Fréttir og tilkynningar

Ræða formanns á aðalfundi SFH

gislipall

Yfirfærsla málefna aldaðra frá ríki til sveitarfélaga er eitt stærsta málið sem SFH hefur staðið frammi fyrir frá stofnun samtakanna. Málefni fatlaðra voru flutt frá ríki til sveitarfélaga um síðastliðin áramót. Undirbúningur þess flutnings hafði staðið yfir í mörg ár með all nokkrum hléum. Nauðsynlegar lagabreytingar af hálfu Alþingis voru í undirbúningi allt síðasta ár, að því ég best veit, og kom frumvarp um flutninginn ekki til umræðu og afgreiðslu í þinginu fyrr en í lok árs. Í raun allt of seint til þess að raunhæft gæti talist að fjallað yrði um þetta mikilvæga mál á eðlilegan og raunsæan hátt. Því miður virðist þetta vera íslenska leiðin, undirbúningur er óviðunandi, þiggjendur þjónustunnar, hinir fötluðu, og aðstandendur þeirra vissu lítið um hvernig mál myndu þróast og starfsfólk bjó við verulega óvissu varðandi starfsöryggi og starfsréttindi. Þetta má ekki endurtaka sig við flutning málefna aldraðra frá ríki til sveitarfélaga. Stjórn SFH hefur lagt mikla áherslu á að undirbúningur verði vandaður og sagan um flutning málefna fatlaðra má ekki endurtaka sig. Þáttur í þessum undirbúningi af okkar hálfu var að halda ráðstefnu um þetta mál fimmtudaginn 11. nóvember síðastliðinn. Til stóð að fá Guðbjart Hannesson heilbrigðisráðherra til að ávarpa fundinn en hann forfallaðist á síðustu stundu. Undirritaður flutti ávarp þar sem ég talaði heldur gegn þessum áformum, að minnsta kosti varaði ég við því að undirbúningur þyrfti að vera meö öðrum og betri hætti, en var við yfirflutning málefna aldraðra. Halldór Halldórsson formaður Sambands sveitarfélaga flutti ávarp þar sem hann ítrekaði skoðun sína að þessi flutningur gæti í raun ekki átt sér stað fyrr en í fyrsta lagi 1. janúar 2013 eða jafnvel 1. janúar 2014. Það var skynsamlega mælt. Auk þess fluttu ávörp þær Berglind Magnúsdóttir forstöðumaður heimaþjónustu Reykjavíkur og Ragheiður Ríkharðsdóttir alþingiskona. Umræður urðu all góðar og voru flestir fundargesta sammála því að ekki væri nægjanlegur tími til þess að þessi flutningur ætti sér stað um næstu áramót svo vel yrði. Í framhaldi af þessu leitaði Guðjón Bragason sviðsstjóri lögfræði- og velferðarsviðs hjá Sambandi sveitarfélaga, eftir fundi með SFH til að ræða væntanlegan flutning málefna aldraðra. Sá fundur var haldinn 30. nóvember sl. og mættu á fundinn af okkar hálfu auk mín úr stjórn SFH þeir Pétur, Tryggvi og Jóhann. Auk Guðjóns frá Sambandinu mættu formaður og framkvæmdastjóri og tveir aðrir starfsmenn. Þessi fundur var góður. Sömu áherslur formannsins sem komu fram á ráðstefnunni um tímasetningu yfirfærslunnar voru ítrekaðar. Við fórum yfir nokkur praktísk mál sem snúa að yfirfærslunni meðal annars ófrágengin mál sem snúa að greiddum og áföllnum ógreiddum lífeyrisskuldbindingum b – deildar lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga. Meira um það mál síðar. Fundarmenn voru sammála um að halda annan slíkan fund en af honum hefur ekki orðið enn. Náum honum vonandi fyrir sumarleyfi.

