Fréttir og tilkynningar

Ógnar kreppan öldruðum?

17125848091

Ég mun nálgast yfirskrift greinarinnar út frá hagsmunum aldraðra einstaklinga sem búa við heilsubrest og þarfnast hjúkrunar mestan hluta sólarhringsins.Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar 2007 var að finna sérstakan kafla sem fjallaði um ,,Bættan hag aldraðra og öryrkja”. Það var nýmæli að gera málefnum þeirra slík skil í stefnuyfirlýsingu. Bæta átti almannatryggingakerfið, hraða fjölgun hjúkrunarrýma um 400, efla átti sólarhringsþjónustu sem og einstaklingsmiðaða þjónustu. Heilbrigðisþjónusta skyldi verða á heimsmælikvarða, áhersla var á forvarnir og lækkun lyfjaverðs og fjármagn skyldi fylgja sjúklingnum. Jafnframt átti að bæta kjör kvenna í umönnunarstörfum. Ástæða þessa voru að í velferðasamfélaginu Íslandi höfðu þessi mál setið á hakanum og brýn þörf var á bragabót. Fólkið í landinu gerðist málsvarar aldraðra sjúklinga í aðdraganda kosninga 2007 og krafðist úrbóta þeim öldruðu sjúklingum til handa, sem vegna aðstæðna sinna hafa ekki haft afl til að verja hagsmuni sína. Áður en efnahagskreppan varð opinber, í júlí 2008, skilaði Umboðsmaður Alþingis áliti sínu á réttarstöðu aldraðra og stjórnsýslu á málefnum þeirra. Fjallaði hann m.a. um grundvallarréttindi aldraðra einstaklinga gagnvart opinberum aðilum, þegar breytingar verða á félagslegri og fjárhagslegri stöðu vegna aldurs sem og oft breytinga á heilsu. Vitnar hann í stjórnarskrána og stjórnskipunarlög  þar sem öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar meðal annars vegna elli. Aðstæður aldraðra væru oftar en ekki þannig að þeir eiga erfitt með að bera hönd fyrir höfuð sér og standa sjálfir vörð um þau réttindi sem þeim eru fengin með lögum. Umboðsmaður benti á að einmitt af  þeim ástæðum væri brýnt að réttindin væru skýr og þá einnig að það væri ljóst hvaða leiðir öldruðum og aðstandendum þeirra væru færar þegar þeir væru ósáttir við ákvarðanir um inntak þeirrar þjónustu og framlaga sem þeim væru veitt. Ýmis teikn voru á lofti um umbætur í málefnum aldraðra þegar kreppan hóf sýnilega innreið sýna. Undirbúningur var hafin að flutningi málaflokksins milli ráðuneyta með það að markmiði að undirbúa á næstu árum flutning frá ríkinu til sveitarfélaga.

  

Vistunarmatið

Gerðar höfðu verið breytingar á Vistunarmatsreglugerð til að tryggja öldruðum sjúklingum í biðplássum eftir húkrunarrými á Landspítalanum forgang umfram þá sem enþá gátu verið á eigin heimili. Við það fækkaði í þeim hópi sem beið á sjúkrahúsi og flæði sjúklinga inn og út af spítalanum batnaði. Hins vegar teygðist úr þeim tíma sem aldraðir sjúklingar búandi heima, þurftu að bíða. Margir hverjir voru í þeim aðstæðum að búseta heima hefði ekki reynst möguleg nema með mikilli umönnun fjölskyldu. Algengar varð að fólki væri neitað um að fá gert vistunarmat, jafnvel þó svo að hjúkrunarfræðingar í heimahjúkrun mæltu með því og væru sammála sjúklingnum og fjölskyldu hans að málin væru komin í þrot, búið væri dvelja heima eins og kostur væri.Fólk féllur ennfremur af vistunarskrá ef  matið er ekki endurnýjað á tilsettum tíma, þrátt fyrir að heilsu hraki og umönnunarbyrði fjölskyldu eykst. Fólk veit jafnvel ekki af því að það sé ekki lengur á biðlista. Breytingin leiddi einnig til þess að fólki er gert skylt að velja og tiltaka þau þrjú hjúkrunarheimili sem kæmu til greina. Síðan kom tilboð um hjúkrunarvistun á stað sem það kærði sig ekki um að fara á, eða að aðbúnaður var ekki fullnægjandi að þeirra mati t.d. fjölbýli í boði, eða að vistunin væri í öðru sveitarfélagi t.d. innan höfuðborgarsvæðsins. Fjölmörg dæmi eru um að fólk komist í öngstræti vegna ósanngjarnra reglna um úthlutun og verður vegna eigin aðstæðna að þiggja þann eina valkost sem borin er fram. Aðrir komast upp með að neita og fá að bíða eftir þeim kosti sem þeim finnst fýsilegur í stöðunni. Kvíðvænleg ógn vofir í raun yfir einstaklingum sem farin er af heilsu og er í mjög brýnni þörf fyrir sólarhringsþjónustu. Ásamt fjölskyldu sinni tekur við óvissutímabil um hvernig fer, hvaða aðbúnaður og hvaða þjónusta býðst nú þegar lífskeiðið tekur að styttast með svona harkalegum hætti. Í raun níðist sú eymd sem skorturinn á viðeigandi úrræðum er, á mannréttindum aldraðra sjúklinga. Réttindum sem varla yrðu t.d. boðin deyjandi krabbameinssjúklingi á miðjum aldri. AkureyriFólk er jafnvel ekki öruggt um búsetu sína, þó á hjúkrunardeild sé komið. Stjórnsýslan virðist geta stýrt málum eftir sýnu eigin höfði, þrátt fyrir stefnu ríkisstjórnar. Þannig gerðist sá ótrúlegi atburður í fyrirmyndarsveitarfélagi í málefnum aldraðra til margra ára,  Akureyrarbæ, um síðustu áramót að íbúar hjúkrunardeildar á Seli á Sjúkrahúsinu á Akureyri voru nauðugir fluttir heimilisbúsetu úr bænum út á Kristnesspítala. Flestir þeirra höfðu búið í einbýli en voru fluttir í fjölbýli, þvert á stefnu ríkisstjórnarinnar. Öldruðu sjúklingarnir fluttust í úrræði sem áður voru endurhæfingarrými, sem þar með voru aflögð. Aftur var brotið á stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar sem lagði ofuráherslu á forvarnir og að aldraðir gætu verið sem lengst á eigin heimili.Þessi aðgerð er varla skýrð öðruvísi en að aldurstengdir fordómar hafi ráðið ákvarðanatöku og forgangsröðun og er ekki dæmi um annað en vanhugsaðan, ómarkvissan niðurskurð sem bitnar á þeim sem minnst mega sín og geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér. Athyglisvert væri að könnuð yrðu afdrif þeirra sem þetta þurftu að þola. Alþjóðaheilbrigisstofnunin (World Health Organisation) og Alþjóðabankinn (The World bank) hafa lagt á það ríka áherslu við ríkisstjórnir þeirra landa þar sem efnahagsþrengingar ganga yfir að gæta þess sérstaklega að efnahagskrísa leiði ekki jafnfram til krísu í heilbrigðis- og félagsþjónustu. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin tekur sérstaklega fram að þau lönd sem hafa þurft að leita á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins séu í mun meiri áhættu hvað fjölgun á fylgikvillakrísum varðar. Ríkisstjórnir verði að vera vakandi yfir minnstu teiknum, standa vörð um hag þeirra efnaminnstu og þeirra sem ekki geta varið hagsmuni sína. Það var steinsofið á vaktinni þegar Sjúkrahúsið á Akureyri varð sér til skammar og kallaði hneisu yfir bæjarfélagið, á tíma þegar aldrei var meira áríðandi að standa við skuldbindingar við samfélagið og kosningaloforð. Þó að elstu borgararnir hafi einna mesta þol fyrir því að gengið sé á rétt þeirra, þá er það hvorki sanngirni né réttlæti að níðast á þeim. Ný ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir hefur í stefnuskrá sinni að markmið allra endurbóta í heilbrigðisþjónustu og almannatryggingakerfi eigi að vera jöfnuður, gott aðgengi, gæði, öryggi og hagkvæmni. Veita skuli heilbrigðisþjónustu við hæfi á viðeigandi þjónustustigi, óháð efnahag og búsetu. Stefna skuli að því að fólk geti búið heima eins lengi og kostur er og vilji er til , m.a. með því að samþætta heimaþjónustu og heimahjúkrun. Staðið verði við framkvæmdaáætlun um ný hjúkrunarrými fyrir aldraða. Það er mikið í húfi að samfélagið geti treyst fyrirheitum sem þessum. Framþróun má ekki stöðvast og stjórnvöld og almenningur þurfa sameiginlega að verja siðferðilega hlið stefnumótunar í  þeim málaflokkum sem hvað viðkvæmastir eru.  Ný vandamál koma í dagsljósið og hefur til að mynda hækkun lyfjaverðs um og yfir 60% á rúmu ári komið mjög illa við fjárhag aldraðra sem og rekstur heilbrigðisstofnana. Á sama tíma hefur orðið tekjuskerðing og verðlag á almennum vörum aukist. Ástæða er til að standa vörð um að aldraðir fái þau lyf sem þeir þarfnast og gæta þarf sérstaklega að því að spenna myndist ekki milli hópa um hvaða lyfjameðferðir eigi að hafa forgang. Fjölmargar lyfjameðferðir sem algengar eru hjá öldruðum seinka því að heilsufar versni vegna langvinnra sjúkdóma, auka félagslega virkni þeirra, sjálfsbjargargetu og lífsgæði. Árangur þess dregur úr þörf á dýrari úrræðum eins og hjúkrunarheimilisvistun. Viðvarandi skortur á starfsfólki til umönnunarstarfa breyttist verulega síðastliðið sumar, í kjölfar á kjarabótum til þessa hóps í samræmi við stefnu ríkisstjórnar. Mikilvægt er að standa vörð um þessar kjarabætur til að draga úr þeirri ógn sem skortur á starfsfólki hefur haft í för með sér á undanförnum árum.

