Fréttir og tilkynningar

Öldrunarþjónustan áfram hjá ríkinu

gislipall

Undanfarin ár hefur undirbúningur að yfirflutningi öldrunarþjónustu frá ríki til sveitarfélaga staðið yfir. 13 manna nefnd var skipuð í nóvember 2011 og hefur nefndin haldið 10 fundi.  Þar að auki voru all nokkrar undirnefndir skipaðar til að skoða afmarkaða þætti verkefnisins.  Margir sérfræðingar hafa unnið með nefndunum og sjálfsagt nemur kostnaður nú þegar all mörgum milljónum króna fyrir utan mjög mikla vinnu starfsfólks velferðarráðuneytis og nefndarmanna.  Frá upphafi lá ljóst fyrir að til þess að öldrunarþjónustan gæti flust frá ríki til sveitarfélaga þyrfti að semja við hjúkrunarheimili landsins um uppgjör á lífeyrisskuldbindingum vegna starfsmanna lífeyrissjóðs LSR, b – deild og lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga.

 

Fjármálaráðuneytið dregur lappirnar

Samningaviðræður á vegum Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu og fjármálaráðuneytisins hafa staðið yfir í rúmlega sjö ár og enn virðist langt í land.  Samtökin hafa mætt afar litlum skilningi hjá yfirvöldum og samningsvilji virðist varla vera fyrir hendi.  Dragbítur á málið frá fyrsta degi hefur verið fjármálaráðuneytið.  Starfsfólk ráðuneytisins hefur slegið í og úr, lagt til lausnir sem eru síðan dregnar til baka nokkrum vikum síðar.  Allt hið undarlegasta mál og svo sannarlega ekki til eftirbreytni.  Engu að síður hafa fulltrúar sveitarfélaganna lagt  ríka áherslu á að ljúka þessum samningaviðræðum og ganga frá fortíð og framtíð þessa áður en að öldrunarþjónustan flyst yfir til sveitarfélaganna.

Komið í þrot

Nú þykir ljóst að ekkert verður af þessum yfirflutningi.  Málið virðist ætla að stranda á þessum lífeyrisskuldbindingum og leiða til þess að öldrunarþjónustan verði áfram hjá ríkinu.  Ég hef reyndar talað persónulega fyrir því að svo verði, frá því að þessi yfirflutningsumræða hófst og sýnist mér á öllu að ég hafi haft rétt fyrir mér allan tímann.

Höfundur er forstjóri og formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu

Úrdráttur:

Málið virðist ætla að stranda á þessum lífeyrisskuldbindingum og leiða til þess að öldrunarþjónustan verði áfram hjá ríkinu.