Hvar á ég heima?
Málþing SFV um unga íbúa á öldrunarheimilum
Er það rétt stefna að ungt fólk sem ekki getur búið sjálfstætt flytjist á hjúkrunarheimili fyrir aldraða og búi þar, jafnvel áratugum saman? Eiga allir að geta búið á hjúkrunarheimilum óháð þjónustuþörf og sjúkdómsástandi og hver eru þolmörk aldraðra íbúa heimilanna? Þetta eru meðal áleitinna spurninga sem ræddar verða á málþingi Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu á Hótel Reykjavík Natura við Nauthólsveg á morgun, þriðjudaginn 27. nóvember milli kl. 13.30 og 15.30.
Ólíkar vonir og þrár
Hjúkrunarheimili landsins eru ekki lengur skilgreind sem heimili eingöngu fyrir aldraða veika einstaklinga, 67 ára eða eldri sem ekki geta búið sjálfstætt, heldur einnig ungt fólk óháð aldri og sjúkdómsgreiningu. Fram undan eru m.a. breytingar hjá Öldrunarheimili Akureyrar á þremur hjúkrunarrýmum þannig að þau geti mætt þörfum sjúklinga með alvarleg geðræn vandamál. Að margra mati eru öldrunarheimilin ekki heppilegasta búsetuúrræðið fyrir ungt fólk sem ekki getur búið sjálfstætt nema í algjörum undantekningartilfellum. Til þess eru hagsmunir, þarfir, vonir og þrár yngra fólks of ólíkar þeim sem aldraðir íbúar hjúkrunarheimilanna bera í brjósti auk þess sem spurningin um réttindi og þolmörk aldraðra á heimilunum verður mjög áleitin.
Meðalaldur um 85 ár
Meðalaldur íbúa hjúkrunarheimilanna er í dag um 85 ár og þjónusta þeirra er sérhæfð að öldruðum. Í dag búa tæplega 200 manns yngri en 67 ára á hjúkrunarheimilum, þar af all nokkrir sem ekki hafa náð fimmtugsaldri. Fyrir liggur að öldruðu veiku fólki í brýnni þörf fyrir hjúkrunarrými fjölgar hratt og biðlistar eru að lengjast. Samkvæmt upplýsingum landlæknis biðu að meðaltali 411 manns eftir hjúkrunarrými í september, 20% fleiri en í sama mánuði 2017 þegar 342 voru á biðlista.
Hver eru réttindi ungra sem aldinna?
Á málþingi SFV á Hótel Reykjavík Natura við Nauthólsveg verður fjallað um ýmsar hliðar og áskoranir sem blasa við á hjúkrunarheimilunum með hliðsjón af þeirri þróun sem orðið hefur með fjölgun á alvarlega veiku ungu fólki á hjúkrunarheimilum enda eru hagsmunir kynslóðanna misjafnir og ólíkir. Hver eru réttindi aldraðra á heimilunum gagnvart þessari þróun og ekki síður þeirra sem yngri eru gagnvart þeirri stöðu að vera gert að flytjast á öldrunarheimili, jafnvel til áratuga?
Framsögur
Pétur Magnússon, formaður SFV og forstjóri Hrafnistuheimilanna, setur ráðstefnuna. Að því loknu flytja erindi Björn Bjarki Þorsteinsson, varaformaður SFV og framkvæmdastjóri Brákarhlíðar í Borgarnesi, Hrönn Ljótsdóttir, forstöðumaður Hrafnistu í Garðabæ, Halldór Guðmundsson, framkvæmdastjóri Öldrunarheimila Akureyrar, Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands, og Berglind Magnúsdóttir, skrifstofustjóri á velferðarsviði Reykjavíkurborgar.
Reykjavík 26. nóvember 2018.
Nánari upplýsingar veita Pétur Magnússon, formaður SFV, í síma 841 1600 og
Eybjörg Hauksdóttir, framkvæmdastjóri SFV, í síma 898 9225.