Kæru félagsmenn, góðir gestir
Verið velkomin á aðalfund Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu. Ég vil byrja á því að þakka stjórnendum Seljahlíðar kærlega fyrir að taka á móti okkur.
Ég býð sérstaklega velkominn á þennan fund Landlækni, Birgi Jakobsson, en hann mun að loknum aðalfundi halda stutt erindi sem nefnist: „Heilbrigðiskerfið og áherslur Embættis landlæknis.“ Ef spurningar vakna að loknu erindinu er hann eflaust fús að svara þeim eftir bestu getu.
Á síðasta aðalfundi sem haldinn var á Grund fyrir tæpu ári, voru auk mín kosin í stjórn, þau Ásgerður Björnsdóttir, Björn Bjarki Þorsteinsson, Kristján Sigurðsson, Margrét Ósvaldsdóttir, Pétur Magnússon og Ragnheiður Haraldsdóttir. Allir þáverandi stjórnarmenn voru endurkjörnir. Stjórnin skipti með sér verkum á þann veg að Pétur var kosinn varaformaður, Margrét ritari, Ásgerður gjaldkeri og Kristján formaður launanefndar samtakanna. Við höfum frá síðasta aðalfundi haldið 10 stjórnarfundi, stefnumótunarfund sem varði í einn sólarhring í Skálholti og nokkra félagsfundi. Í fyrsta skipti í sögu samtakanna héldum við líka auka aðalfund. Nánar að því síðar.
Á árlegum stefnumótunarfundi stjórnar sem haldinn var í Skálholti í byrjun september á síðasta ári voru línur lagðar fyrir vetrarstarfið. Þar var samþykkt að leggja áherslu á mörg mikilvæg mál. Ráðstefnuhald, mönnunarmál aðildarfélaga, samvinnu við Ríkisendurskoðun vegna skýrslu um rekstrarniðurstöðu hjúkrunarheimila árið 2013, lífeyrisskuldbindingar, gerð þjónustusamninga við Sjúkratryggingar Íslands, álagsmælingar starfsmanna og að lokum skoða ráðningu starfsmanns til samtakanna. Ég mun koma inn á flest þessara atriða auk nokkurra annarra.
Nokkrar breytingar urðu á rekstrarfyrirkomulagi öldrunarþjónustu á Suðurnesjunum á síðasta ári. DS, dvalarheimili aldraðra sem rak hjúkrunarheimilið Garðvang í Garði og Hlévang í Reykjanesbæ, breytti starfsemi sinni. Heimilið í Garðinum var lagt niður og starfsemin flutt á Nesvelli, nýtt hjúkrunarheimili í Reykjanesbæ sem opnaði í mars á síðasta ári. Reykjanesbær og DS fólu Hrafnistu reksturs bæði Nesvalla og Hlévangs. Með þessu gengu Garðvangur og Hlévangur úr SFV og Hrafnista Nesvöllum og Hrafnista Hlévangi gengu í samtökin. Þá gengu Múlabær og Hlíðabær í samtökin fyrr á þessu ári. Ég býð ný heimili velkomin í samtökin og sérstaklega Þórunni Bjarney Garðarsdóttur forstöðumann Múlabæjar og Hlíðabæjar. Fyrrum framkvæmdastjóra Garðvangs og Hlévangs Finnboga Björnssyni þakka ég einnig kærlega fyrir gott samstarf um langt árabil.
