Okkur finnst stundum eins og allt standi í stað, sumir hlutir séu eins og þeir hafi alltaf verið, en er það svo ? Ég veit að mörgum úti í samfélaginu sem ekki þekkja til öldrunarstofnana segja oft að þetta séu forneskjulegir staðir fullir af gömlu fólki og sérstakri lykt.
Um þessar mundir eru 80 ár liðin síðan vígsla Grundar við Hringbraut átti sér stað og síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Hægt er að fullyrða að alla tíð hafa stjórnendur og starfsmenn haft metnað til að vera í fremstu röð og gera sem best á hverjum tíma.
Í Seljahlíð þar sem ég starfa má segja að stöðugar breytingar hafi verið í gangi allt frá því heimilið opnaði 1986. Bæði vegna nýrra strauma í þjónustu og eins húsnæðislega. Seljahlíð var opnuð sem dvalarheimili 1986 og er því rétt að ná 25 árum næsta vor. Vorið 1991 var vesturenda fyrstu hæðar breytt og gerð hjúkurnardeild með 13- 14 legurýmum, allt tvíbýli og 1997 var sú deild stækkuð í 28 legurými, þar af voru 8 tvíbýli þar sem íbúar hafa þurft að deila salerni og baðaðstöðu með öðrum.
Mikil umræða hefur verið í samfélaginu um að þegar fólk flytur á dvalar- eða hjúkrunarheimili tapi það fjárforræði sínu og þar með að vissu marki sjálfræði sínu, því tekjur sem það áður hafði frá Tryggingastofnun ganga nú til „stofnunarinnar“ sem það flytur á. Á þeirri forsendu var enn breytt árið 2000, dvalarrými skildu lögð af og þjónustuíbúðaform tekið upp í staðinn, en þá heldur fólk tekjum sínum en leigir íbúðirnar og greiðir þjónustugjöld sem líkja má við húsgjöld í fjölbýlishúsum. Það greiðir einnig fyrir þær máltíðir sem það þiggur, lyfin sín, greiðir fyrir þvotta og alla heimaþjónustu.
Við þessa breytingu var ákveðið að halda inni þjónustu fagfólks þ.e. lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða, félagsliða og sjúkraþjálfara eins og verið hafði fyrir íbúa dvalarrýma og þjónustugjöldin því höfð eilítið hærri, en annars staðar í þjónustuíbúðum Reykjavíkurborgar, þar sem ekki er um slíka þjónustu að ræða. Sýnt hefur verið fram á með óyggjandi hætti að það að hafa fyrirkomulagið á þennan hátt er þjóðhagslega hagkvæmt, þ.e. miklir fjármunir hafa sparast vegna mun færri innlagna á sjúkrahús og færri legudaga að baki hverri innlögn ef til innlagnar hefur komið, ennfremur að flestir deyja heima. Einnig má bæta því við að einstaklingar sem eru í ríkri þörf fyrir heilsufarslegt eftirlit og fagþjónustu fá stundum frekar úthlutað þjónustuíbúð hjá okkur en í aðra þjónustuíbúðakjarna.
Snemma árs 2009 var settur á laggirnar starfshópur sem koma átti með tillögur um uppbyggingu og þróun í þjónustuíbúðum Reykjavíkurborgar sá hópur skilaði skýrslu sinni sl. vor. Þar er eindregið bent á þann þjóðhagkvæmislega kost að bjóða aukna heilbrigðisþjónustu inn í þessa þjónustuíbúðakjarna sem fæli í sér eftirlit með heilsufari og ekki síst forvörnum.
