Um 69 milljónum króna var nýlega úthlutað til þróunar náms í ráðgjöf í málefnum fólks með heilabilun, en um er að ræða samstarfsverkfefni Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri. Það var Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla,- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sem kynnti nýverið niðurstöður Samstarfs háskóla fyrir árið 2023, en alls hlutu 35 verkefni styrk að þessu sinni og heildarupphæð úthlutunar var tæplega 1,6 milljarður króna.
Nám í ráðgjöf í málefnum fólks með heilabilun
Markmiðið með þessu verkefni er að undirbúa og kenna 60 ECTS eininga nám til viðbótardiplómaprófs á meistarastigi í ráðgjöf í málefnum fólks með heilabilun, við Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands. Námið er þverfaglegt og kennt í fjarnámi, með tímasókn í hermikennslu í rauntíma auk vettvangsnáms. Markmiðið er að fagfólk sem útskrifast úr náminu geti veitt fólki með heilabilun og aðstandendum þeirra ráðgjöf og stuðning. Verkefnið er liður í því að bregðast við þeirri heilbrigðis- og samfélagslegu áskorun sem heilabilun fylgir.
Fulltrúar háskólanna ásamt háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við kynningu á þeim verkefnum sem fengu styrk
Verkefnið Samstarf háskóla
Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið setti Samstarf háskóla á laggirnar haustið 2022 og fóru úthlutanir styrkja fram í ársbyrjun 2023 og 2024. Verkefninu er ætlað að ýta undir öflugt samstarf háskóla á Íslandi, nýsköpun og framfarir á háskólastigi. Með verkefninu er háskólunum veittur fjárhagslegur hvati til að stofna til öflugs samstarfs sín á milli með það að markmiði að auka gæði náms og samkeppnishæfni skóla.