Ráðgjöf í málefnum fólks með heilabilun er ný námsleið innan hjúkrunarfræðideildar Háskólans á Akureyri sem hefst næsta haust. Þetta er framhaldsnám á meistarastigi og er samstarfsverkefni með félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands. Í frétt á vef Háskólans á Akureyri má fá nánari upplýsingar um námsleiðina, en þar segir m.a.: „Námsleið þessi hefur mikið samfélagslegt gildi þar sem hún er unnin í samræmi við stefnumótun og aðgerðaráætlun stjórnvalda í málefnum fólks með heilabilun. Mikil þörf er á aukinni menntun og fagþekkingu í þessum málefnum í ljósi ört vaxandi hóps með heilabilun og er mikilvægt fyrir heilbrigðis og velferðarkerfið í heild.“
Í frétt á vef Heilbrigðisráðuneytisins um þessa nýju námsleið kemur einnig fram að ráðuneytið veitti skólanum 7 milljóna króna styrk til að koma náminu á fót til að fylgja eftir áherslum í aðgerðaáætlun ráðuneytisins í þjónustu við fólk með heilabilun.
Námsleiðin verður kynnt á opnun kynningarfundi í Háskólanum á Akureyri mánudaginn 18. mars og verður honum einnig streymt.