Fréttir og tilkynningar

Nýjungar í velferðarþjónustu

Samtök fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu (SFH) stóðu fyrir ráðstefnu um nýjungar í velferðarþjónustu 16. mars sl.  Á ráðstefnunni voru haldin þrjú erindi.  Guðbjörg R. Guðmundsdóttir samskiptafulltrúi á Grund, dvalar- og hjúkrunarheimili og Steinunn S. Gísladóttir forstöðukona í Bæjarási í Ási Hveragerði kynntu Eden hugmyndafræðina.  Því næst gerði Hrefna K. Óskarsdóttir iðjuþjálfi og MA í fötlunarfræðum grein fyrir þjónustmati er hún vann fyrir Sjálfsbjörg landssamband fatlaðra og Sjálfsbjargarheimilið vegna áforma um uppbyggingu Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar Sjálfsbjargar.  Að lokum flutti Magna Fríður Birnir hjúkrunarforstjóri Heilsustofnunar NLFÍ erindi um streituklínik og atvinnuendurhæfingu. 

Í upphafi ráðstefnunnar ávörpuðu Gísli Páll Pálsson formaður SFH og félags- og tryggingamálaráðherra, Árni Páll Árnason ráðstefnuna. 

Gísli Páll vék að því í ávarpi sínu að brýnt væri að aldraðir haldi fjárhagslegu sjálfstæði þrátt fyrir að flytja á hjúkrunarheimili.  Benti hann á að ríkið ákveður hvað innifalið er í daggjöldum til hjúkrunarheimila og að heimilismaðurinn hefur lítið sem ekkert um það að segja hvort eða hvar hann velur að þiggja þá þjónustu.  Hann lýsti þeirri skoðun sinni að aldraðir sem búa á hjúkrunarheimilum eigi að greiða sjálfir fyrir húsaleigu, og ýmsa þjónustu svo sem fæði, sjúkraþjálfun, fótsnyrtingu, hárgreiðslu og fleira og fá til þess fjármagn frá Tryggingastofnun ríkisins.  Ríkið greiddi síðan allan umönnunar- og hjúkrunarkostnað beint til hjúkrunarheimilisins.  Gísli sagði að hér væri um mikið réttlætismál að ræða sem brýnt væri að bæta úr hið fyrsta.  Vísaði Gísli til þess að Eden hugmyndafræðin sem kynnt yrði á ráðstefnunni fylgdi þeirri stefnu að auka sjálfræði og sjálfstæði heimilismanna á hjúkrunarheimilum.  Gísli vék einnig að því að ef fjárhagslegt sjálfstæði heimilismanna á hjúkrunarheimilum yrði aukið gerðu þeir væntanlega meiri kröfur til þjónustunnar og sá sem veitir þjónustuna myndi þá líklega leggja sig enn meira fram við veitingu hennar. 

 

Ráðherra þakkaði fyrir að fá tækifæri til að ávarpa ráðstefnugesti.  Hann rakti í máli sínu átak í byggingu hjúkrunarheimila og áherslu á nauðsyn þess að verja grunnþjónustuna.  Hann ræddi um mikilvægi þess að hugsa alla hluti upp á nýtt með sparnað að leiðarljósi.  Hann ræddi um að á seinni árum hefði meira verið hugað að inntaki þjónustunnar, hver væri vilji notenda þjónustunnar.  Ráðherra ræddi um fatlaða og að þeir finni fyrir að vera valdsviptir í daglegu lífi sínu.  Mikilvægt væri að búa betur að þeim og einnig hinum sem þurfa á stofnanaþjónustu að halda.  Ný hjúkrunarrými þurfa að vera sveigjanleg í rekstri og þar verði jafnvel horft til notendastýrðrar þjónustu.  Nefndi ráðherra að mikilvægt væri að hjón með ólíkar þjónustuþarfir geti búið saman.  Hann vakti athygli á að aukinn kraftur væri hjá Íbúðalánasjóði til viðbótarlánafyrirgreiðslu þannig að fólk geti búið lengur heima.  Ráðherra lauk máli sínu með þeim orðum að mikil hugmyndafræðileg gerjun á vettvangi fatlaðra hefði hrifið sig.

