Fréttir og tilkynningar

Nokkrar vangaveltur að norðan

Margt gott hefur gerst í þjónustu við aldraða undanfarin ár. Stjórnvöld hafa lagt mikla áherslu á að aldraðir geti búið sem lengst í heimahúsum í takt við yfirlýstan vilja flestra. Til þess að svo megi verða þarf margt að koma til, f.o.f. fjölbreytt þjónusta heim á öllum tímum sólarhringsins, aðgengi að hentugu húsnæði og félagslegt samneyti. Umræðan hefur nær eingöngu snúist um annars vegar að aðstoða fólk við að búa sem lengst í heimahúsum og hins vegar hjúkrunarheimilaþjónustu fyrir þá sem veikastir eru. Lítið sem ekkert hefur verið rætt um úrræði fyrir þá sem eru tiltölulega sjálfbjarga en treysta sér samt ekki til þess að búa heima þrátt fyrir góða heimaþjónustu – eru e.t.v. einmana og kvíðnir. Að ekki sé talað um möguleika hjóna á að eyða ævikvöldinu saman ef annað hjóna er orðinn hjúkrunarsjúklingur en hitt ekki – í slíkum tilvikum þurfa hjón nú oft að skilja að skiptum gegn vilja sínum. Aldraðir eru ekki einsleitur hópur með einsleitar þarfir – því þarf þjónustan að vera fjölbreytt og sveigjanleg til þess að mæta ólíkum þörfum fólks á hverjum tíma – samfélagið skuldar þessum hópi það!

Vandinn við framkvæmd á áherslum hins opinbera er að ólíkir aðilar sjá um og fjármagna hina ólíku þjónustuþætti – ríkið kostar heimahjúkrun og rekstur öldrunarheimila en sveitarfélögin heimaþjónustuna. Á meðan þjónustan er ekki greidd úr sama vasa má reikna með að ódýrasta lausnin sé valin en ekki endilega sú hentugasta fyrir einstaklinginn. Því finnst mér fagnaðarefni að stefnt sé að því að þjónusta við aldraða verði alfarið færð til sveitarfélaganna á næstu árum – þá fyrst má reikna með að hentugasta þjónustuúrræðið fyrir hvern einstakling verði valið. Áhyggjur hafa verið af getu lítilla sveitarfélaga til þess að taka yfir málaflokkinn í heild sinni en mér finnst það ástæðulausar áhyggjur. Lítil sveitarfélög hafa yfirleitt langa reynslu af samvinnu við önnur sveitarfélög í hinum ýmsu þjónustuþáttum svo sem varðandi barnavernd, félagsþjónustu og skólahald og geta hæglega unnið saman að uppbyggingu öldrunarþjónustunnar. Þjónusta við aldraða á að mínum dómi best heima í nærþjónustu sveitarfélaga, þar sem þekking er á staðháttum og möguleikum. Það þarf að passa að nægjanlegt fjármagn fylgi flutningi málaflokksins svo að mögulegt verði að sinna öldrunarþjónustunni svo að sómi verði af.
Ég fagna líka áherslum hins opinbera á sjálfræði og aukin heimilisbrag á öldrunarheimilum. Reyndar tel ég áherslur á sjálfræði ekki eiga síður við í heimahúsum og forræðishyggjan sé víða inngróin í öldrunarþjónustuna – bæði í heimaþjónustu og á öldrunarheimilum. Oft ræður verklagið för frekar en þarfir og óskir einstaklingsins, hvort heldur átt er við val á þjónustu, þjónustuaðila eða þjónustutíma. Mig grunar að það sé víða enn þannig að fólk fái t.d. tilboð um ákveðinn baðtíma – kannski bara einu sinni í viku og ekki endilega á þeim tíma sem viðkomandi óskar sér. Kannski kann einstaklingurinn ekki einu sinni við að nefna óskirnar sínar – það segir sitt!
Ég held að okkur sem störfum í öldrunarþjónustu sé hollt að temja okkur hugsunina um að við erum gestir á heimili hins aldraða, hvort sem um er að ræða í heimaþjónustu eða á öldrunarheimilum.
Ég fagna líka nýlegum áherslum hins opinbera á skipulagi hjúkrunarheimila – að byggð séu mannsæmandi einkarými á öldrunarheimilum. Það var tímabær áhersla og satt að segja finnst mér stundum hafa verið meiri áhyggjur af aðstöðu fanga á Íslandi en aðstöðu fyrir aldraða á öldrunarheimilum á ævikvöldinu. Ég hef allavega ekki heyrt miklar upphrópanir í fjölmiðlum út af því að stór hópur aldraðra á öldrunarheimilum hefur hvorki eigin snyrtingar né flatskjái á herbergjunum – en það virðast álitin sjálfsögð mannréttindi fanga! Mér finnst afar brýnt að áfram verði haldið í að bæta húnæðisaðstæður þess fólks sem þegar býr á öldrunarheimilum í örlitlum einbýlum eða margbýlum með sameiginlegum snyrtingum – jafnvel langt frá herbergjunum – þessar aðstæður eru ekki mannsæmandi í dag og finnst mér mun mikilvægara að bæta þær en aðstæður fanga eins og fyrr er getið.