Áfram hélt umræðan um mannsæmandi aðbúnað aldraðra, og nú þykir það að þurfa að deila herbergi með öðrum alls ókunnugum á síðustu mánuðum lífsins ekki forsvaranlegt svo enn var farið í að breyta og nú hafa tvíbýlin verið lögð niður og lauk þeirri breytingu árið 2008. Hjúkrunarrými eru því 20 í dag, allt 28 fm. einbýli með salerni og sturtu, en eftir er að gera endurbætur á þeim íbúðum sem gerðar voru að tveggja manna sjúkrastofum 1991en þá voru m.a. eldhúsinnréttingar fjarlægðar úr íbúðunum til að skapa rými fyrir tvö hjúkrunarrúm. „Hjúkrunardeildin“ hefur einnig verið á þessum ákveðna stað á heimilinu og þar starfað fastur hópur starfsmanna. Í gegnum tíðina hefur það verið reynsla okkar að þegar skjólstæðingar okkar þurftu orðið meiri umönnun var það mjög erfitt fyrir þá að flytjast á milli tveggja nákvæmlega eins íbúða og kynnast nýju starfsfólki. Því er það svo nú að starfsfólkinu er raðað á einingarnar eftir hjúkrunarþörf hverju sinni, eftir dagskipan hjúkrunarfræðinga . Þarna sparast auk þess kostnaðarsamir flutningar sem koma til vegna íbúðaskipta eins og málning, flutningur á síma o.fl. Þeir sem hafa komið til okkar í þjónustuíbúð en þurfa svo áður en yfir lýkur hjúkrunarrými eru þá áfram í sínum íbúðum, eina breytingin verður að þurfi íbúar mikið af plássfrekum hjálpartækjum er óskað eftir því að minnkað sé í búslóð íbúa ef þurfa þykir.
Þessi stefna er í fullu samræmi við hugmyndir félags – og tryggingamálaráðu-neytisins. Á grundvelli skýrslu sem gerð var um framtíð Seljahlíðar í ársbyrjun 2008, var fundur með fulltrúum ráðuneytisins um hvort gera ætti tilraunaverkefni til 3ja ára um að íbúar sem búa hér í þjónustuíbúðum en fá vistunarmat um hjúkrunarrýmisþörf þurfi ekki að missa tekjur sínar, heldur haldi þeir áfram að greiða fyrir sig eins og áður en frá ráðuneytinu komi „einhvers konar gjald“ til að mæta auknum kostnaði heimilisins við íbúann. Nú nýverið var dustað rykið af þessari skýrslu og viðræður eru nú á haustdögum að fara í gang að nýju um hvort hægt verði að halda áfram þar sem frá var horfið.
Markmið fyrirhugaðra breytinga í Seljahlíð heimili aldraðra er að bjóða upp á nýja valkosti fyrir aldraða hvað varðar þjónustu – og búsetumál. Einnig að mæta kröfum aldraðra og þjóðfélagsins um fullt sjálfræði og sjálfstæði og aðlögun þjónustu að þörfum hvers og eins.
Að þjónustuíbúðir séu valkostur hins aldraða í samhæfðu þéttu þjónustuneti (heilbrigðis-og félgsþjónustu) þar sem tök eru á að veita efsta stig sérhæfðar meðferðar.
Allir eiga rétt á einkarými og þjónustan á að byggjast á virðingu, tillitsemi og hvatningu. Mikilvægt er að fallið sé frá þeirri tilhneigingu að líta á öldrun sem sjúkdóm, heldur er öldrun eðlileg afleiðing þess að ná háum aldri. Upphefja þarf sjálfsbjargargetuna en líta hjá hvers kyns fötlun.
Forsenda framsýni er forvitni og upplýsingaöflun. Fylgjast þarf með hverjir eru að standa sig best í málaflokknum og hvaða aðferðum þeir eru að beita. Síðast en ekki síst, hvers óska þeir sem eru að þiggja þjónustuna. Það er nú einmitt þannig að líta ber á ábendingar og/eða kvartanir viðskiptavina sem ókeypis ráðgjöf til þeirra sem stjórna því hvar og hvernig þjónusta skuli veitt. Hlustum því eftir ábendingum og reynum ávallt að gera betur í dag en í gær, því svo lengi lærir sem lifir. Þessi þjónusta eins og önnur hefur því breyst í takt við tíðarandann eða átt sögulega samleið með framþróun á öllum sviðum lífsins.
Mikilvægast er að allir sem vinna í þessum geira geri sér grein fyrir því að við erum að vinna á heimilum fólks – fólkið býr ekki á vinnustaðnum okkar.
Margrét Ósvaldsdóttir
forstöðumaður Seljahlíðar