Fréttir og tilkynningar

Jóla- og baráttukveðja

gislipall

 Nú á aðventunni er í mörg horn að líta hjá þeim sem veita heilbrigðisþjónustu hér á landi. Niðurskurður og sparnaður er það sem helst er rætt um, því miður. Fyrir okkur sem vinnum í heilbrigðiskerfinu þá er þessi umræða auðvitað ekki skemmtileg en eitthvað sem við komumst ekki hjá að horfast í augu við. Vegna efnahagshrunsins þá reynist nauðsynlegt að draga ríkisútgjöldin verulega saman og þá er heilbrigðisþjónustan því miður ekki undanskilin. Þess ber þó að geta að niðurskurður í öðrum opinberum rekstri hefur verið talsvert meiri en í heilbrigðiskerfinu, en sú staðreynd kemur okkur ekki til hjálpar þegar við þurfum að velja hvaða þjónustu við aldraða og aðra skjólstæðinga okkar við þurfum að skera af. Við megum ekki gleyma því að þeir sem reka dvalar- og hjúkrunarheimili geta ekki sagt upp starfsfólki og lokað einstaka deildum til þess að lækka rekstrarkostnað, eins og margar aðrar heilbrigðisstofnanir geta og má þar meðal annars nefna Landspítala háskólasjúkrahús. Hjá einni stofnun innan SFH, Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði, er reyndar boðaður 18,5 % niðurskurður fjárframlaga og er sú ákvörðun að mínu mati afar vanhugsuð. Læknis- og endurhæfingameðferð sem HNLFÍ býður upp er ein sú kostnaðarminnsta og hagvæmasta sem völ er á hérlendis og að minnka framboð slíkrar þjónustu leiðir óhjákvæmilega til aukins kostnaðar á einhverjum öðrum stað í heilbrigðiskerfinu og þar af leiðandi verður væntur sparnaður ekki að veruleika. Við erum of oft að spara aurinn og henda krónunni.

Nú þegar rúmir 20 dagar eru til áramóta er ekki vitað hver verða daggjöld öldrunarstofnana fyrir árið 2011. Búið var að boða fimm prósent niðurskurð þeirra sem er töluvert. Nú liggur í loftinu enn meiri niðurskurður ef marka má fréttir dagsins (7.des) en á mbl.is var fullyrt að framlög til öldrunarmála yrðu skorin meira niður en áður var boðað. Ef satt reynist þá er illt í efni. Það er einfaldlega ekki hægt að reka öldrunarheimilin með lægri fjárhæðum en ráð var fyrir gert í upphaflegu frumvarpi. Verði af þessum enn hærri niðurskurði en boðaður var, þá þarf líka að koma einhver lína með það frá stjórnvöldum hvaða þjónustu á ekki að veita á öldrunarheimilum landsins, þar sem tekjur munu ekki duga til að veita þá þjónustu sem veitt er í dag.

En það ríkir þá ekki einungis bölmóður og svartsýni hjá þeim sem veita heilbrigðisþjónustu hér á landi. Nú er til umræðu að flytja forræði öldrunarþjónustu frá ríki til sveitarfélaga á næstu árum. Upphaflega stóð til að þessi flutningur færi fram í ársbyrjun 2012 en á ráðstefnu okkar sem haldin var í byrjun nóvember, kom fram hjá Halldóri Halldórssyni, formanni Sambands sveitarfélaga, að þessi dagsetning gæti dregist um eitt til tvö ár. Ég var mjög feginn að heyra þetta hjá Halldóri, því ég tel að það sé alltof skammur tími til stefnu ef flytja ætti málaflokkinn frá ríki til sveitarfélaga eftir einungis eitt ár. Fulltrúar SFH hittu fulltrúa Sambands sveitarfélaga á fundi í byrjun desember og fóru yfir mörg álitamál sem koma upp við hugsanlegan yfirflutning þjónustunnar frá ríki til sveitarfélaga. Verði þessi flutningur undirbúinn af kostgæfni og í samvinnu við þá sem veita hana í dag þá geta verið sóknarfæri fyrir sveitarfélögin og veitendur þjónustunnar. Þau sóknarfæri koma vonandi til með að bæta þá góðu þjónustu sem veitt er í dag enn frekar og eflaust verður hægt að hagræða enn frekar í rekstrinum, þó maður sjái nú ekki í dag hvar slíkt ætti að vera hægt.

Þrátt fyrir nokkuð dökkt útlit á mörgum sviðum eins og er, þá styttir öll él upp um síðir. Samtök fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu munu gera hvað þau geta að standa vörð um hagsmuni aðildarfélaganna í þessum ólgusjó sem við erum stödd í.

Ég sendi ykkur öllum mínar bestu óskir um gleðileg jól og farsælt komandi ár með baráttukveðju í þeim erfiðu verkefnum sem bíða okkar.

 

Gísli Páll Pálsson, formaður SFH.