Hjúkrunarheimili landsins eiga í vandræðum með að láta enda ná saman. Fjárframlög til þeirra frá ríki hafa verið skorin niður þrjú ár í röð. Stjórnendur heimilanna hafa leitað allra leiða til að skera niður kostnað og nota naumt skammtaða fjármuni á sem skynsamlegastan hátt. Þriðji dýrasti rekstrarliður hjúkrunarheimila eru lyf og hefur hlutfall lyfjakostnaðar heldur hækkað á undanförnum árum.
Þegar nýir heimilismenn eru teknir inn á hjúkrunarheimili þá fá stjórnendur þeirra að velja einn af þremur einstaklingum sem sendar eru upplýsingar um. Þó það hljómi ef til vill kaldranalega þá hefur það færst í vöxt á undanförnum árum að lyfjanotkun þessara væntanlegu heimilismanna er skoðuð sérstaklega og ef einhver þessara þriggja er að nota mjög dýr lyf þá kemur hann ekki til greina sem nýr heimilismaður. Lyfjakostnaður einstaklings sem nemur nokkur hundruð þúsund krónum á mánuði veldur því að daggjaldið sem TR greiðir vegna viðkomandi, dugar alls ekki fyrir launum vegna umönnunar, fæðis, lyfja og annarra hluta sem innifaldir eru í daggjaldinu. Það er staðreynd að þeir öldruðu einstaklingar sem eru svo „óheppnir“ að þurfa á dýrum lyfjum að halda eiga miklu síður möguleika á að komast á hjúkrunarheimili heldur en hinir. Kaldhæðnin er svo sú að þessir sömu einstaklingar eru nánast undantekningalaust á sjúkrahúsi þannig að lyfjakostnaður þeirra er hvort sem er greiddur af ríkinu.
Þessi mál hafa verið til skoðunar í velferðarráðuneytinu í all nokkurn tíma án þess að lausn hafi fundist. Á meðan bíða þeir sem nota dýr lyf á sjúkrahúsum og verða þar væntanlega þangað til að búið er að leysa þetta vandamál. Vona að sú bið taki fljótlega enda.
Gísli Páll Pálsson, forstjóri og formaður Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu