Á síðustu árum hefur stefna heilbrigðisráðuneytisins breyst varðandi þjónustu sem sjúklingum er boðið upp á. Útgjöld í heilbrigðiskerfinu sem hið opinbera hefur borið um árabil eru aflögð og yfirfærð á sjúklinga. Þetta leiðir til þess að efnaminni einstaklingar gætu þurft að neita sér um ýmsa heilbrigðisþjónustu sem áður þótti sjálfsögð.
Með samningi sem SÁÁ og Sjúkratryggingar Íslands gerðu með sér í janúar 2008 var endurskilgreind kostnaðarþátttaka hins opinbera í áfengis- og vímuefnameðferð. SÁÁ var gert að innheimta gjöld fyrir fæði og húsnæði á meðan sjúklingar væru í áfengis- og vímuefnameðferð. Þetta fyrirkomulag getur leitt til þess að margir þurfi að fresta eða hætta við meðferð sökum fjárhagserfiðleika.
Hver ber hina samfélagslegu ábyrgð hjá þessum einstaklingum? Ef það heyrir ekki undir heilbrigðisráðuneytið að greiða fyrir fæði og húsnæði þurfa félagsmálayfirvöld bæði ríki og sveitarfélög að bera samfélagslega ábyrgð og aðstoða þá sem að ekki geta notið sjálfsagðrar heilbrigðisþjónustu sökum efnahags.
Á árinu 2008 bauð SÁÁ fæði og húsnæði endurgjaldslaust, en við efnahaghrunið s.l. haust rýrnuðu tekjustofnar samtakanna svo að þau höfðu ekki bolmagn til að standa undir þeim kostnaði. Í byrjun árs 2009 var farið að innheimta gjald fyrir fæði og húsnæði vegna áfengis- og vímuefnameðferðar. Reynslan fyrstu 3 mánuði ársins sýnir að um 1/3 hluti sjúklinga hefur ekki getu til að greiða þennan kostnað. Á árinu 2008 fóru um 700 einstaklingar í áfengis- og vímuefnameðferð þannig að um 233 manns gætu þurft að neita sér um þessa heilbrigðisþjónustu án hjálpar utanaðkomandi aðila.
Forráðamenn SÁÁ sáu þetta fyrir og stofnuðu sérstakan styrktarsjóð með hjálp starfsmanna og félagsmanna SÁÁ ásamt framlögum stéttarfélaga og nokkurra fyrirtækja. Þessum sjóði er ætlað að koma til móts við þá sem eru efnalitlir og hafa ekki aðgang að framfærslu hjá sveitarfélögum. Það hefur hins vegar komið á daginn að þörfin er meiri en að styrktarsjóðurinn geti einn staðið undir.
Fram til þessa hafa sveitarfélögin ekki sinnt þessu kalli. Það er von SÁÁ að þau endurskoði afstöðu sína og sjái að það er skylda þeirra að aðstoða þá efnaminni svo þeir sitji við sama borð og aðrir hvað varðar áfengis- og vímuefnameðferð. Það er mikilvægt í árferði eins og nú að standa vörð um þá heilbrigðis- og samfélagsþjónustu sem við höfum náð að byggja upp.
Ásgerður Th. Björnsdóttir
stjórnarmaður í SFH og framkvæmdastjóri fjármálasviðs SÁÁ