Það nýjasta í málinu er að velferðarráðherra hefur ákveðið að skipa nefnd til að fjalla um flutning málefna aldraðra til sveitarfélaga. Velferðarráðuneytið mun skipa formann nefndarinnar en þar að auki kemur einn frá fjármálaráðuneyti, einn frá innanríkisráðuneyti, einn frá Samstarfsnefnd um málefni aldraðra og einn frá Öldrunarráði Íslands. Þar að auki koma tveir fulltrúar frá Sambandi sveitarfélaga og tveir frá Landsambandi eldri borgara. Tilnefningar áttu að berast fyrir 1. apríl og 29. mars sl. fór ég fram á það í bréfi til velferðarráðherra, að SFH fengi fulltrúa í nefndinni. Ráðherra brást vel við og leitaði eftir tilnefningu frá SFH og var ég tilnefndur í nefndina fyrir okkar hönd síðastliðinn föstudag. Eins og ég hef marg oft ítrekað, þá er lykilatriði að undirbúningur þessa máls verði með betri hætti en þegar málefni fatlaðra voru flutt yfir. Því tel ég algjörlega óraunhæft að þetta geti orðið um næstu áramót, þó mig renni í grun að það sé enn það sem velferðarráðherra hyggist gera. Að loknum aðalfundarstörfum mun Halldór Halldórsson formaður Sambands sveitarfélaga flytja erindi um málið og í framhaldi getum við rætt málið enn frekar. SFH munu gera allt sem við getum til þess að tryggja farsælan endi á þessu míkilvæga máli.

Lífeyrisskuldbindingar eru hitt stóra málið sem við höfum verið að vinna að undanfarið starfsár.   Þrátt fyrir að samningar um lausn málsins við fjármála- og velferðarráðuneyti hafi tekið mörg ár þá er ég enn bjartsýnn á að viðeigandi lausn málsins. Eftir nokkra fundi með Viðari Helgasyni lagði hann til að skipuð yrði nefnd með fulltrúum ráðuneyta fjármála og velferðar auk okkar til að finna viðeigandi lausn fyrir báða aðila. Stjórn SFH skipaði mig, Andra Árnason lögfræðing samtakanna og Hörpu Gunnarsdóttur fjármálastjóra Hrafnistu sem fulltrúa SFH í umrædda nefnd. Á fundi með fulltrúum fjármála- og velferðarráðuneytis sem haldinn var fyrr á þessu ári komu fram hjá fulltrúum ráðuneytanna ákveðnar efasemdir um þá fullyrðingu okkar að ríkið hefði aldrei greitt okkur fjármuni vegna þessara lífeyrisskuldbindinga, hvorki þeirra sem við erum að greiða mánaðarlega í dag né þeirra sem við komum til með að greiða í framtíðinni. Í framhaldi af þessu áttum við fund með fulltrúum lífeyrissjóðanna, það er b – deild lsr og lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga. Sem betur fer kom fram á þeim fundi að við höfðum rétt fyrir okkur. Ríkið hefur sannanlega ekki greitt okkur neitt vegna þessara lífeyrisskuldbindinga. Þá var aftur fundað með ráðuneytismönnum um miðjan mars síðastliðinn og niðurstaða þess fundar var að okkur var falið að semja drög að samkomulagi hvernig leysa mætti málið. Ljóst er að við náum ekki að taka sveitarfélagastofnanir með í þetta uppgjör. Ríkið vill gera upp fleiri mál við sveitarfélögin og taka lífeyrisskuldbindingamálið inn í það uppgjör. Þá telur ríkið að sá kostnaður vegna lífeyrisskuldbindinga sem hlaust af rekstri dvalarheimila sé alfarið á ábyrgð sveitarfélaganna og að ríkið komi ekki til með að greiða neitt vegna dvalarrýmanna. Við sendum drög að samkomulagi til Viðars fyrir um 10 dögum síðan. Megin þættir samkomulagsins eru í fyrsta lagi að greiðslum aðildarfélaganna á lífeyrisskuldbindingum verði hætt frá og með 1. apríl, í öðru lagi að endurgreiðsla vegna lífeyrishækkana sem greiddar hafa verið árið 2011 (og þá janúar til mars) verði gerð í tengslum við fjáraukalög árið 2011 eða í haust og þriðja lagi að gerður verði samningur á milli aðila varðandi endurgreiðslu á greiddum lífeyrishækkunum frá aðildarfélögunum frá árinu 2001 til og með ársins 2010. Miðað skal við að endurgreiðsla fari fram á fimm ára tímabili frá 2012 – 2017. Þar að auki eru nokkrir viðbótarliðir sem snúa að tæknilegri útfærslu ofangreindra atriða. Svar barst frá Viðari í síðustu viku þar sem hann staðfestir móttöku þessa og vonast til að verða í sambandi við mig fyrir páska. Ég mun gera allt hvað ég get til þess að þetta dragist ekki á langinn. Ég er enn bjartsýnni nú en áður að þetta mál leystist á þessu ári. Við höfum komið því skýrt á framfæri við forsvarsmenn Sambands sveitarfélaga að þessi mál þurfi að leysa áður en kemur að flutningi málaflokksins frá ríki til sveitarfélaganna og þessi staðreynd ýtir að mínu mati á eftir lausn málsins. Þar að auki virðist vera raunverulegur áhugi hjá fjármálaráðuneytinu til þess að leysa málið. Ég hef fulla trú á því að á næsta aðalfundi að ári þá munum við fara yfir með hvaða hætti okkur tókst að leysa þetta mál. Ég vil nota tækifærið og þakka Andra og Hörpu kærlega fyrir vel unnin störf í þessu mikilvæga og viðamikla máli.

Á starfstímabilinu hefur ekki mikið verið að gerast í samningamálum á vettvangi launanefndar SFH.  Gengið var til samninga við Sjúkraliðafélag Íslands um breytingar og framlengingu á gildandi kjarasamningi milli aðila.  Meginbreytingin fólst í nýrri launatöflu, eingreiðslum og breytingum á greiðslu 15 mínútna greiðslu vegna matar- og kaffitíma vaktavinnufólks í 25 mínútur.  Samningurinn grundvallaðist á þeim kjarasamningum sem voru gerðir við stéttarfélög haustið 2009 sem vísuðu í stöðugleikasáttmálann.  Eftir nokkra fundi tókast að ljúka samningum 19. nóvember síðastliðinn.  Ríkið hafði gert hliðstætt samkomulag við sjúkraliða 14. október síðastliðinn.  Á vettvangi SFH hefur verið barist fyrir því að fá launabætur vegna kjarasamninga að fullu viðurkenndar.  Liður í þeirri baráttu er að fyrir liggi nákvæmar upplýsingar um hvert vægi hverrar stéttar er í launum hjá aðildarfélögunum.

Nokkrir samráðsfundir hafa verið haldnir milli Eflingar og Hlífar annars vegar og launanefndar SFH hins vegar.  Viðræðuáætlun við Eflingu Hlíf vegna komandi kjarasamninga var undirrituð 19. október síðastliðinn.

Enn sem komið er hafa ekki verið haldnir fundir með stéttarfélögum vegna komandi kjarasamninga sem allir hafa verið lausir síðan 1. desember í fyrra.

Sjúkraliði sem starfar á Grund hefur höfðað mál til að fá viðurkennt að 25 mínútna álag verði ávallt greitt í yfirvinnu og að í vetrarfríum verði ekki eingöngu grunnlaun greidd heldur meðaltal heildarlauna. Stjórn SFH samþykkti að Andri lögfræðingurinn okkar tæki til varna í málinu og kostnaður vegna málsins yrði greiddur af SFH þar sem þetta er prófmál. Niðurstaðan verður fordæmisgefandi og líkur á að niðurstaðan, á hvorn veg sem hún verður muni hún ganga yfir alla línuna hjá okkur.    

Í launanefndinni eiga sæti, Tryggvi Friðjónsson formaður, Kristín Sigurþórsdóttir varaformaður og aðrir nefndarmenn eru þau Ágúst Jónatansson, Ingibjörg Kjartansdóttir og Lucia Lund.

Almennur félagsfundur var haldinn 11. nóvember sl. Á þann fund mættu þau Vilborg Ingólfsdóttir deildarstjóri í velferðarráðuneyti, Steingrímur Ari Arason forstjóri Sjúkratrygginga Íslands og Kristján Þór Árnason frá hugbúnaðarfyrirtækinu Gott dagsverk. Fundarefnið var gerð þjónustusamninga við dvalar- og hjúkrunarheimilin og ræddu þau Vilborg og Stengrímur Ari málið á hreinskilinn og opinn hátt. Steingrímur Ari nefndi sérstaklega að ástandið í ríkisfjármálum væri með þeim hætti í dag að því miður væri ekki í öllum tilvikum í raun hægt að standa við gerða samninga. Með öðrum orðum þá gaf hann það út, að í einhverjum tilvikum yrði ekki staðið við þessa samninga, sem reyndar er ekki enn búið að gera, og er sú staðreynd auðvitað grafalvarlegt mál. En þetta er engu að síður sá raunveruleiki sem við búum við í dag. Vilborg lagði áherslu á að gerð þessara þjónustusamninga yrði hraðað eins og kostur væri. Hún nefndi líka að undir væntanlegt sameinað velferðarráðuneyti, en sú sameining átti sér stað um síðastliðin áramót, heyrðu 65 stofnanir sem veittu öldrunarþjónustu og af þessum 65 væru sjö með formlega samninga. Það á sem sagt eftir að gera samninga við 58 stofnanir og nú um miðjan apríl hafa engar viðræður við samtökin eða einstaka öldrunarstofnanir átt sér stað, að því ég best veit. Mín skoðun er sú að dráttur á gerð þessara samninga eigi að hluta til skýringu í því, að með því að skilgreina ítarlega þá þjónustu sem þessum stofnunum beri að veita, þá komist ríkisvaldið að því að kostnaður vegna þessa sé í raun mun hærri en nemi þeim greiðslum sem ríkið er að greiða til okkar í dag og því hugnist ríkisvaldinu frekar að draga málið á langinn. Eins og ég nefndi á síðasta aðalfundi þá skipaði stjórnin undirbúningsnefnd vegna gerð þjónustusamninganna undir forystu Péturs á Hrafnistu sem sæti áttu í auk hans, þau Guðjón Guðmundsson, Harpa Gunnarsdóttir, Jóhann Árnason og Júlíus Rafnsson. Ásgerður Björnsdóttir starfaði með nefndinni í upphafi. Nefndin fundaði nokkrum sinnum og útbjó reiknilíkan til þess að sjá hvaða rekstrarþátta þyrfti að taka tillit til við gerð þjónustusamninganna. Þessi undirbúningsvinna nefndarinnar mun koma sér mjög vel við gerð samninganna. Eitt af því sem kom fram í máli Steingríms Ara voru áhyggjur hans af því, að í einhverjum tilvikum gæti verulega hár lyfjakostnaður einstaklings sem þyrfti að komast á hjúkrunarheimili orðið til þess, að hann yrði alls ekki valinn úr hópi þeirra þriggja kandidata sem stjórnendur heimilanna geta valið úr þegar pláss losnar. Hann taldi þetta vera raunverulegt vandamál í dag, en hafði svo sem ekki tillögu að lausn málsins. Stjórn SFH ákvað að fela mér og Pétri varaformanni að kanna málið og leita lausna. Við Pétur höfum skoðað þetta og munum vonandi eiga fljótlega fund með viðeigandi aðilum í velferðarráðuneyti um þetta mikilvæga mál. Það er auðvitað ólíðandi að hár lyfjakostnaður einstaklings geti valdið því að hann komist ekki á hjúkrunarheimili, þarfnist hann þess. Miklar og gagnlegar umræður urðu á fundinum um gerð þjónustusamninganna og tengd málefni og voru flestir fundarmenn sammála því að mikilvægt væri að ganga frá þeim sem allra fyrst. Enn og aftur ítreka ég þá skoðun mína að samstaða okkar allra sem erum aðilar að SFH er nauðsynleg til þess að hagstæðir samningar náist. Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér. Kristján frá Góðu dagsverki fór svo í lokin stuttlega yfir heimasíðu samtakanna og leiðbeindi fundarmönnum með hvaða hætti þeir gætu skráð sig inn á innri síðu samtakanna, en þar geta framkvæmdastjórar og forstjórar annars vegar skipst á skoðunum og svo hins vegar launafulltrúar. Þá ákvað stjórnin að birta fundargerðir stjórnar á þessari innri síðu sem stjórnendur aðildarfélaganna hafa einir aðgang að. Ég tel að þessir almennu félagsfundir okkur séu afar nauðsynlegir. Góð umræða á sér stað á þessum fundum og áhugaverð málefni eru til umfjöllunar.

Innheimta dvalar- og hjúkrunarheimila vegna greiðsluþátttöku heimilismanna er annað mál sem við höfum verið að skoða. Stjórnin fól Pétri varaformanni að vinna að úrlausn málsins sem felst fyrst og fremst í því að fá Tryggingastofnun ríkisins til að sjá alfarið um þessa innheimtu en ekki koma henni yfir á okkur. Pétur fékk Guðjón á Höfða með sér í málið og hittu þeir velferðarráðherra og ræddu málið við hann. Ráðherra nefndi að til stæði að endurskoða þessi lög og þegar það yrði gert þá yrðu þessi innheimtumál skoðuð sérstaklega. Ekki voru nefndar tímasetningar á þessum málum en við verðum að vona það besta.

Einn af áherslupunktum vetrarins eins og hingað til var ráðstefnuhald. Stjórnin ákvað á fundi sínum í Skálholti að halda tvær ráðstefnur í vetur. Sú fyrri var haldin fyrir áramót eins og áður var nefnt og fjallaði um yfirflutning á málefnum aldraðra frá ríki til sveitarfélaga og verður ekki fjallað um frekar hér. Seinni ráðstefnan átti að vera í mars en stjórnin ákvað að sleppa því að halda hana. Tilgangurinn með þessu ráðstefnuhaldi er að mínu mati tvíþættur. Annars vegar kynning og umræða um sjálft efni ráðstefnunnar og hins vegar að vekja athygli á samtökunum okkar, gagnvart stjórnvöldum, ýmsum hagsmunasamtökum og almenningi. Þó að kostnaður við hverja ráðstefnu nemi nokkur hundruð þúsundum króna, þá tel ég að þeim fjármunum sé vel varið.

Í vetur hefur borið á umfjöllun um þjónustu og mönnun hjúkrunarheimila hér á landi. Í ársbyrjun var gefið í skyn að dauðsföll væru umfram það sem eðlilegt gæti talist og fagmenntaðir starfsmenn færri en gott þykir. Þá var umfjöllun um gæðamálefni heimilanna í Kastljósi. Landlæknir svaraði hluta þessarar gagnrýni og í ljós kom að dauðsföll voru ekki óeðlilega mörg. Í mars áttum við síðan fund með landlækni og fulltrúum hans um málið. Niðurstaða þess fundar varð að efna til sameiginlegs fundar um málið í byrjun maí og fara yfir það sem betur má fara. Gagnrýni er ávallt góð en hún verður að eiga við rök að styðjast. Að sjálfsögðu væri æskilegt að fá meira fjármagn til reksturs hjúkrunarheimila en þannig er bara ekki staðan hjá ríkissjóði eins og er. Við sem stjórnum þessum heimilum gerum okkar besta til þess að mönnun sé sem hagkvæmust og best, fyrst og fremst fyrir heimilismennina okkar. Það kann ekki alltaf að vera litið á slíka mönnun með velþóknun forsvarsmanna einstakra stéttarfélaga en við því er lítið hægt að gera.

Fjárhagsstaða félagsins er traust. Við eigum svo sem ekki digra sjóði en undir öruggri stjórn Tryggva Friðjónssonar gjaldkera eru þessi mál í góðu lagi. Rekstur félagsins kostar um sex milljón krónur á ári, sem að mínu mati getur ekki talist há fjárhæð miðað við hversu umfangsmikil starfsemi félagsins er. Nokkur umræða hefur farið fram í stjórn SFH um aðildargjöldin og þá helst hvort breyta ætti útreikningi aðildargjaldanna. Í dag eru þau reiknuð út frá framlagi ríkisins til viðkomandi stofnunar en þar að auki er dregin frá húsaleiguframlag til SÁÁ og Sóltúns þar sem slíkar greiðslur eiga sér ekki stað til annarra aðildarfélaga. Þar að auki reiknast ekki hlutfall af sértekjum hvers aðildarfélag til aðildargjaldsins eins og til dæmis hjá SÁÁ og fleiri aðildarfélögum. Nú var Krabbameinsfélagið að ganga til liðs við okkur og talsverður hluti tekna þess félags kemur annars staðar frá en frá ríkinu. Því kom það upp í þessum vangaveltum stjórnar, hvort að ekki væri rétt að breyta þessum útreikningum á þann hátt að það væri einfaldlega prósentuhlutfall af öllum tekjum viðkomandi aðildarfélags sem væri notað til að ákvarða aðildargjöldin. Verði af þessari breytingu, sem gæti reyndar ekki orðið fyrr en á næsta aðalfundi að ári, þá þýðir þetta vissulega hlutfallslega hærri greiðslur hjá þeim aðildarfélögum sem eru með hátt hlutfall sértekna af heildartekjum en væntanlega réttlátara kerfi en það sem við búum við í dag. Það væri gagnlegt að fá skoðanir ykkar á þessu máli hér að eftir í umfjöllun um skýrslu stjórnar.

Eins og koma fram í fundarboði þá mun Halldór Halldórsson formaður Sambands sveitarfélaga flytja erindi að loknum aðalfundinum um fyrirhugaðan flutning málefna aldraðra frá ríki til sveitarfélaga. Ég vonast til að loknu erindinu munum við eiga gagnlegar umræður málefnið.

Þessi vetur hefur verið afar skemmtilegur og annríkur. Margt hefur tekist vel til í starfinu en eins og alltaf þá er ýmislegt sem má betur fara. Þetta yfirlit mitt yfir síðastliðið starfsár getur aldrei orðið tæmandi og vonandi verða gagnlegar umræður hér á eftir um starfsemi SFH. Ég hvet ykkur til að taka til máls og láta heyra í ykkur. Aðeins þannig getum við lagfært og bætt það sem betur má fara. Eðli máls samkvæmt geta gestir ekki tekið þátt í umræðu um skýrslu stjórnar eða reikninga félagsins en þeim er velkomið að taka til máls undir liðnum önnur mál. Ég vil þakka meðstjórnarmönnum mínum kærlega fyrir mjög gott samstarf og samninganefndinni fyrir vel unnin störf. Ég hef ákveðið að bjóða mig aftur fram til formanns SFH og vonast til að njóta trausts ykkar til að gegna því embætti áfram

Gísli Páll Pálsson,

formaður Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu

Flutt á aðalfundi SFH haldinn hjá Hrafnistu Boðaþingi mánudaginn 11.apríl 2011