Guðbjörg R. Guðmundsdóttir samskiptafulltrúi á Grund, dvalar- og hjúkrunarheimili og Steinunn S. Gísladóttir forstöðukona í Bæjarási í Ási Hveragerði kynntu Eden hugmyndafræðina sem miðar að því að vinna á leiða, einmanaleika og vanmáttarkennd. Guðbjörg greindi frá í erindi sínu að Eden valkosturinn væri í raun ekki ný sannindi. Boðskapurinn snýst um að koma til móts við ósköp venjulegar þarfir og langanir þeirra sem búa á hjúkrunarheimilum. Hann miðar að því að gera fólki kleift að búa eins sjálfstætt og hægt er en þó með það öryggi sem fylgir því að búa á hjúkrunarheimili. Grund fékk leyfi til að opna lítið Eden heimili sl. haust í Hveragerði sem heitir Bæjarás. Heimili sem hafa náð því að innleiða Eden hugmyndafræðina  hafa skilað árangri sem vert er að gefa gaum.  Starfsfólk er minna frá vinnu og starfsmenn endast lengur á sama vinnustað.  Starfsfólkið er líka ánægðara í vinnunni.  Rannsóknir sýna að notkun þunglyndislyfja er minni en á hefðbundnum hjúkrunarheimilum,  heimilismenn sem áttu í erfiðleikum með hegðun sýna miklar breytingar í jákvæða átt þegar þeir flytja á Eden heimili, fjölskyldur heimilisfólksins koma tíðar  í heimsókn og taka virkari þátt í daglegu lífi á heimilinu en ella  og kvörtunum fækkar í kjölfar breytinganna. Það er unnið eftir tíu meginreglum á Eden heimili og hér er fjallað um nokkrar þeirra:

·         Það þarf að leita leiða til að útrýma einmanaleika, vanmáttarkennd og leiða hjá öldruðum.

·         Það þarf að gefa fólki á hjúkrunarheimilum tækifæri á að komast í snertingu við börn, gæludýr og lifandi plöntur.

·         Kærleiksrík samskipti eru andstæða einmanaleika.

·         Aldraðir þurfa að fá tækifæri til að gefa ekki bara þiggja.

·         Fjölbreytileiki og ekki síður sjálfsprottin afþreying þar sem eitthvað óvænt og skemmtilegt getur átt sér stað.

·         Aldraðir þurfa að fá tækifæri til að gera hluti sem skipta þá máli.

·         Hjúkrunar- og læknisþjónusta á aldrei að verða miðpunktur lífsins.

·         Ákvarðanir eru færðar til heimilisfólks eða aðstandenda eins og hægt er.

Námskeið stendur nú yfir um Eden hugmyndafræðina hjá Endurmenntun Háskóla Íslands. Þá má geta þess að milligöngumaður hér á landi fyrir Eden hugmyndafræðina er Rannveig Guðnadóttir hjúkrunarfræðingur á Akureyri og hægt er að hafa samband við hana til að fá ítarefni og nánari upplýsingar. Þá ræddi Steinunn um starfið á Bæjarási og sýndi myndir þaðan.  Bæjarás stendur við hlið hjúkrunarheimilisins Áss.  Í húsinu voru áður bæjarskrifstofur Hveragerðis og bókasafn.  Þar búa nú fimm heimilismenn, nokkrir koma í dagdvöl.  Lögð er áhersla á að allir hjálpist að við dagleg störf.  Starfsmenn eru í eigin fötum í vinnunni.  Hænur og köttur eru heimilisföst í Bæjarási, og hundar eru þar tíðir gestir heimilsfólki til ánægju og yndisauka. 