Eins og svo mörg undanfarin ár þá hafa lífeyrisskuldbindingar aðildarfélaga SFV tekið mestan tíma stjórnarinnar og formannsins í vetur. Á síðasta aðalfundi lá fyrir undirritað samkomulag á milli SFV, fjármálaráðherra og forsvarsmanna LSR og LH um uppgjör lífeyrisskuldbindinga 12 hjúkrunarheimila sem eru rekin sem sjálfseignarstofnanir. Í sama samkomulagi kom fram að haldið yrði áfram vinnu við greiningu þjónustusamninga hinna fjögurra fræknu, Heilsustofnun NLFÍ, Krabbameinsfélags Íslands, SÁÁ og Sjálfsbjargar. Að því loknu, sem áætlað var að yrði fyrir síðustu áramót, ætlaði ríkisvaldið að taka upp viðræður við Samband íslenskra sveitarfélaga vegna lífeyrisskuldbindinga sem hvíla á hjúkrunarheimilum með sveitarfélagatengingu. Það er skemmst frá því að segja að samningar vegna fyrst nefndu 12 hjúkrunarheimilanna voru undirritaðir þann 10. júní sl. Með þeirri undirritun yfirtók ríkið lífeyrisskuldbindingar þeirra að fjárhæð 6 milljarða króna og samhliða því samþykktu hjúkrunarheimilin að greiða viðbótarlífeyrisframlag vegna þeirra starfsmanna sem enn væru við störf og greiddu í ofangreinda lífeyrissjóði. Þannig var tryggt að nýjar lífeyrisskuldbindingar mynduðust ekki hjá heimilunum. Framhald málsins gagnvart hinum fjóru fræknu og sveitarfélagaheimilunum hefur því miður ekki gengið eftir eins og samið var um. Allri vinnu vegna hinna fjögurra fræknu átti að vera lokið fyrir síðustu áramót og viðræður við Samband sveitarfélaga áttu að hefjast í september síðastliðnum og ljúka fyrir mitt þetta ár. Viðræður vegna hinna fjögurra fræknu eru vissulega hafnar en ganga afar hægt, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Við höfum átt nokkra fundi með Viðari Helgasyni og hans fólki í fjármálaráðuneytinu og aðeins var farið að skoða sérstaklega samninga og stöðu Krabbameinsfélags Íslands. En undanfarnar vikur hafa engir fundir fengist og þrátt fyrir talsvert aðhald og beiðnir mínar um fundi með Viðar og co þá hafa engir fundir verið haldnir í alltof langan tíma. Ég þekki þetta svo sem ágætlega eftir að hafa tekið sex ára samningalotu í málinu áður en nokkur árangur náðist af viti samanber það sem áður var sagt um frágang mála gagnvart hjúkrunarheimilunum 12. En ég átti síður von á að slíkur dráttur eins og orðið hefur væri eitthvað sem við þyrftum að horfa upp á. Ég hef reglulega ýtt á eftir málinu við Viðar en ekki orðið ágengt. Samningsstaða okkar er ekki góð. Við höfum áður farið yfir þá staðreynd að málshöfðun af okkar hálfu á hendur ríkinu er ekki vænlegt til árangurs. Þar að auki er hluti þjónustusamninga ríkisins við hin fjögur fræknu með þeim hætti að líklegt má telja að einhver hluti lífeyrisskuldbindinganna geti lent á þeim sjálfum en verði ekki yfirteknar af ríkisvaldinu. En auðvitað þarf að ná samningum í málinu og leysa þar með úr þeim hugsanlega ágreiningi um hver ber ábyrgð á hvaða fjárhæðum í þessu mikilvæga máli. Og að því stefnir stjórn SFV að sjálfsögðu. Af viðkynningu minni af Viðari tel ég því miður einu leiðina til að ná árangri að halda áfram að ýta á eftir málinu, ýta á eftir fundum og þannig þrýsta á ríkið að setjast að samningaborðinu. Jafnvel að óska eftir fundi með fjármálaráðherra til að ýta á eftir framgangi málsins. Hvað veldur þessu meinta áhugaleysi þeirra að leysa þetta mál get ég ekkert sagt til um, en vona svo sannarlega að úr rætist á næstu vikum. Það verður líklega ekki fyrr en í lok þessa árs, í fyrsta lagi að þessum áfanga ljúki og að hafnar verði viðræður við hjúkrunarheimilin með sveitarfélagatengingu.
Gerð þjónustusamninga á milli hjúkrunarheimila sem aðild eiga að SFV og Sjúkratrygginga Íslands hófst í byrjun þessa árs. Stjórnin skipaði fjögurra manna samninganefnd sem auk undirritaðs eiga sæti í frá stjórn Pétur Magnússon og Bjarki Þorsteinsson. Samband íslenskra sveitarfélaga óskaði eftir að skipa fulltrúa í nefndina og samþykkti stjórn SFV þá beiðni. Sambandið skipaði Gunnlaug Júlíusson sviðsstjóra Hag- og upplýsingasviðs í nefndina. Þá hafa tveir lögfræðingar frá Juris unnið með nefndinni, þau Andri Árnason og Dagbjört Erla Einarsdóttir. Fundahöld hófust í byrjun árs og til að byrja með var fundað vikulega. Upphaflega var stefnt að því að ljúka samningagerð fyrir 1. júní nk. Okkur sem þekkjum vel til samskipta við hið opinbera þótti þetta nokkuð bjartsýn áætlun enda kom það síðar í ljós. Við höfum haldið 8 formlega bókaða fundi með SÍ auk undirbúningsfunda okkar megin. Við lögðum mikla áherslu á það frá upphafi að samið yrði við okkur um rekstur hjúkrunarheimila í heild sinni en til að byrja með var samningsumboð Sjúkratrygginga takmarkað við umönnunarþáttinn. Með áherslu á heildina vildum við þar með fá umræðu um húsaleigugreiðslur fyrir það rými sem nýtt er undir hjúkrunarheimili. Eitthvað sem samtökin hafa barist fyrir í mörg ár en ekkert orðið ágengt. Nú gerist það á fundi okkar með Sjúkratryggingum sl. miðvikudag að Steingrímur Ari, forstjóri SÍ, leggur fram samningsmarkmið þeirra í málinu. Þar kemur meðal annars fram að umboð þeirra hefur verið víkkað út og nær nú til allrar starfseminnar. Einnig húsnæðisþáttarins. Margt áhugavert kemur fram í markmiðunum en setning í miðju blaðsins vakti mesta athygli okkar en hún hljóðar svo:
„Þjónustan skal kostnaðargreind og taka mið af öllum hagrænum kostnaði, þ.m.t. kostnaði vegna húsnæðis, fjármagns og afskrifta, sbr. 43. gr. laga um sjúkratryggingar.“
Tilvitnun lýkur. Hvað þýðir þetta? Í fyrsta lagi tel ég þetta vera eitt mikilvægasta skrefið í baráttu okkar fyrir því að fá greidda sanngjarna húsaleigu fyrir það húsnæði sem nýtt er undir hjúkrunarrými. Sérstaklega á þetta við sjálfseignarstofnanir sem hafa lagt til þetta húsnæði, sumar hverjar í áratugi, án þess að fá greidda húsaleigu. Nýju heimilin sem voru byggð samkvæmt svokallaðri leiguleið fá þessar greiðslur til sín í dag og því verður ekki breyting í þeirra tilvikum. Í öðru lagi er rétt að vera hóflega bjartsýnn á að þessar greiðslur fáist alveg á næstunni. Ef til vill ekki fyrr en á næsta ári, það á eftir að koma í ljós. Þó að Sjúkratryggingar vilji ræða og semja um sanngjarna húsaleigu er ekkert farið að skýrast með hvaða hætti slíkar greiðslur verða inntar af hendi. Hvort það verður ríkið, heimilismaðurinn, aðstandendur eða einhverjir allt aðrir sem greiða húsaleiguna á eftir að koma í ljós. Þegar ég hef viðrað þessi húsaleigugreiðslumál við forsvarsmenn ríkisvaldsins á undanförnum árum hef ég yfirleitt lagt til að heimilismaðurinn greiði sjálfur fyrir það einkarými eða herbergi sem hann hefur til umráða og ríkisvaldið greiði fyrir sameiginlegt rými. Þannig muni húsaleigukostnaður skiptast á milli einstaklingsins og ríkisins nokkurn veginn til helminga. Það er síðan útfærsluatriði hvernig kostnaðarþátttaka heimilismannsins verður að öðru leyti. Kemur allt saman í ljós seinna á þessu ári. En eins og áður sagði, ég er hóflega bjartsýnn á að við fáum húsaleigugreiðslur vegna hjúkrunarrýma, en tækifærði er vissulega fyrir hendi.