Niðurskurður má ekki leiða til þess að dregið sé úr skipulagðri mönnun í umönnun til að tryggja viðeigandi þjónustu. Slík aðferð leiðir til minni kostnaðar til að byrja með en auknum kostnaði þegar fram í sækir og lífsgæði og líðan versna. Verulegar breytingar standa yfir á Landspítala og hefur Öldrunarsvið spítalans verið lagt niður. Standa þarf því sérstaklega vörð um að öldruðum sjúklingum sé tryggð nauðsynleg heilbrigðisþjónusta til jafns við aðra aldurshópa bæði í aðgengi að spitalanum og innan hans. Samþætting heimaþjónustu og heimahjúkrunar er hafin á vegum Reykjavíkurborgar. Mikilvægt er að sú mikla þjónustuaukning sem búið var að lofa öldruðum sjúklingum heim verði að veruleika. Litlar fregnir berast af því enn sem komið er, þrátt fyrir fögur fyrirheit. 

Efnahagskrísa kemur ekki í veg fyrir fjölgun í elstu aldurshópunum á komandi árum. Það er efnahagslega hagkvæmt, sé horft til framtíðar að verja velferðakerfið eins og kostur er, og byggja það upp til að mæta þörfum samfélagsins. Það verður að vera gert á trúverðugan hátt. Siðað þjóðfélag sýnir árvekni og vinnur að því að milda áhrifin af efnahagsþrengingum. Finna þarf snjallari leiðir en hingað til hafa verið notaðar, og draga þarf  úr hvers kyns sóun og tvöföldun  Skortur á úrræðum til handa þeim sem varnarlausir eru, er ekki í anda þeirra sanngirnissjónarmiða, jöfnuðar-og réttlætihugsjónar sem lesa má í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar.

Greinin byggir á erindi sem höfundur flutt á aðalfundi AFA aðstandendafélagi aldraðra18. maí 2009 í safnaðarheimili Breiðholtskirkju.