Fréttir og tilkynningar

Meðvirkni er alvarlegur sjúkdómur

Til er alvarlegur sjúkdómur sem á sér ekkert númer og finnst ekki á alþjóðlegum sjúkdómaskrám. Heilbrigðisráðuneytið íslenska hætti endanlega að borga meðferð þessa sjúkdóms árið 2008.  Sjúkdómur þessi leggst þó á fleiri einstaklinga en allir þeir sjúkdómar sem ég þekki. Þennan sjúkdóm köllum við hjá SÁÁ meðvirkni og höfum gert frá árinu 1977.

Sjúkdómur meðvirkninnar leggst á marga af þeim einstaklingum sem búa náið með áfengis- og vímuefnafíkli, einkum börnin, en einnig þá fullorðnu. Hann breytir varanlega viðhorfum, hugsun og hegðun hins meðvirka einstaklings og framkallar hjá honum slæma líðan og alls konar óvirkni. Margir fullorðnir mótuðust þannig sem börn og þurfa meðferð. Hann kemur af stað þróun í fjölskyldu hins sjúka fíkils og breytir reglunum þar svo fjölskyldan skrumskælist öll. Þar skapast þrúgandi og slítandi andrúmsloft og uppeldisskilyrði. Þetta er í heild sinni mikið þjóðarböl.

Á árunum 1975-1990 áttuðu þúsundir heilbrigðisstarfsmanna í Bandaríkjunum sig á þessum vanda þegar þeir voru að  hjálpa fjölskyldum áfengis- og vímuefnasjúklinga. Þeir söfnuðu saman reynslu sinni í sjúklingavinnunni og ræddu málin sín á milli. Bjuggu til hugmyndafræði og hrundu af stað meðferðarúrræðum sem virkuðu svo vel og voru svo vinsæl að samtök aðstandenda Al-anon stækkuðu líkt og AA-samtökin í kjölfar meðferðaruppbyggingarinnar fyrir áfengissjúklingana. Þessi meðferð varð til utan háskólanna og rannsóknarsamfélagsins og var hvergi kennd nema á fáeinum meðferðarstofnunum vestra. SÁÁ flutti þessa meðferð hingað til lands 1977 og byggði upp meðferðarþjónustu fyrir aðstandendur og þróaði hana áfram líkt og áfengis- og vímuefnameðferðina. Sama þróun varð hér og í Bandaríkjunum, Al-non samtökin stækkuðu gríðarlega.

Á seinni árum hefur þekkingin um meðvirkni meðal heilbrigðisstarfsmanna í USA minnkað og merkja má afturför. Hér heima er kennslu- og rannsóknarsamfélagið ómeðvitað um þennan vanda og kennir nemendum sínum ekkert um hann. Engar rannsóknir hafa verið gerðar á þessari meðferð og árangri hennar hér heima og nánast engar erlendis. 

Þessi þjónusta við aðstandendur er grundvöllur að auknum árangri og betri bata hjá þeim sem í samtökum aðstandenda vinna á grundvelli þeirrar heimspeki eða hugmyndafræði sem kennd hefur verið við 12 spor AA-samtakanna. Það mun fækka í slíkum samtökum ef dregið verður úr aðstandandameðferðinni hjá SÁÁ

Ábyrgð SÁÁ er því mikil að varðveita þá reynslu og þekkingu sem meðal starfsmannanna býr og hlúa að eðlilegri framþróun og nýsköpun í  meðferðarþjónustu fyrir aðstandendur áfengis- og vímuefnasjúklinga.

 

Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi