Fréttir og tilkynningar

Njótum lífsins

gislipall

Var búinn að setja mig í stellingar. Undirbúa ýmiskonar tölfræði úr fjárlögum. Fara yfir væntanlegan rekstrarhalla næsta árs. Hvað við gætum gert til að bregðast við sífellt minni fjárframlögum, í það minnsta hlutfallslega miðað við verðlagsþróun. Segja ykkur frá því sem við höfum verið að vinna að innan SFH undanfarna mánuði og hvað stendur til að gera fram á vor. En hætti við þetta allt saman. Eigum við ekki einhvern tíma að leyfa okkur að njóta lífsins? Hætta að hafa áhyggjur af öllu út í eitt? Fjárlögin, gengismálin, verðbólgan, atvinnuleysið, Icesave, ESB og hvað þetta heitir nú allt saman. Eigum við ekki að hvíla okkur á þessu svona rétt fyrir jólin og njóta þess að vera til? Njóta þess að vera saman og tala saman? Njóta þess að vera fædd eða flutt inn í þetta dásamlega land sem við eigum saman? Þrátt fyrir ýmsa erfiðleika í þjóðfélaginu þá er staða okkar góð. Aðbúnaður á hjúkrunarheimilum er með því besta sem gerist í heiminum þó að auðvitað megi alltaf gera betur. Endurhæfingarstofnanir okkar standa sig mjög vel og þar er veitt endurhæfingaþjónusta á heimsmælikvarða. Og allt þetta getum við og gerum þrátt fyrir mikinn niðurskurð fjárframlaga undanfarin ár. Ég mæli með að við lítum í kringum okkur og reynum að koma auga á það jákvæða í lífinu. Sumir kvarta yfir snjó og kulda en ég sé birtu og fegurð í snjónum, hreint loft og útsýni þegar veður er bjart og kalt. Við búum á Íslandi og á veturna á að vera kalt og snjór. Reyndar með ósk og von um að sumarið verði bjart og hlýtt. Heitur pottur í sundlauginni, frost, fullt tungl og heiðskýrt, norðurljós, sólarupprás og sólsetur. Allt eru þetta mikil og falleg náttúruundur sem við tökum kannski sem sjálfsagðan hlut. En er þetta allt alveg sjálfsagt? Nei, við njótum þessara forréttinda og eigum að þakka fyrir það. Þegar við vöknum á morgnana eigum við að þakka fyrir það sem við höfum en ekki kvarta endalaust yfir því sem við höfum ekki. Prófum það að minnsta kosti.

Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Hlakka til að eiga samstarf við ykkur í framtíðinni.

Gísli Páll, formaður Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu