Nýlega var mynduð ný ríkisstjórn hér á landi. Þeir sem reka dvalar- og hjúkrunarheimili eiga samskipti við þrjú ráðuneyti og þar af leiðandi þrjá ráðherra. Heilbrigðisráðherra vegna hjúkrunarrýma og umönnunarkostnaðar, félags- og tryggingamálaráðherra vegna dvalarrýma og húsnæðiskostnaðar hjúkrunar- og dvalarrýma og svo fjármálaráðherra til að borga brúsann.
Samskipti við þessi ráðuneyti hafa verið með ágætum undanfarin ár en auðvitað væri hentugra (og skynsamlegra) að hafa þessi mál öll undir annað hvort heilbrigðisráðuneyti eða félags- og tryggingamálaráðneyti. Þessi breyting sem varð um áramótin 2007 og 2008 hafa flækt málin og ýmis atriði hafa orðið út undan og má þar nefna bætur vegna greiðslu fasteignaskatts. Það er eins og að hvorugt ráðuneytið vilji bera ábyrgð á því að þessar bætur séu greiddar að fullu til dvalar- og hjúkrunarheimila og nú fáum við þær skýringar að hluti þessara bóta hafa verið innifaldar í daggjöldum ársins 2008. Þó höfum við ekki fengið neina útreikninga þessu til staðfestingar. Þetta veldur tortryggni á milli aðila þegar fullyrðingar um slíkt eru ekki studdar rökum. Vonandi mun nýtilkomin Sjúkratryggingastofnun bæta úr þessu með því að semja við aðildarfélög Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu. Í þeim samningum verður örugglega nánar skilgreind sú þjónusta sem stofnanirnar eiga að veita og með hvaða hætti verður tekið á kostnaðarhækkunum og hækkunum greiðslna á milli ára. Ég óska þeim Guðlaugi Þór Þórðarsyni og Árna Mathiesen góðs gengis í þeim störfum sem þeir taka sér fyrir hendur á næstunni.
Nýjum ráðherrum, þeim Ögmundi Jónassyni heilbrigðisráðherra, Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur félags- og tryggingamálaráðherra og Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra óska ég góðs gengis. Mest mun þó væntanlega mæða á Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra í nýrri ríkisstjórn og ég trúi því og treysti að hún vinni vel að öllum þeim erfiðu málum sem fram undan eru við rekstur okkar lands.
Gísli Páll Pálsson, formaður Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu.