst að þurfa enn að herða sultarólina. Sérstaklega er þetta furðuleg þróun í ljósi þess að skýr stefna stjórnvalda síðustu ár er að þeir sem búa á öldrunarheimilum þurfa flóknari og aukna þjónustu, auk þess sem samfélagið gerir sífellt auknar kröfur um einstaklingsmiðuð úrræði og enn betri aðbúnað.

Ekki ætla ég hér að draga úr mikilvægi Kvikmyndaskólans fyrir íslenskt þjóðfélag en auglýsi hér með eftir einhverjum „Þráni“ fyrir öldrunarþjónustuna. Er einhver þingmaður tilbúin að berjast í þágu öldrunarþjónustunnar? Eða kannski eru öldrunarmálin bara ekki nógu mikilvæg fyrir framtíð þjóðarinnar?

Pétur Magnússon
Forstjóri Hrafnistuheimilanna