Út var að koma skýrsla á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis um húsnæðismál hjúkrunarheimila. Skýrslan nefnist Breytt fyrirkomulag fasteigna vegna hjúkrunarheimila.
Skýrslan er afrakstur greiningarvinnu á vegum ofangreindra ráðuneyta, sem tilkomin er vegna rekstrarvanda margra hjúkrunarheimila og ágreinings um aðkomu ríkisins að fjármögnun og rekstri þeirra. „Ekki síst á þetta við um fyrirkomulag á eignarhaldi og framkvæmdum við byggingu hjúkrunarheimila og hvernig því verður best fyrirkomið til að stuðla að markvissri og nauðsynlegri uppbyggingu í málaflokknum í samræmi við öldrun þjóðarinnar“ eins og segir í inngangi skýrslunnar. Reifaðar eru hugmyndir um sveigjanlegra fyrirkomulag og sérhæfingu við uppbyggingu hjúkrunarheimila, einkum í ljósi þess að byggja þyrfti hátt í 100 hjúkrunarrými árlega næstu 20 ár til að halda í við þá fjölgun sem verður í hópi aldraðra, þó það ráðist að einhverju leyti af samspili við heimaþjónustu og dagdvalir. Í því samhengi er rakið að undanfarin ár hafi orðið nokkrar tafir á nauðsynlegri uppbyggingu nýrra hjúkrunarrýma af ýmsum ástæðum sem farið er yfir í skýrslunni.
Í skýrslunni eru staða mála kortlögð hvað varðar hjúkrunarheimili, eignarhald þeirra og fjölda rýma í samhengi við fjölda aldraðra, greiningu á kostnaði og fjárþörf og horft til þróunar næstu ára og áratuga hvað þessa þætti varðar. Þá eru í skýrslunni settar fram tillögur að breyttu fyrirkomulagi við uppbyggingu og viðhald húsnæðis húkrunarheimila, um aukna aðkomu og ábyrgð ríkisins og að breyttri verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga í málaflokknum. Markmiðin með breyttu fyrirkomulagi eru m.a. að auka hagkvæmni og framkvæmdahraða við uppbyggingu hjúkrunarrýma og tryggja að fjármunir séu til staðar til nauðsynlegs viðhalds og endurbóta á húsnæði hjúkrunarheimila.
Öllum sem koma að þjónustu við aldraða er bent á að kynna sér skýrsluna nánar og þær tillögur sem þar er að finna og miða að því að styrkja uppbyggingu og rekstur hjúkrunarheimila á komandi árum. SFV og aðildarfélög þess funda um skýrsluna á föstudaginn kemur og ræða niðurstöður og þær tillögur sem þar koma fram.