Fréttir og tilkynningar

Ræða formanns á aðalfundi SFH

gislipall

Kæru félagsmenn, góðir gestir

Velkomin á aðalfund Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu.  Eins og þið hafið eflaust orðið vör við ákvað stjórnin að bjóða nokkrum hagsmunaaðilum á aðalfundinn til að kynna þeim starfsemi samtakanna. Þetta eru þeir sem við eigum í mestum samskiptum við, einstaklingar úr ráðuneytum, frá landlækni, stéttarfélögum og samtökum aldraðra. Þetta er þriðji aðalfundurinn sem ég flyt ykkur skýrslu stjórnar og fer yfir það helsta sem við höfum verið að sýsla í vetur. Af mörgu er að taka. Á síðasta aðalfundi sem haldinn var hjá SÁÁ í apríl í fyrra voru auk mín kosin í stjórn þau Ásgerður Björnsdóttir, Finnbogi Björnsson, Pétur Magnússon og Tryggvi Friðjónsson og til vara þau Jóhann Árnason og Margrét Ósvaldsdóttir. Stjórnin var endurkjörin óbreytt frá fyrra ári og skipti með sér verkum á þann veg að Pétur var kosinn varaformaður, Ásgerður ritari og Tryggvi gjaldkeri. Varastjórnarmenn eru ávallt boðaðir á stjórnarfundi og mæta jafnt á við aðra. Við höfum haldið 9 stjórnarfundi auk stefnumótunarfunds sem varði í einn sólarhring í Skálholti. 

Nýtt aðildarfélag gekk til liðs við samtökin snemma á þessu ári, Krabbameinsfélag Íslands. Ég býð Ragnheiði Haraldsdóttur forstjóra og hennar starfsfólk velkomin í samtökin og hlakka til samstarfsins. Stjórnin hefur unnið að því að fá fleiri til liðs við samtökin og mun sú vinna halda áfram á næstu misserum.

Á árlegum stefnumótunarfundi stjórnar sem haldinn var í Skálholti í lok september á síðasta ári voru línur lagðir fyrir starfið í vetur.

Meðal þess sem stjórnin ræddi og ákvað að leggja áherslu á í vetur í röð mikilvægis, var yfirfærsla málefna aldraðra frá ríki til sveitarfélaga, greiddar lífeyrisskuldbindingar og skuldbindingar til framtíðar, gerð þjónustusamninga, samráð við ráðuneyti, innheimta kostnaðarhlutdeildar heimilismanna hjúkrunarheimila, fá til liðs við okkur ný aðildarfélög, auka samstarf milli framkvæmdastjóra, launafulltrúa og efla heimasíðu, skoða liklega framtíð vistunarmatskerfisins, öryggismörk þjónustu og nafnabreyting samtakanna. Þar að auki var samþykkt að halda tvær ráðstefnur. Ég mun koma inn á flest þessara atriða hér á eftir í skýrslu stjórnar.