Kjaramálin voru í brennidepli síðastliðið vor. Boðað var til verkfalla hjá Sjúkraliðafélaginu og SFR hjá aðildarfélögum SFV og kom til verkfalls. Sem betur fer samdist á upphafsdögum verkfallsins og var samningurinn samþykktur og verkfalli aflýst. Stóð launanefndin í ströngu þetta vorið og leysti þetta verkefni með miklum sóma. Færi ég launanefndinni kærar þakkir fyrir gott og mikið vinnuframlag þeirra við lausn þeirra mála. Deila varð um lögmæti undanþágulista vegna verkfallsins og Hrafnista og SÁÁ voru langt komin með málið fyrir félagsdómi þegar verkfallið leystist. Og málarekstri þar með hætt. Nú í upphafi þessa árs, þegar aðildarfélögin ætluðu að fá birta undanþágulista hjá Stjórnartíðindum brá svo við að forsvarsmenn Stjórnartíðinda neituðu að birta undanþágulistana og vitnuðu til laga um þau málefni og sögðu aðildarfélögin ekki vera ríkisfyrirtæki. Sem þau réttilega eru alls ekki. Þrátt fyrir mikla vinnu og yfirlegu af hálfu lögfræðinga Juris og meira að segja í nánu samstarfi við heilbrigðis- og fjármálaráðuneyti, tókst þeim ekki að sannfæra forsvarsmenn Stjórnartíðinda að birta listana. Þar með er auglýsing undanþágulistanna ekki fyrir hendi og mikil óvissa ríkir um málið komi til verkfalls. Mörk, hjúkrunarheimili fékk bréf frá Eflingu þar sem farið var fram á fækkun starfsmanna á hverri vakt og annað bréf frá Sjúkraliðafélaginu þar sem boðið var til samningafundar um málið en að öðrum kosti hótað að fara með málið fyrir félagsdóm næðist ekki samkomulag um mönnun í verkfalli. Tillögu minni um tímasetningu fundarins sem félagið bauð upp á var ekki svarað og ekkert frekar hefur gerst í málinu. Hvað mun taka við ef til verkfalls kemur er því allsendis óvíst. Ég velti vöngum hvort að Sjúkraliðafélagið muni láta reyna á málið fyrir félagsdómi eins og hótað var í bréfinu. Stjórn samtakanna mun áfram vinna að lausn málsins.
Ríkisendurskoðun skilaði skýrslu til Alþingis um Rekstrarstöðu og fjárhagslega afkomu hjúkrunarheimila árið 2013. Formaður og varaformaður samtakanna áttu gott samstarf við Ríkisendurskoðun um skýrslugerðina og lögðum við talsverða vinnu og gögn til skýrslugerðarinnar. Fátt nýtt kom fram í skýrslunni. Rekstrarhalli heimilanna árið 2013 nam rúmum einum milljarði króna eða sem samsvara 4,66% af rekstrartekjum þeirra. Skýrslan vakti ótrúlega litla athygli og í raun má segja að málið hafi sofnað um leið og skýrslan kom út. Heilbrigðisráðherra, sem aðspurður um of lág daggjöld hjúkrunarheimila, sagðist alltaf vera að bíða eftir þessari skýrslu en svo þegar hún kom út þá gerði hann ekkert með hana eða niðurstöður hennar. Nákvæmlega ekki neitt. Ég spurði formlega hvort og þá með hvaða hætti ráðherra hygðist bæta hjúkrunarheimilum rekstrarhalla ársins 2013, og þar að auki fyrri ára, og fékk þau svör að ráðuneytið hefði engin tök á að bæta rekstrarhallann. Til hvers var þá verið að gera þessa skýrslu? Maður spyr sig. Hvað varðar framtíðina þá vísaði ráðherra til gerðar þjónustusamninga á vegum Sjúkratrygginga Íslands og hefur þeim þætti verið gerð skil framar í mínu máli.