Ég skil áherslur hins opinbera á að veikasta fólkið hafi forgang að þjónustu öldrunarheimila – það er eðlilegt. Með aukinni heimaþjónustu flyst æ veikara fólk á öldrunarheimili – jafnvel í mjög stuttan tíma í líknarþjónustu. Sjúkrahúsin létta á sér og spara með þessu móti og það er gott og blessað en mikið veikt fólk og deyjandi fólk þarf mikla þjónustu og oft dýrar lyfjagjafir. Tilvik hafa komið upp þar sem daggjöldin dugðu ekki fyrir lyfjakostnaði einstaklings – hvað þá mat, húsnæði, umönnun, læknisþjónustu o.s.frv. Ekki hefur verið mögulegt að sækja sérstakt fjármagn til ráðuneytanna í slíkum tilvikum. Það er illt ef öldrunarheimili forðast að taka inn slíka sjúklinga vegna kostnaðar eða þurfa að greiða stórar fjárhæðir með þeim. 

Á sama tíma og öldrunarheimili þjónusta æ veikara fólk og létta þar með á sjúkrahúsum, skyldi maður ætla að mönnun væri efld og daggjöld hækkuð en þvert á móti hafa daggjöldin verið skorin niður og eru þau aðeins brot af þeim daggjöldum sem sjúkrahúsin fá greidd. Rektraraðilar öldrunarheimila vilja og geta veitt góða þjónustu allt til lífsloka en til þess þarf viðunandi fjármagn. Í þessu samhengi er mikilvægt að opinberir aðilar taki af skarið varðandi fyrirmæli um nauðsynlega mönnun á öldrunarheimilum og víki sér ekki lengur undan þeirri umræðu.

Ég velti fyrir mér þeirri þróun að aldursmörk inn á öldrunarhemili hurfu án opinberrar umræðu. Ég velti fyrir mér hvers vegna það var gert og fyrir hverja? Ég held að það sé yfirleitt ekki ósk yngri sjúklinga með hrörnunarsjúkdóma eða geðræn vandamál að flytja inn á öldrunarheimili – en sjaldnast virðist val um annað úrræði. Það er mikið álag sem fylgir því að búa á öldrunarheimili þar sem alvarleg veikindi og andlát eru algeng. Yngra fólk  hefur af eðlilegum ástæðum oft aðrar þarfir og drauma en eldra fólk og við verðum að útbúa önnur úrræði fyrir þennan hóp – minni sambýli fyrir fólk með svipaðar þarfir. Það getur verið dýrt að byggja ný úrræði en þegar til lengri tíma er litið eru úrræði sem miðast við þarfir hvers og eins þau ódýrustu, því að fólki líður betur og bætt líðan hefur áhrif á getu og heilsufarið í heild. Það sannast enn og aftur að það er dýrt að vera fátækur.

Enn eitt vil ég nefna sem ég sakna umræðu um en það er þjónusta við fólk sem megnið af lífinu hefur þurft sértæka þjónustu oftast vegna geðrænna vandmála og/eða þroskaskerðingar. Ég er að velta fyrir mér fólki sem hefur gengið illa að búa í samneyti við annað fólk – kannski megnið af fullorðinsárum. Hvernig eigum við að þjónusta þessa einstaklinga þegar heilsuleysi og aldur hnígur að? Ég sakna opinberrar umræðu um þessi mál.

Undanfarin ár hefur verið unnið að því að málaflokkur aldraðra flyttist alfarið frá heilbrigðisráðuneyti til félags – og tryggingamálaráðuneytis. Ég hef verið fylgjandi þessari ákvörðun og finnst þetta vera mikilvægt skref í átt að því að minnka sjúkdómshugsun og auka heimilis- og einstaklingshugsun í þjónustu við aldraða. Flutningur málaflokksins var tekinn í áföngum og skyldi lokið um síðustu áramót. Í desember síðastliðnum var allt í einu hætt við að klára flutninginn, nokkur öldrunarheimili voru flutt í félags- og tryggingamálaráðuneytið en önnur skilin eftir í heilbrigðisráðuneytinu. Án nokkurs samráðs! Ég átta mig engan veginn á hvað réði því hvernig öldrunarheimilum var skipt á ráðuneytin og freistast til þess að halda að geðþóttaákvarðanir hafi ráðið för. Mér finnst þessi ákvörðun algjörlega óásættanleg og til þess gerð að gera okkur erfiðara fyrir í samstarfi og samstöðu. Ég mæli með því að við mótmælum þessu harðlega og krefjumst þess að umsjón með öldrunarheimilum landsins verði öll í einu ráðuneyti!

Að lokum: margt gott er að gerast í öldrunarþjónustu á landinu. Aukin hugsun um einstaklingsmiðaða þjónustu, auknar heimilisáherslur og fjölbreyttari þjónustutilboð – allt er þetta af hinu góða. Fullt af áhugasömu og duglegu starfsfólki starfar í öldrunarþjónustunni. Við erum stöðugt að leita leiða til betri og hagkvæmari þjónustu og lengi má gott bæta. Við erum að hugsa í nýju verklagi þar sem gengið er út frá óskum hvers og eins í stað þess að klára ákveðin verk á ákveðnum tímum. Það sem vantar er meira samráð – það vantar meira samráð við aldraða sem við erum að þjónusta – það vantar ekki síst meira samráð milli okkar þjónustuaðila og hins opinbera – helst áður en ákvarðanir eru teknar!

Brit J. Biletvedt
framkvæmdastjóri Öldrunarheimila Akureyrar.