Þá tók til máls Hrefna K. Óskarsdóttir iðjuþjálfi og MA í fötlunarfræðum og kynnti þjónustumat sem hún vann fyrir Sjálfsbjörg landssamband fatlaðra og Sjálfsbjargarheimilið vegna áforma um uppbyggingu Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar Sjálfsbjargar.  Áform um uppbyggingu miðstöðvarinnar tengjast kröfunni um bætta þjónustu, jafnframt kröfu um aukna hagræðingu. Niðurstöður þjónustumatsins leiddu í ljós að brýnt væri að setja á laggirnar þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir hreyfihamlað fólk.  Byggt skyldi á félagslegri sýn á fötlun og valdeflingu.  Valdefling í þjónustu við fatlað fólk snýst um lífsgæði, borgaraleg réttindi, mannréttindi og grundvallarbreytingar í viðhorfum og uppbyggingu á þjónustu.  Hugtakið felur í sér að einstaklingurinn hafi sjálfur vald til að skilgreina líf sitt, langanir aðstæður og þarfir.  Hann hafi vald til töku ákvarðana óháð því hvað hentar þjónustustofnunum.  Meginverkefni þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir hreyfihamlað fólk eru skv. niðurstöðum Hrefnu:  Veita óháða ráðgjöf.  Veita fólki stuðning og aðstoð við að leita réttar síns.  Hafa á takteinum upplýsingar um aðgengi fyrir hreyfihamlað fólk bæði hér á landi og í útlöndum.  Miðstöðin ætti að leggja áherslu á jafningjafræðslu og sjá um námskeið og fyrirlestra.  Þar ætti einnig að vinna að breyttu viðhorfi gagnvart hreyfihömluðu fólki í samfélaginu.  Fylgjast með nýjustu rannsóknum hér á landi og í útlöndum og hvetja til rannsókna á aðstæðum hreyfihamlaðs fólks.  Hrefna greindi frá því að hún hefði einnig unnið skýrslu fyrir framangreinda aðila um hvert skyldi vera hlutverk og markmið slíkrar miðstöðvar ásamt því m. a. að setja fram tillögur að verkefnum og starfssviði. 

Að síðustu flutti Magna Fríður Birnir hjúkrunarforstjóri Heilsustofnunar NLFÍ erindi um streituklínik og atvinnuendurhæfingu.  Magna fjallaði um hvernig einstaklingurinn getur notið jákvæðrar streitu og tekist á við neikvæða streitu.  Koma þar við sögu þættir eins og, streitugreining, streitustjórnun, streituþolþjálfun og upplifun á flæði.  Hún ræddi um að það væri eðlilegt að nútíma kröfur og þjóðfélagsleg kreppa kalli fram streituviðbrögð og uppgjöf.  Þá er mikils virði fyrir líkamlega og andlega heilsu að streitukerfi einstaklingsins fái reglulega hvíld og nái jafnvægi. Magna ræddi um neikvæða þætti streitu.  Einkennin eru helst, þreyta, svefnvandamál, vöðvaspenna, meltingartruflanir, hjartsláttartruflanir, höfuðverkur, einbeitingarskortur, áhyggjur, þráhyggja óþolinmæði og pirringur.  Hegðunarbreytingar geta verið, aukin áfengisneysla, auknar reykingar, lystarleysi eða ofát, eirðarleysi, minnkuð kynlífslöngun og tilhneiging til slysa.  Hún ræddi síðan um forsendur streitustjórnunar og talaði um órofa samspil, umhverfis, sálar og líkama. Magna vék að því að hvatamaður að stofnun Náttúrulækningafélags Íslands Jónas Kristjánsson læknir hefði lagt áherslu á að allir beri ábyrgð á eigin heilsu.  Magna kynnti helstu meðferðarform Heilsustofnunar.  Þau eru, viðtöl og greining, fræðsla og rágjöf.  Sjúkraþjálfun, nálastungur, sjúkranudd.  Leir- víxlheilsuböð, dáleiðsla, myndsköpun, gjörhygli, jóga og útivera.  Sárameðferð, sundkennsla, vatnsleikfimi, jafnvægisæfingar, Tai Chi og æfingar í tækjasal.  Einnig aðstoð til reykleysis og minnisþjálfun.  Magna lagði síðan áherslu á að markmið væru mikilvæg en enn mikilvægara væri þó að njóta ferðarinnar.

Góður rómur var gerður að erindum af ráðstefnugestum sem voru tæplega eitthundrað talsins. 

 

Tekið saman 25. mars 2010,

Tryggvi Friðjónsson gjaldkeri SFH

og framkvæmdastjóri Sjálfsbjargarheimilisins