Ein ráðstefna var haldin á yfirstandandi starfsári í maí á síðasta ári í samstarfi við Öldrunarráð Íslands og Landssamband eldri borgara. Ráðstefnan fjallaði um líknardauða – líknarmeðferð, hvar liggja mörkin. Fengum við meðal annars til okkar hollenskan sérfræðing sem sagði okkur frá hvernig þessum málum er háttað í hans heimalandi. Sitt sýnist hverjum í svo viðamiklu og viðkvæmu máli og líknardauði er. Ráðstefnan var mjög fjölsótt og vakti talsverða athygli fjölmiðla. Stefnan var að halda áfram með umfjöllunarefnið með einhverjum hætti, jafnvel í samstarfi við Krabbameinsfélag Íslands en því miður hefur ekki orðið af því.
Fulltrúi Almannaheilla, samtaka þriðja geirans, kom á fund stjórnar og kynnti fyrir okkur samtökin. Þau samtök voru stofnuð sumarið 2008 til að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum frjálsra félagasamtaka og sjálfseignastofnana sem starfa í almannaþágu. Í dag eru 24 aðildarfélög að samtökunum og má þar á meðal nefna Krabbameinsfélagið og SÁÁ en þau eru eins og kunnugt er einnig aðildarfélög SFV. Almannaheill mun senda aðildarfélögum SFV kynningarbréf og þar með boð um að ganga í Almannaheill. Þið skoðið það í ykkar herbúðum. Stjórnin tekur ekki afstöðu til inngöngu aðildarfélaganna og SFV mun ekki sem ein heild ganga í Almannaheill.
Kristján Sigurðsson þáverandi formaður launanefndar samtakanna sagði af sér að lokinni samningalotu síðasta vors. Því var boðað í fyrsta skipti til auka aðalfundar samtakanna og var hann haldinn 27. ágúst síðastliðinn. Í stað Kristjáns var kosinn Þröstur Árni Gunnarsson fjármálastjóri Krabbameinsfélags Íslands og gegnir hann nú formennsku í launanefnd samtakanna.
SFV var boðið til fundar með forsvarsmönnum Háskólans á Akureyri, stjórnendum Öldrunarheimila Akureyrar og stjórnendum búsetudeildar Akureyrar. Fundurinn var haldinn á Akureyri í desember síðastliðnum og stóð til að fljúga fram og til baka sama dag. Veður kom í veg fyrir það og dvaldi ég á Akureyri í þrjá daga, að mestu á vegum og undir verndarvæng Halldórs Guðmundssonar framkvæmdastjóra öldrunarheimila Akureyrar. Og kann ég honum bestu þakkir fyrir góðar móttökur. Fundurinn var góður og snerist um hvernig nota má í framtíðinni velferðartækni í öldrunarþjónustu. Stefnt var að ráðstefnu eða fundi um málefnið í vor en eitthvað hefur undirbúningur þess dregist. Vonandi verður þó af þessum góðu áformum.
Unnið er að úttekt á vinnuálagi starfsmanna hjúkrunarheimila í samvinnu við Eflingu stéttarfélag og Sjúkraliðafélag Íslands. Miðar vinnunni ágætlega og niðurstöður eru væntanlegar á næstunni. Stéttarfélögin hafa kvartað mikið undan vinnuálagi starfsmanna hjúkrunarheimila og það verður gott að fá á hreint hversu mikið vinnuálagið er í raun og veru.
