„Heimsóknabannið bjargaði fjölda mannslífa hér á landi“
Fréttablaðið birti um nýliðna helgi frétt um niðurstöður úr rannsókn á hagkvæmni heimsóknarbanns á dvalar- og hjúkrunarheimilunum Grund og Mörk í Reykjavík og Ási í Hveragerði, tímabilið mars til maí 2020. Að rannsókninni stóðu þau Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, prófessor við hagfræðideild Háskóla Íslands, og hagfræðingarnir Þórólfur Matthíasson, Bergþóra Þorvaldsdóttir og Guðný Halldórsdóttir, auk Gísla Páls Pálssonar forstjóra Grundarheimilanna.
Meginniðurstaða rannsóknarinnar var sú að ef ekki hefði verið gripið til heimsóknarbanns í upphafi kórónaveirufaraldursins á útmánuðum 2020 hefði dánartíðni fólks orðið margfalt meiri en hún varð í raun.
Í samtali við Fréttablaðið sagði Gísli Páll Pálsson niðurstöðurnar tala sínu máli:
„Við misstum engan úr Covid-19 á þessu tímaskeiði – og ég þakka það heimsóknabanninu, en ef við hefðum ekki gripið til þessa ráðs má ætla að minnst 40 og allt að 80 manns á heimilunum hefðu látist af völdum farsóttarinnar á þessu þriggja mánaða tímabili þegar hún lagðist af fullum þunga á samfélagið“
„Þetta er í samræmi við dánartíðni fólks á erlendum hjúkrunarheimilum, en þar létust á milli 10 og 20 prósent heimilismanna úr Covid-19 á þessum tíma þar sem óheftar heimsóknir aðstandenda og annarra voru áfram leyfðar.“