Fréttir og tilkynningar

Ríkið ásælist fleiri Sunnuhlíðar

gislipall

Fjármál hjúkrunarheimila landsins hafi ekki farið hátt í umræðunni undanfarið.  Skýrsla Ríkisendurskoðunar (nóv. 2014) þess efnis að hallarekstur þeirra árið 2013 hafi numið rúmlega einum milljarði eða 4,66% af rekstrartekjum, vakti furðu litla athygli.  Þá virðast sveitarstjórnarmenn vera sáttir og sælir með þá staðreynd að sveitarfélögin lögðu sínum hjúkrunarheimilum til tæpan milljarð árið 2013 vegna ónógra fjárframlaga ríkisins.  Furðuleg afstaða svo ekki sé meira sagt.

Við gerð kjarasamninga sl. vor sömdu aðildarfélög Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, SFV, við viðkomandi stéttarfélög með sambærilegum hætti og ríkið gerði. Og við hjá SFV reiknuðum með því og höfðum reyndar vilyrði fyrir því að fá sambærilegar og sanngjarnar launabætur þegar koma skyldi að fjáraukalagagerð ársins 2014 og að sérstaklega yrði horft til skýrslu RES í þeim efnum. En þegar við eigum síðan fundi með fulltrúum heilbrigðis- og fjármálaráðuneyta vegna þessara mála á síðustu vikum, þá kemur í ljós að fjármálaráðuneytið reiknar með því að launakostnaður heimilanna nemi 75% af daggjaldatekjum þeirra, en í ofangreindri skýrslu kemur fram að hann nemur 87,15%. Enginn smá munur og þegar launabætur eru reiknaðar miðað við réttar upplýsingar, og nýrri geta þær vart orðið, þá munar rétt tæpum 90 milljónum króna hversu lægri þær eru en ættu í raun að vera. Svör fjármálaráðuneytis af hverju 75% eru notuð voru á þá leið að hlutfallið hafi verið 75% einhvern tíma. Fjármálaráðuneytinu er (vonandi) fullkunnugt um þessar hlutfallstölur úr skýrslunni góðu en virðist vísvitandi nota 75% hlutfallið þar sem slíkt þýðir lægri framlög til heimilanna í ár. Og þar að auki „flyst“ þessi skekkja yfir í daggjöld ársins 2015 ef þannig mætti að orði komast. Fleiri atriði mætti tína til sem leiða til þess að fjárframlög til hjúkrunarheimila eru með ófullnægjandi hætti. Allt þetta hefur leitt til þess að lausafjárstaða all nokkurra hjúkrunarheimila er grafalvarleg og líkur á greiðsluþroti einhverra þeirra á næstunni hafa aukist verulega vegna þessarar afstöðu ráðuneytanna.

Helst dettur manni í hug að ríkisvaldið ásælist fleiri Sunnuhlíðar og aðferðin til þess er að knýja fleiri hjúkrunarheimili í greiðsluþrot og taka síðan yfir starfsemi þeirra. Öðruvísi mér áður brá. Sérstaklega sé litið til þess að ráðuneyti heilbrigðis- og fjármála heyra undir stjórnmálaflokk sem hingað til hefur ekki verið þekktur fyrir áhuga á ríkisvæðingu einkafyrirtækja.

Höfundur er formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu

Birtist í Mogganum í desember 2014