Talandi um vinnuálag, þá hefur vinnuálag formanns, stjórnar og launanefndar aukist jafnt og þétt undanfarin ár. Mikill tími og orka fór í lausn lífeyrisskuldbindinga og gerð kjarasamninga er nánast farin að eiga sér stað allan ársins hring. Ef ekki bein kjarasamningagerð þá útfærsla á stofnanasamningum, mat á hinum og þessum þáttum varðandi kjaramál, samningar um réttindi starfsmanna og fleira mætti telja. Aðkoma okkar að skýrslugerð Ríkisendurskoðunar var tímafrek. Gerð þjónustusamninga við Sjúkratryggingar Íslands og framhald samninga um lífeyrisskuldbindingar eru einnig viðamikil og tímafrek verkefni. Maður í fullu starfi annars staðar, það er að segja ég sjálfur, get ekki sinnt öllum þessum verkefnum af þeim krafti sem nauðsynlegt er að sinna að mínu mati. Sama er að segja um formann launanefndar, stjórnarmenn og aðra launanefndarmenn. Það var því ákveðið af stjórn samtakanna í upphafi þessa árs, að halda félagsfund um málið í febrúar og leggja til við fundinn að auglýsa eftir lögfræðimenntuðum starfsmanni til samtakanna sem allra fyrst. Við fengum Capacent til að aðstoða við ráðninguna. 43 sóttu um starfið og fyrir valinu varð Eybjörg Helga Hauksdóttir. Hún situr aðalfundinn með okkur og hefur störf í maí. Ég bind miklar vonir við Eybjörgu og er sannfærður um að þetta var tímabært og skynsamlegt skref hjá samtökunum. Þið eigið eftir að kynnast henni og verðið eflaust í sambandi við hana á næstu mánuðum út af þeim málum sem á ykkur brennur og við erum að vinna að. Ég býð Eybjörgu hjartanlega velkomna til starfa hjá okkar ágætu samtökum.
Vegna ráðningar starfsmanns til SFV verður lagt til af gjaldkera vorum á eftir að aðildargjöld árið 2015 tvöfaldist frá síðasta ári. Tillaga þess efnis var reyndar rædd á félagsfundi sem við héldum þann 13. febrúar síðastliðinn og var hún samþykkt af öllum þeim sem sátu þann fund. Ég á því ekki von á öðru en væntanleg hækkun aðildargjaldanna gangi snuðrulaust eftir. Fjárhagsstaða samtakanna er góð. Umsvif hafa vissulega aukist og kostnaður þar með. Það er svo verkefni nýrrar stjórnar að sjá til þess að aðildargjöldin dugi fyrir væntanlegum rekstrarkostnaði samtakanna.
Ragnheiður Haraldsdóttir forstjóri Krabbameinsfélagsins hefur setið í stjórn SFV í þrjú ár. Hún gefur ekki kost á sér til endurkjörs. Því miður. Það hefur verið afburðagott að vinna með Ragnheiði. Hreinskiptin og úrræðagóð í öllum þeim verkefnum sem stjórnin hefur ráðist í, þann tíma sem hún hefur átt sæti í stjórninni. Ég mun sakna þess að hafa Ragnheiði ekki í stjórn SFV. Sem þakklætisvott vil ég biðja Ragnheiði að koma til mín og þiggja lítið umslag frá samtökunum og vona að hún njóti vel.
Ég var fyrst kosinn formaður samtakanna vorið 2008 og hef því gegnt formennskunni í sjö ár. Kannski eru einhverjir orðnir leiðir á mér en mér finnst starfið gefandi og skemmtilegt og ég sækist fast eftir því að halda áfram sem formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, í það minnsta eitt ár í viðbót. Vonandi nýt ég trausts ykkar til þess í kosningum til formanns hér á eftir. Ég vil í lokin nota þetta tækifæri og þakka stjórnarmönnum afar gott samstarf, lögfræðingum Juris og ykkur öllum sömuleiðis fyrir gott og farsælt samstarf á yfirstandandi starfsári.
Gísli Páll Pálsson, formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu
Flutt á aðalfundi SFV haldinn í Seljahlíð föstudaginn 17. apríl 2015